Faisal bin Abdul Aziz al-Sád

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Skjaldarmerki Sád-ætt Konungur Sádi-Arabíu
Sád-ætt
Faisal bin Abdul Aziz al-Sád
Faisal bin Abdul Aziz al-Sád
فيصل بن عبدالعزيز آل سعود‎
Ríkisár 2. nóvember 196425. mars 1975
SkírnarnafnFaisal bin Abdul Aziz al-Sád
Fæddur14. apríl 1906
 Ríad, Nejd
Dáinn25. mars 1975 (68 ára)
 Ríad, Sádi-Arabíu
GröfAl-Oud-grafreiturinn, Ríad
Konungsfjölskyldan
Faðir Ibn Sád
Móðir Tarfa bint Abdúlla bin Abdullatif Al Sjeikh

Faisal bin Abdul Aziz al-Sád (14. apríl 1906 – 25. mars 1975) (Arabíska: فيصل بن عبدالعزيز آل سعود) var þriðji konungur Sádi-Arabíu frá 1964 til dauðadags árið 1975. Honum er talið til tekna að hefja nútímavæðingu Sádi-Arabíu og hafa komið jafnvægi á fjármál ríkisins.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Faisal var þriðji sonur Ibns Sád, stofnanda og fyrsta konungs Sádi-Arabíu. Sem ungur maður tók Faisal þátt í herförum föður síns til að sameina konungsríki sitt á Arabíuskaganum. Eftir sameiningu Sádi-Arabíu undir stjórn Ibns Sád varð Faisal utanríkisráðherra konungdæmisins og fékk í því embætti að ferðast víða um erlend ríki.[1]

Eftir að Ibn Sád lést árið 1953 tók eldri bróðir Faisals, Sád, við konungdómi í Sádi-Arabíu. Sád var fljótur að útnefna Faisal ríkisarfa og forseta ríkisráðsins í samræmi við hinstu óskir föður þeirra, sem hafði komist svo að orði í erfðaskrá sinni að „hinn stjórnvitri, víðreisti og sparsami Faisal [væri] betur hæfur til að takast á hendur ríkisstjórn en hinn meinlausi og smábrotni Sád“.[2]

Faisal og Sád höfðu ólíkar hugmyndir um stjórn ríkisins og um stöðu Sádi-Arabíu meðal arabaþjóða. Á valdaárum Sáds hlóðst mikill greiðsluhalli upp í ríkisfjármálum landsins vegna gegndarlausrar eyðslu konungsins. Sád varð nauðugur að veita Faisal stjórn yfir ríkisfjármálum árið 1957 og Faisal hóf um hæl að skera niður í ríkisútgjöldum. Þetta geðjaðust Sád lítt og hann gerði á næstu árum tilraunir til að ógilda tilskipanir bróður síns á meðan Faisal var fjarverandi vegna veikinda.[2]

Árið 1964 fór svo að Faisal framdi valdarán með stuðningsmönnum úr röðum aðalsmanna og trúarleiðtoga. Sád var þvingaður til afsagnar og Faisal tók við konungdómi í nóvember þetta ár. Sem konungur reyndi Faisal að láta aukinn hlut af olíutekjum landsins renna til almenningsnota. Hann lét meðal annars reisa fjölda nýrra skóla, verksmiðja og íbúðarhúsa, leggja vatnsleiðslur, hefja sandgræðslu og eimingu sjávarvatns í ferskvatn í verksmiðjum. Þá lét hann jafnframt stofna tvær ríkissjónvarpsstöðvar í Ríad og Jeddah. Stúlkur Sádi-Arabíu fengu á valdatíð Faisals rétt til að ganga í skóla og efnilegir nemendur voru gjarnan kostaðir til náms erlendis.[3] Faisal lét einnig formlega banna þrælahald í Sádi-Arabíu.[4]

Stofnun sjónvarpsstöðva í Sádi-Arabíu varð umdeild meðal íhaldsmanna þar sem wahhabistar töldu sjónvarp stríða gegn íslömskum bönnum gegn því að skapa myndir af manneskjum.[5]

Faisal var á yngri árum talinn hallur undir hugmyndir Gamals Abdel Nasser Egyptalandsforseta um sam-arabíska þjóðernishyggju en sem konungur átti Faisal í stirðara sambandi við stjórn Nassers. Þegar Nasser sendi egypska hermenn til að styðja uppreisn lýðveldissinna í borgarastyrjöldinni í Norður-Jemen brást Faisal við með því að vopna her einveldissinna í landinu, enda óttaðist hann að stuðningsmenn Nassers myndu nota sigur í Norður-Jemen sem stökkpall inn í Sádi-Arabíu.[3]

Eftir Jom kippúr-stríðið árið 1973 átti Faisal þátt í því að samþykkja útflutningsbann arabaríkjanna á olíu til vesturlanda til að refsa þeim fyrir stuðning sinn við Ísrael.[6] Þetta leiddi til olíukreppunnar 1973, en með tilheyrandi hækkun olíuverðs ruku ríkistekjur Sádi-Arabíu upp.[7]

Þann 25. mars árið 1975 var Faisal viðstaddur áheyrnarfund í Ríad ásamt kúveiskum olíuverslunarmönnum. Á fundinum réðst frændi Faisals, prinsinn Faisal bin Musaid, að konungnum og skaut hann þrisvar í höfuðið með skammbyssu. Faisal lést úr sárum sínum síðar sama dag.[5] Tilgáta er um að prinsinn hafi myrt Faisal til að hefna bróður síns, sem hafði verið drepinn árið 1966 þegar hann tók þátt í árás wahhabista á sádi-arabísku sjónvarpsstöðina sem Faisal hafði stofnað.[8] Prinsinn var tekinn af lífi fyrir konungsmorðið og Khalid, bróðir Faisals, varð nýr konungur Sádi-Arabíu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Feisal kóngur í Saudi-Arabíu“. Lesbók Morgunblaðsins. 27. janúar 1974. Sótt 28. september 2019.
  2. 2,0 2,1 „Saud konungur“. Lesbók Morgunblaðsins. 11. nóvember 1962. Sótt 27. september 2019.
  3. 3,0 3,1 „Feisal konungur“. Lesbók Morgunblaðsins. 10. júlí 1966. Sótt 28. september 2019.
  4. „Feisal er voldugasti forustumaður Araba“. Tíminn. 23. desember 1973. Sótt 28. september 2019.
  5. 5,0 5,1 Vera Illugadóttir. „Konungar Sádi-Arabíu“. RÚV. Sótt 28. september 2019.
  6. Jack Anderson (25. nóvember 1973). „Feisal vill verða aðalleiðtogi Araba“. Tíminn. Sótt 28. september 2019.
  7. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Mið-Austurlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Reykjavík: Mál og menning. bls. 242. ISBN 978-9979-3-3683-9.
  8. Commins, David (2006). The Wahhabi Mission and Saudi Arabia. bls. 110. ISBN 1-84511-080-3.


Fyrirrennari:
Sád
Konungur Sádi-Arabíu
(2. nóvember 196425. mars 1975)
Eftirmaður:
Khalid