Fara í innihald

Evelyn Waugh

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Evelyn Waugh
Fæddur
Arthur Evelyn St. John Waugh

28. október 1903
West Hampstead, London, England
Dáinn10. apríl 1966 (62 ára)
Combe Florey, Somerset, England
ÞjóðerniEnglendingur
MenntunHertford College, Oxford
StörfRithöfundur, kennari, fréttaritari, hermaður
Ár virkur1923–1964
Þekktur fyrirBrideshead Revisited
TrúRómversk-kaþólskur
MakiEvelyn Gardner (g. 1929, ógilt 1936) Laura Herbert (g. 1937)
Börn7, þ.m.t. Auberon Waugh
VerðlaunHawthornden Prize (1936) James Tait Black Memorial Prize (1952)

Arthur Evelyn St. John Waugh (28. október 1903–10. apríl 1966), kunnur sem Evelyn Waugh, var enskur rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir skáldsögur sínar en ritaði einnig ævisögur, ferðabækur og greinar í dagblöð og tímarit. Á meðal frægustu verka hans eru Decline and Fall (1928), A Handful of Dust (1934) og Brideshead Revisited (1945). Waugh er almennt talinn einn af mestu stílistum enskrar tungu á 20. öld.

Waugh fæddist og ólst upp í Hampstead í London. Faðir hans, Arthur, var háttsettur starfsmaður hjá útgáfurisanum Chapman & Hall og ritaði auk þess um bókmenntir í dagblöð. Hann sendi son sinn í heimavistarskóla, Lancing College í Vestur-Sussex, og þaðan útskrifaðist Waugh með ágætum árangri árið 1921. Í framhaldinu hlaut hann styrk til náms í sagnfræði við Hertford College í Oxford og dvaldi þar í tvö ár. Waugh sinnti náminu lítið en vingaðist við afmarkaðan hóp efnaðra stúdenta sem settu sterkan svip á lífið í Oxford-háskóla á þessum tíma. Margir þeirra voru listhneigðir og undir sterkum áhrifum af módernískum skáldum á borð við Ezra Pound og T. S. Eliot auk þess að vera tortryggnir á nútímann, tæknihyggju og fjöldaframleiðslu. Hafði þessi félagsskapur mikil áhrif á viðhorf Waugh til frambúðar.

Eftir að Waugh hvarf frá námi starfaði hann um tíma sem barnaskólakennari í Wales og Buckinghamshire. Fyrsta ritverkið sem hann sendi frá sér var ævisaga um myndlistarmanninn Dante Gabriel Rossetti. Hann sló hins vegar í gegn með fyrstu skáldsögu sinni, Decline and Fall, háðsádeilu sem kom út sama ár og bókin um Rossetti, 1928. Árið eftir kvæntist hann fyrri konu sinni, Evelyn Gardner, en því hjónabandi lauk sviplega nokkrum mánuðum síðar þegar hún yfirgaf hann og tók upp samband við sameiginlegan kunningja þeirra. Sú staðreynd að þau deildu fornöfnum varð til þess að vinir þeirra uppnefndu þau „hann og hún Evelyn“. Á fjórða áratugnum ferðaðist hann um Afríku og Suður-Ameríku sem fréttaritari og ritaði ferðasögur auk þess að nota reynslu sína af fjarlægum löndum í skáldskap. Sem blaðamaður var hann viðstaddur krýningu Haile Selassie Abessiníukeisara í Addis Ababa árið 1930. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar gegndi hann herþjónustu í konunglega sjóhernum, lengst af sem höfuðsmaður. Hann tók m.a. þátt í orrustunni um Krít árið 1941 og fór í herleiðangur undir stjórn Randolph Churchill, sonar Winston Churchill, til Júgóslavíu 1944–1945. Waugh mun hafa komið stuttlega við á Íslandi sumarið 1941 á vegum hersins. Almennt undi hann sér illa í hernum og sagt er að hann hafi verið óvinsæll á meðal undirmanna sinna.

Waugh glataði trú sinni á skólaárunum í Lancing College en öðlaðist hana á ný síðar og gerðist kaþólskur árið 1930. Sú ákvörðun kom fjölskyldu hans og vinum á óvart en hana mun Waugh hafa tekið eftir langa umhugsun. Þá var hann nýskilinn við Gardner og næstu árin lagði hann mikið á sig við að ná fram ógildingu á hjónabandi þeirra hjá kaþólskum kirkjuyfirvöldum. Það fékkst árið 1936 og í framhaldinu giftist hann öðru sinni, Laura Herbert. Trúin varð veigamikill þáttur af lífi Waughs á síðari árum og setti sterkan svip á mörg verka hans en þó einkum á Brideshead Revisited og Helena (1950). Þá ritaði hann einnig ævisögur kaþólsku prestanna Ronald Knox og Edmund Campion. Hann var harður andstæðingur breytinga á messuformi kirkjunnar í kjölfar annars Vatíkanþingsins á sjöunda áratugnum.

Waugh hlaut alþjóðlegt lof fyrir Brideshead Revisited árið 1945 og telst það frægasta og vinsælasta verk hans. Eftir stríð leitaðist hann hins vegar við að halda sig úr sviðsljósinu. Hann átti erfitt með að sætta sig við mörg af þeim stefnuviðmiðum sem urðu ofan á í bresku samfélagi í kjölfar stríðsins, svo sem er vörðuðu uppbyggingu velferðarkerfis. Lífsstíll hans gerði að verkum að líkamlegri heilsu hans hrakaði mjög. Hann var plagaður af þunglyndi og erfiðleikar með svefn gerðu hann háðan svefnlyfjum. Sérkennileg framkoma setti af stað alls kyns sögusagnir um hann sem furðufugl sem hataðist við nútímann. Engu að síður var hann áfram virtur sem höfundur og satíristi. Þekktasta verk hans eftir stríð er þríleikurinn The Sword of Honour (1952–1961) þar sem hann gerði upp persónulega upplifun sína á seinni heimsstyrjöldinni.

Waugh lést á páskadag 1966.

Eldri bróðir hans, Alec, var einnig rithöfundur.

Sonur Evelyn Waugh, Auberon, haslaði sér völl sem rithöfundur og ritstjóri.