Fara í innihald

Eliza Reid

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Elísa árið 2019.

Eliza Jean Reid (f. 5. maí 1976)[1] er kanadískur sagnfræðingur. Hún var forsetafrú Íslands frá ágúst 2016 til ágúst 2024 en Eliza er eiginkona Guðna Th. Jóhannessonar fyrrverandi forseta Íslands. Áður en hún varð forsetafrú skrifaði hún fyrir ýmis íslensk tímarit, þar á meðan Icelandair Stopover frá 2012 til 2016.

Menntun og starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Eliza Reid fæddist í Ottawa í Kanada og eru foreldrar hennar hjónin Hugh Reid kennari og Allison Reid húsmóðir. Eliza á tvo bræður þá Ewan Reid verkfræðing og Ian Reid rithöfund.[2]

Eliza lauk bakkalársgráðu í alþjóðasamskiptum frá Trinity College í Toronto-háskóla og útskrifaðist síðar frá St. Anthony's College við Oxford-háskóla með meistarapróf í sagnfræði.[3]

Eftir að Eliza fluttist til Íslands árið 2003 gerðist hún blaðamaður hjá ýmsum íslenskum tímaritum. Hún skrifaði fyrir Reykjavík Grapevine og Iceland Review frá 2005 til 2008 og var ritstjóri Iceland Stopover. Hún er meðstofnandi Iceland Writers Retreat, árlegs móts rithöfunda sem koma til Íslands til að vinna að skriftum í litlum hópum og kynna sér íslenskar bókmenntir.[3]

Forsetafrú

[breyta | breyta frumkóða]

Eliza varð forsetafrú Íslands þegar eiginmaður hennar, Guðni Th. Jóhannesson, tók við embætti forseta Íslands þann 1. ágúst 2016. Eliza hefur sagt í viðtölum að henni hafi þótt nokkuð erfitt í upphafi að engar reglur hafi verið tiltækar varðandi hið nýja hlutverk hennar sem forsetafrú og því hafi hún þurft að móta hlutverkið að nokkru leyti sjálf en hún sé jákvæð að eðlisfari og hafi haft ánægju af þessari nýju áskorun.[4] Sem forsetafrú hefur Eliza komið fram við ýmis tækifæri og flytur gjarnan ræður, ávörp og fyrirlestra og leggur ýmsum góðgerðarmálum lið og er t.d. verndari nokkurra íslenskra samtaka. Árið 2018 þáði Eliza boð um að gerast verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi[5] og í september árið 2019 var tilkynnt að Eliza yrði verndari ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands.[6] Einnig er hún verndari Alzheimersamtakanna og Pieta samtakanna.

Eliza hefur ferðast töluvert með Guðna og þau m.a. farið í opinberar heimsóknir til Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands, Póllands, Grænlands og Eistlands en hún hefur einnig tekið að sér sjálfstæð verkefni á erlendri grundu. Árið 2017 heimsótti hún konur sem dveljast í flóttamannabúðum UN Women í Jórdaníu[7] og árið 2018 vakti það talsverða athygli þegar Eliza fór til Rússlands og var á meðal áhorfenda á leik Íslands og Argentínu á heimsmestaramótinu í knattspyrnu en íslenska ríkisstjórnin hafði ákveðið að ráðamenn þjóðarinnar yrðu ekki viðstaddir leikinn.[8]

Í ágúst árið 2019 vakti pistill sem Eliza ritaði á facebook síðu sína talsverða athygli en þar varpaði hún fram ýmsum vangaveltum um hlutverk maka þjóðhöfðingja. Hún nefndi sem dæmi að gjarnan væri einungis gert ráð fyrir því að makar þjóðhöfðingja, í flestum tilvikum konur, væru aðeins fylgihlutir maka sinna á opinberum vettvangi og væri gert að taka þátt í sérstakri dagskrá eins og að skoða list­sýningar og hugsa um börn á meðan eigin­menn þeirra ræði alvarlegri málefni. Eliza hefur áhuga á að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi og tekur fram í pistlinum að hún sé ekki handtaska eiginmanns síns.[9]

Í október árið 2019 var tilkynnt að Eliza hefði gengið til liðs við Íslandsstofu og myndi taka að sér launaða stöðu sem talsmaður Íslandsstofu á erlendum viðburðum árið 2020. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem forsetafrú Íslands tekur að sér launað starf.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Mbl.is, „Guðni verður yngsti forsetinn“ (skoðað 26. september 2019)
  2. Stundin.is, „Hér er heimili mitt“ (skoðað 26. september 2019)
  3. 3,0 3,1 „ELIZA JEAN REID“. Forseti Íslands. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2018. Sótt 16. mars 2018.
  4. Vb.is, „Fjölbreytt hlutverk forsetafrúar“ (skoðað 26. september 2019)
  5. „Forsetafrúin verndari Félags Sameinuðu þjóðanna“. Unric.org. 19. apríl 2018.[óvirkur tengill]
  6. Sinfonia.is, „Eliza Reid verndari ungsveitarinnar“ (skoðað 26. september 2019)
  7. Unwomen.is, „Forsetafrú Íslands heimsækir griðastaði UN Women“ (skoðað 26. september 2019)
  8. Alma Ómarsdóttir, „Forsetafrúin fer til Moskvu á kostnað ríkisins“ Ruv.is, (skoðað 26. september 2019)
  9. Frettabladid.is, „Eliza Reid ekki fylgihlutur eiginmanns síns“ Geymt 26 september 2019 í Wayback Machine (skoðað 26. september 2019)
  10. Mbl.is, „Forsetafrú til Íslandsstofu“ (skoðað 1. nóvember 2019)