Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi er íslensk félagasamtök stofnuð í apríl 1948 á svipuðum tíma og sambærileg félög í öðrum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Síðan þá telja Félög Sameinuðu þjóðanna vel á annað hundrað, en aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru 193. Framtíðarsýn samtakanna er að Félag Sameinuðu þjóðanna verði áhrifamikill vettvangur fyrir öfluga upplýsingagjöf um SÞ. Markmið félagsins eru eftirfarandi:

  1. Að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna.
  2. Að áhrifavöld í þjóðfélaginu hafi þekkingu á og starfi með Félagi Sameinuðu þjóðanna.
  3. Að stuðla að því að þorri þjóðarinnar styðji alþjóðlegt þróunarstarf.
  4. Að Ísland taki stöðu með þeim alþjóðalögum sem styðja við hugsjónir og markmið Sameinuðu þjóðanna.

Félagið er rekið með frjálsum framlögum og með styrkjum frá íslenska ríkinu. Félagið hefur einn starfsmann á launum, Berglindi Sigmarsdóttur, framkvæmdastjóra. Meðal verkefna sem félagið hefur komið að er rekstur vefanna un.is og 2015.is.

Stjórn Félags Sameinuðu þjóðanna[breyta | breyta frumkóða]

Stjórn Félags Sameinuðu þjóðanna er kosin á aðalfundi félagsins. Stjórn skipa: Þröstur Freyr Gylfason, formaður; Bogi Ágústsson, fréttamaður; Bryndís Eiríksdóttir, meistaranemi; Gréta Gunnarsdóttir, sendiherra; Nanna Magnadóttir, lögfræðingur og forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála; Páll Ásgeir Davíðsson, lögfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í New York, Kongó, Súdan og Kenýa; Petrína Ásgeirsdóttir, MA í alþjóðlegum friðarfræðum og fyrrverandi framkvæmdastjóri AFS og Barnaheilla; Svava Jónsdóttir, blaðamaður og meistaranemi í alþjóðasamskiptum; Þór Ásgeirsson, kennari, sjávarvistfræðingur og aðstoðarforstöðumaður Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.


Miðstöð Sameinuðu þjóðanna[breyta | breyta frumkóða]

Áður en Félag Sameinuðu þjóðanna fékk aðstöðu í sameiginlegri Miðstöð SÞ á Laugavegi 42 hafði það um árabil haft starfsaðstöðu í Austurstræti. Þegar sú aðstaða var ekki lengur fyrir hendi fékk félagið í nokkur ár afnot af herbergi hjá utanríkisráðuneytinu ásamt fundaraðstöðu. Var það afar mikilvægur stuðningur utanríkisráðuneytisins við Félag Sameinuðu þjóðanna því allstórt hlutfall af fjármagni félagsins hafði um árabil farið í húsnæðisrekstur í stað verkefna. Sú breyting, að komast í sameiginlega Miðstöð SÞ, var því mikil og opnaði fyrir nýja möguleika í starfsemi félagsins. Miðstöðin var opnuð 12. mars 2004 og var fyrst til húsa í Skaftahlíð 24. Á degi Sameinuðu þjóðanna, 24. október, árið 2005 var ný Miðstöð Sameinuðu þjóðanna formlega opnuð á Laugavegi 42, 2. hæð. Þennan dag var 60 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna fagnað, og af því tilefni og formlegrar opnunar nýrrar Miðstöðvar SÞ efndu Félag Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við UNRIC (Upplýsingaskrifstofa S.Þ. fyrir V-Evrópu) til veglegs málþings um Sameinuðu þjóðirnar sextugar, undir yfirskriftinni: "Eftir leiðtogafundinn, hvað nú?". Í lok apríl 2012 fluttu fluttu félögin þrjú miðstöðina að Laugaveg 176 og eru þar í góðu leiguhúsnæði á fimmtu hæðinni. Sameiginlega reka Miðstöð SÞ þrjú félög, þ.e. Unicef, UN Women og Félag Sameinuðu þjóðanna.

Stefna og markmið[breyta | breyta frumkóða]

Stefnukort Félags Sameinuðu þjóðanna var samþykkt af stjórn við upphaf ársins 2012. Leiðarljósin eru talin hér að neðan og framtíðarsýn þess sömuleiðis. Leiðarljós Félags Sameinuðu þjóðanna

  • Að stuðla að samræðum og samstarfi allra þjóða heims
  • Að vinna að því að treysta alþjóðafrið og öryggi

Framtíðarsýn Félags Sameinuðu þjóðanna

  • Að þorri þjóðarinnar styðji með beinum hætti alþjóðlegt þróunarstarf.
  • Að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna.
  • Að áhrifavöld í þjóðfélaginu hafi þekkingu á og starfi með Félagi Sameinuðu þjóðanna.
  • Að Ísland taki stöðu með þeim alþjóðalögum sem styðja við hugsjónir og markmið SÞ.
  • Að Félag Sameinuðu þjóðanna sé áhrifamikill vettvangur fyrir öfluga upplýsingagjöf um SÞ.

Málefnin sem félagið mun beina athygli sinni að á næstu þrjú árin eru:

  • mannréttindi
  • sjálfbær þróun
  • friðar- og öryggismál.

Málefnaflokkarnir hafa áhrif á aðgerðaráætlunina eins og gefur að skilja.

Deilimarkmið eru einnig skjalfest og breytast þau frá ári til árs og móta verkefni hvers vetrar. Þau eru síðan nánar skilgreind með mælanlegum einingum þannig að stjórn félagsins getur með einföldum máta metið árangur starfsins útfrá markmiðum þess.

Alþjóðlegt samstarf[breyta | breyta frumkóða]

Norrænt samstarf[breyta | breyta frumkóða]

Systursamtökin á Norðurlöndunum eru mjög öflug og Félag Sameinuðu þjóðanna hefur gott samstarf við þau. Samráðsfundir eru haldnir meðal félaganna árlega þar sem skipst er á hugmyndum, enda fer mikið starf fram hjá félögunum sem hafa samtals um sextíu starfsmenn í fullu starfi. Hafa systurfélögin boðið Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi endurgjaldslaust allt það kynningar- og upplýsingaefni sem þau hafa hannað og framleitt. Í samræmi við almenn markmið félagsins, er verkefnið því að velja úr öllu því góða efni sem til er á Norðurlöndum, þýða það og staðfæra. Framkvæmdastjórar norrænna Félaga SÞ á Íslandi í júní 2011 Fundur framkvæmdastjóra félaga Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndunum var haldinn í Reykjavík dagana 27. – 29. júní. Slíkir fundir eru haldnir árlega og skiptast norrænu félögin á að vera gestgjafar. Auk framkvæmdastjóra félaganna fimm og samstarfsmanna þeirra sátu fundinn stjórnarmeðlimir Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Fundað var m.a. með utanríkisráðuneytinu og upplýsingum miðlað um starfsemi félaganna á Norðurlöndunum. Helstu málefni fundanna voru samstarf félaganna, framtíð upplýsingavefsins Globalis, norrænt Model United Nations þing í Finnlandi á næsta ári og almennt yfirlit yfir starfsemi hvers félags fyrir sig. Öll félögin halda úti heimasíðu og eru þær eftirfarandi: Finnland www.yk.fi – , Danmörk – www.fnforbundet.dk, Noregur – www.fn.no, Svíþjóð – www.fn.se.

Evrópusamstarf[breyta | breyta frumkóða]

Evrópusamstarfið er einnig gott, en á þeim vettvangi höfðu félög Sameinuðu þjóðanna í Evrópu lengi starfað undir merkjum UNA-EU Liaison Group. Í ársbyrjun 2007 var svo samþykkt að efla og skýra formið á samstarfinu frekar og var þá tekið upp nýtt nafn á samstarfshópnum: UNA Europe Network.

IceMUN[breyta | breyta frumkóða]

Undirfélag Félags Sameinuðu þjóðanna, Icelandic Model United Nation (IceMUN), hefur á undanförnum árum unnið mikilvægt hlutverk í því að mennta háskólanema um starfsemi hinna ýmsu stofnana Sameinuðu þjóðanna. Model United Nations (MUN) er vettvangur þar sem nemendur koma saman og setja á svið starfsemi helstu stofnanna Sameinuðu þjóðanna á sem raunverulegastan hátt og takast á við aðkallandi vandamál í alþjóðasamfélaginu. Þátttakendum er deilt niður á ákveðin lönd og eru því sendifulltrúar þeirra landa. Oftar en ekki hefur Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna verið sett á svið og allar formreglur ráðsins virtar. Þess má geta að MUN ráðstefnur hafa nú einnig verið haldar tvö ár í röð á Bifröst, en þátttökuskylda hefur verið fyrir alla nýnema skólans og þingið gengið framar vonum.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]