Fara í innihald

El Niño

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá El Ninjo)
Eðlilegt ástand. Austlægir vindar blásta hlýjum sjó til vesturs, en kaldari sjór stígur við strendur S-Ameríku. (NOAA / PMEL / TAO)
El Niño ástand. Hlýr sjór nálgast strendur S-Ameríku. Lítil blöndun við kaldari sjó á meira dýpi eykur hlýnunina.

El Niño (El Nino eða El Ninjo) er bilkvæmt veður- og vatnsfræðilegt fyrirbæri í austurhluta Kyrrahafsins á hitabeltisvæðinu og á við hærri sjávarhita en 0,5° af meðalhita þess. Það kemur venjulega upp fjórða eða sjötta hvert ár, og venjulega rétt eftir jól, en af því mun nafnið dregið: El Ninjo, sem þýðir barnið, og er þá átt við jólabarnið. El Ninjo stendur venjulega í 12 til 17 mánuði, en stundum lengur og stundum skemur, allt eftir styrkleika. Á síðustu 15 árum hefur orðið skemmra milli þeirra.

Aðaleinkenni El Ninjo er að á mjóu belti sem liggur við miðbaug í Kyrrahafi verður yfirborðssjórinn óvenju hlýr, jafnvel alla leið frá Indónesíu austur að Perú, Ekvador og nyrstu svæðum Síle. Þetta belti getur orðið einar 15 miljónir ferkílómetra, helmingi stærra en Bandaríkin og hlýnunin getur num 1-3 gráðum.

Mest af árinu er ríkjandi suðaustan staðvindur við vesturströnd Suður-Ameríku. Hann stendur því nokkuð af landi og hrekur sjóinn til vesturs. Afleiðingin er að við ströndina verður uppstreymi af köldum sjó. Það dælir næringaefnum upp á yfirborðið, þörungar blómstra og miljónir smádýra þrífast á þeim.

Þessi hagstæðu tímabil með tilölulega svölum sjó við Suður-Ameríku eru oftast lengri en þau hlýju. Að því kemur þó að austanáttin gefur sig við ströndina og sjórinn hlýnar lítið eitt. Vegna hlýnunarinnar fer loftþrýstingurinn að lækka á þessu hafsvæði, rétt eins og hlýnun lands á sumardegi lækkar þrýstinginn og fer að soga hafgoluna inn yfir landið. Í framhaldinu sogast loft og sjór vestan af Kyrrahafi og uppstreymi sjávarins við ströndina minnkar. Það veldur enn meiri sjávarhlýnun. Eitt leiðir annað og herðir framvinduna. Eftir hálft eða eitt ár hafa áhrifin náð hámarki. Þá er hitinn vestur á Kyrrhafinu við miðbaug orðinn svo hár að þar hefur þrýstingurinn lækkað og austanvindarnir leita þangað á ný með eðlilegum hætti.

El Nino myndar ásamt La Niña suðurhafs(hita)sveiflur (enska El Nino Southern Oscillation, skammstafað ENSO ) á suðurhveli jarðar, sem hefur mikil áhrif á veðurfar um allan heim.

  Þessi náttúruvísindagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.