Ebenezer Henderson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ebenezer Henderson

Ebenezer Henderson fæddist 17. nóvember 1784 í litlum bæ í Dunfermline-héraði í Skotlandi og lést 17. maí 1858 skammt þar frá. 19 ára gamall hóf hann guðfræðinám hjá Robert Haldane og tveimur árum síðar, orðin kalvínistaprestur, árið 1805 var hann valinn ásamt sr. John Paterson í trúboðsferð til Indlands. Vandræði komu hinsvegar upp og ferðin var aldrei farin. Fyrst gátu þeir ekki farið frá Englandi þar sem breska Austur-Indíafélagið leyfði ekki trúboðum að sigla frá Englandi til Indlands. Þá var ákveðið var að fara með dönsku skipi til einnar nýlendna Dana á Indlandi. Ekki gekk það þó eftir og svo fór að þeir höfðu beðið heilt ár eftir skipinu þegar Henderson ákvað að setjast að í Danmörku og gerðist prestur í Helsingjaeyri, sem var staða sem hann hélt fram til ársins 1817. Á meðan hann gengdi þeirri stöðu ferðaðist hann einnig mikið við að dreifa Biblíum fyrir Breska og erlenda biblíufélagið. Meðal svæðanna sem hann fór til í þeim erindagjörðum voru Lappland, Norður-Þýskaland og Ísland. Bók sem hann skrifaði um dvöl sína á Íslandi 1814-1815 er talin með merkari ferðabókum þar sem öllu er lýst mjög nákvæmlega, einkum jarðfræðitengdum fyrirbærum og hún er skrifuð í Reykjavík að stóru leyti. Hann stóð fyrir stofnun Hins íslenska biblíufélags 10. júlí 1815 og er það elsta starfandi félag í landinu. Eftir að hann hætti störfum í Danmörku og á vegum Breska og erlenda Biblíufélagsins sneri hann aftur til Skotlands, en hélt þó áfram að ferðast mikið og fór meðal annars til Tyrklands og Rússlands, oftast í tengslum við útbreiðslu Biblíunnar. Henderson var þar að auki mikill málamaður og talaði eins óskyld tungumál sem koptísku og dönsku. Hann var líka mikill fylgismaður vísindanna, auk þess að hafa verið kirkjunnar þjónn, og var til dæmis mikill áhugamaður um jarðvísindi.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Helstu rit Ebenezer[breyta | breyta frumkóða]

  • Iceland, or the Journal of a Residence in that Island (2 bindi, 1818) (Kom út á íslensku 1957 undir heitinu Ferðabók – frásagnir um ferðalög um þvert og endilangt Ísland árin 1814 og 1815 með vetursetu í Reykjavík)
  • Biblical Researches and Travels in Russia (1826)
  • Elements of Biblical Criticism and Interpretation (1830)
  • The Vaudoir, a Tour of the Valleys of Piedmont (1845)