Fara í innihald

DV

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Dagblaðið-Vísir)
DV
RitstjóriBjörn Þorfinnsson
Fyrri ritstjórarJónas Kristjánsson, Ellert B. Schram, Óli Björn Kárason, Mikael Torfason, Illugi Jökulsson, Reynir Traustason, Jón Trausti Reynisson, Kolbrún Bergþórsdóttir, Eggert Skúlason, Hörður Ægisson, Tobba Marinósdóttir
ÚtgáfutíðniVikulega
Stofnár1981
ÚtgefandiTorg ehf.
HöfuðstöðvarReykjavík
Vefurhttp://dv.is
ISSN1021-8254
Stafræn endurgerð[1]

DV (upphaflega skammstöfun fyrir Dagblaðið-Vísir) er íslenskur frétta- og vefmiðill. DV varð til þegar Dagblaðið og Vísir sameinuðust árið 1981. Árið 2021 ákvörðun tekin um að hætta með útgáfu prentaðs blaðs en það hafði þá komið í nokkur ár út á föstudögum.

Fjölmiðlatorgið ehf. stendur í dag að DV með rekstri vef- og fréttamiðils á dv.is.

DV á rætur að rekja til dagblaðsins Vísis sem hóf göngu sína árið 1910. Fyrstu áratugina sem Vísir var gefinn út var blaðið einkum bæjarblað sem sagði fréttir úr Reykjavík. Blaðið var lengi vel hallt undir Sjálfstæðisflokkinn en árið 1967 varð Jónas Kristjánsson ritstjóri þess og í kjölfarið fór blaðið að fjarlægjast flokkspólitík. Vegna átaka innan Vísis um flokkspólitík var Dagblaðið stofnað árið 1975 og varð Þorsteinn Pálsson ritstjóri þess. Blöðin tvö sameinuðust svo aftur árið 1981 og urðu Jónas og Ellert B. Schram ritstjórar blaðsins. DV var síðdegisblað á þessum árum og kom út í kringum hádegi og var þá borið í hús en einnig selt í lausasölu í verslunum og á götuhornum.[1]

Þegar dagblöðin tvö voru sameinuð var fjölmiðlafyrirtækið Frjáls fjölmiðlun stofnað um rekstur nýja blaðsins og eigendur hinna blaðanna eignuðust hvorir um sig helming í nýja fyrirtækinu. Sveinn R. Eyjólfsson varð stjórnarformaður og kom að útgáfu blaðsins ásamt syni sínum Eyjólfi Sveinssyni. Árið 2001 var blaðið selt nýjum eigendum fyrir tilstilli Landsbankans og í kjölfarið varð Óli Björn Kárason ritstjóri og blaðið færðist nær Sjálfstæðisflokknum á nýjan leik. Reksturinn gekk hins vegar illa og varð blaðið gjaldþrota árið 2003 og í kjölfarið varð nokkurra vikna hlé á útgáfu blaðsins.

Skömmu síðar var blaðið endurvakið af nýjum eigendum undir ritstjórn Mikaels Torfasonar og Illuga Jökulssonar. Árið 2007 komst blaðið í eigu útgáfufélags undir forystu Hreins Loftssonar og varð Sigurjón M. Egilsson þá ritstjóri þess og skömmu síðar varð Reynir Traustason meðritstjóri hans. Í desember 2007 tók Jón Trausti Reynisson við af Sigurjóni. Í ágúst 2008 tók útgáfufélagið Birtingur yfir rekstur DV og skömmu síðar varð Hreinn Loftsson aðaleigandi Birtings.

Í mars 2010 var DV selt í dreift eignarhald undir forystu Reynis Traustasonar ritstjóra og Lilju Skaftadóttur og fleiri. Í kjölfar átaka í hluthafahópi blaðsins árið 2014 tóku lánardrottnar félagsins það yfir og félög undir stjórn Þorsteins Guðnasonar eignuðust blaðið. Hallgrímur Thorsteinsson varð ritstjóri DV.

Pressan ehf eignaðist svo stærstan hlut í DV ehf. síðla árs 2014. Björn Ingi Hrafnsson varð þá útgefandi DV og ritstjórar urðu þau Eggert Skúlason og Kolbrún Bergþórsdóttir og Hörður Ægisson varð viðskiptaritstjóri.

Í sepember árið 2017 keypti Frjáls fjölmiðlun ehf. útgáfurétt DV. Karl Garðarsson varð framkvæmdastjóri DV og ritstjórar blaðsins þau Sigurvin Ólafsson, Kolbrún Bergþórsdóttir og Kristjón Kormákur Guðjónsson.

2020. Torg kaupir DV og dv.is. Tobba Marinósdóttir er ráðin ritstjóri.

2021. Björn Þorfinnson tekur við af Tobbu Marinósdóttur sem ritstjóri DV.

Núverandi eigandi DV er félagið Fjölmiðlatorgið ehf. sem er að stærstum hluta í eigu Helga Magnússonar athafnamanns.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Dv.is, „Um dv“ (skoðað 14. maí 2021)
teikning af dagblaði  Þessi dagblaðs eða tímaritagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.