Johan Carl Thuerecht von Castenschiold

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Johan Carl Thuerecht von Castenschiold (14. júní 178730. janúar 1844) var danskur aðalsmaður sem var stiftamtmaður á Íslandi og síðar í Danmörku.

Hann var fæddur á Borreby-setrinu í Skælskør í Danmörku, sonur Joachim Melchior Holten Castenschiold og konu hans Elisabeth Gysbertsdatter Behagen. Castenschiold-ættin er komin af langafa hans, Johan Lorentz Carstensen, sem var plantekrueigandi á dönsku Karíbahafseynni St. Thomas. Hann auðgaðist mjög þar og sonur hans, Johan Lorentz Castens, var aðlaður 1745.

Johan Carl útskrifaðist sem stúdent úr heimaskóla á Herlufsholm 1803 og hóf nám í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla, sem hann lauk 1806. Hann starfaði í Rentukammerinu og varð kammerjúnker 1808. Árið 1810 var hann skipaður amtmaður í Suðuramti á Íslandi og árið 1813 jafnframt stiftamtmaður en fékk lausn að eigin ósk 1819. Hann varð stiftamtmaður í Ribe 1821 og var gerður að kammerherra 1824. Frá 1828 var hann stiftamtmaður í Álaborg og frá 1836 á Fjóni og settist þá að í Óðinsvéum. Árið 1842 fékk hann lausn frá störfum vegna heilsubrests og dó í Óðinsvéum 30. janúar 1844.

Í Dansk biografisk Lexicon segir að hann hafi þótt sérlega natinn og reglufastur embættismaður og stýrt embætti sínu af festu og áreiðanleika, einnig eftir að heilsa hans tók að bila. Á Íslandi fékk hann þó allt önnur eftirmæli, þótti óreyndur og hrokafullur og átti í deilum við íslenska eimbættismenn; meðal annars reyndi hann að ná Viðey af Magnúsi Stephensen. Árið 1815 var honum vikið frá um stundarsakir og Ísleifur Einarsson settur í hans stað en hann fékk þó embættið aftur árið eftir. Bjarni Thorsteinsson amtmaður sagði um hann: „Var Castenskjöld einhver sá ljelegasti stimptamtmaður, sem verið hefur á Íslandi, veill af ímyndunarveiki, þekkingarlaus og óduglegur til embættisstarfa, fjegjarn og hlutdrægur og heiptrækinn, þegar því var að skifta.“ Bjarni Thorarensen skáld sagði um brotthvarf Castenschiolds að hann hefði verið „leiður á öllu íslensku og alt íslenskt leitt á honum.“

Hann var einhleypur á meðan hann var á Íslandi og fór orð af kvensemi hans, en hann giftist árið 1823 greifynjunni Frederikke Vilhelmine Louise Lüttichau (16. janúar 1797 – 17. maí 1836). Þau eignuðust fjögur börn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Brautryðjandi íslenskrar verslunar. Lesbók Morgunblaðsins, 11. desember 1949“.
  • „Dansk biografisk Lexikon, 3. bindi“.
  • „Skeel & Kannegaard Genealogy“.