Bjarni Björnsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Bjarni Björnsson (5. maí 189026. febrúar 1942) var íslenskur leikari sem starfaði með Leikfélagi Reykjavíkur, lék á sviði í Kaupmannahöfn, í Íslendingabyggðum í vesturheimi og í kvikmyndum í Hollywood. Hann var fyrsti íslenski kvikmyndaleikarinn og fyrsti leikarinn sem gerði leiklistina að ævistarfi.

Bernskuár[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni fæddist að Álftatungu á Mýrum. Þegar hann var þriggja ára gamall brá faðir hans búi og fluttist vestur um haf ásamt konu sinni og þremur elstu börnum þeirra hjóna. Móðurbróðir Bjarna, Markús Bjarnason, skólastjóri Stýrimannaskólans, tók Bjarna í fóstur og ólst hann upp á heimili Markúsar til fimmtán ára aldurs. Þá siglid hann til Kaupmannahafnar til náms á málaraskóla.

Stúdentaárin í Kaupmannahöfn[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni hafði ekki verið lengi í Kaupmannahöfn þegar hann komst í félag við unga danska leikara sem héldu leiksýningar upp á eigin spýtur í stóra salnum á Hotel Kongen av Danmark. Gerðist Bjarni leikari með þeim, og lék einnig í stúdenta-revíum og nokkur smáhlutverk í Dagmar-leikhúsinu.

Í Reykjavík[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni kom aftur heim árið 1910 og fékk þá nokkurn starfa hjá Leikfélagi Reykjavíkur, lék m.a. Bergkónginn í Systrunum á Kinnarhvoli og Sherlock Holmes í samnefndu leikriti. Hann hafði brennandi áhuga á leiklist og vildi gera hana að ævistarfi, en þess var þá enginn kostur eins og á stóð. Þá tók hann það ráð að halda skemmtanir fyrir eigin reikning og skemmti hann þar með eftirhermum og gamanvísum, en fyrir þessar skemmtanir sínar varð hann þjóðfrægur maður. Var framkoma hans ávallt prúðmannleg og skop hans um náungann græskulaust.

Nordisk Film[breyta | breyta frumkóða]

Eftir tveggja ára dvöl heima réðst Bjarni enn til utanferðar og gekk hann nú í þjónustu Nordisk film sem þá var starfandi í Kaupmannahöfn og helsta kvikmyndafélag Norðurlanda. Þessar myndir voru sýndar hér á landi og þótti það talsverður viðburður þegar fyrsti íslenski kvikmyndaleikarinn sást á hvíta tjaldinu.

Ameríka[breyta | breyta frumkóða]

Þegar ófriðurinn skall á 1914 varð Nordisk film að hætta störfum og hvarf Bjarni þá heim aftur, en hafði skamma viðdvöl. Lagði hann nú leið sína til Ameríku, þar sem kvikmyndaiðnaðurinn stóð með miklum blóma á ófriðarárunum. Þar dvaldist hann í þrettán ár og vann þar ýmist að málarastörfum eða sem kvikmyndaleikari hjá ýmsum félögum. Skemmtanir hélt hann auk þess í byggðum Vestur-Íslendinga og þar lék hann ásamt frú Stefaníu Guðmundsdóttur leikonu, þegar hún fór leikför sína vestur um haf.

Í Hollywood lék Bjarni t.d. Sendiherrann frá Montenegro í kvikmynd Erich von Stroheims: The Wedding March (1928). Alþingisárið kom Bjarni alkominn heim aftur. Þá voru talmyndirnar komnar til sögunnar og útlendingum sem unnu í kvikmyndaiðnaðinum var sagt upp í þúsundatali. Meðal þeirra var Bjarni, fyrsti íslenski kvikmyndaleikarinn og fyrsti íslendingurinn sem gerði leiklistina að ævistarfi sínu.

Kominn til Reykjavíkur á ný[breyta | breyta frumkóða]

Síðustu árin lék Bjarni talsvert með Leikfélagi Reykjavíkur og þar lék hann sitt síðasta hlutverk, hreppstjórann í leikritinu Gullna hliðið. Eftir heimkomuna gekk Bjarni að eiga heitkonu sína, Torfhildi Dalhoff, eða árið 1930. [1] Eignuðust þau hjón tvær dætur, Katrínu og Björgu.

Andlát[breyta | breyta frumkóða]

Miðvikudagsnóttina 25. febrúar 1942 vaknaði fólk í húsinu þar sem Bjarni bjó við það að hann datt í stiganum og lá meðvitundarlaus a gólfinu þegar að var komið. Var hann fluttur á Landsspítalann og þar andaðist hann 26. febrúar og komst aldrei til meðvitundar. Hefur banamein hans sennilega verið heilablóðfall. Bjarni var aðeins 51 árs að aldri.[2]

Úr blöðunum[breyta | breyta frumkóða]

  • 1912 - Hr. Bjarni Björnsson leikari stofnar til kvöldskemmtunar í Iðnó á morgun. Ætlar hann þar að gera mönnum margt til skemmtunar. [..] Auk þess ætlar hr. B.B. að sýna nokkrar eftirhemur eftir þekktum íslenskum leikurum, o.m.fl. (Ísafold)
  • 1914 - Bjarni Björnsson skopleikari fór í gær með Ceres til Vestmanneya og býst við að dvelja þar um þrjár vikur. (Vísir).
  • 1931 - Bjarni Björnsson leikari og frú hans eru nýkomin heim frá útlöndum. Fóru þau til Berlínar og söng Bjarni þar á nokkrar grammófónplötur. Nú er hann að búa sig undir það að skemmta Reykvíkingum, áður en langt um líður. (Morgunblaðið)
  • 1934 - Bjarni Björnsson gamanvísnasöngvari og leikari fór héðan með „Esju“ í gærkvöld austur á firði. Ætlar hann að hafa þar skemmtanir víða, og fer síðan upp í Hallormsstaðaskóg og málar þar í sumar. (Morgunblaðið)
  • 1937 - Bjarni Björnsson leikari var meðal farþega á Brúarfossi nú síðast. Hefir hann dvalist erlendis að undanförnu og kynnt sér leiklist á Norðurlöndum. (Morgunblaðið)

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Alþýðublaðið 1930
  2. Bjarni Björnsson leikari látinn; Alýðublaðið 1942, 27. febrúar[óvirkur tengill]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]