Bergen op Zoom
Bergen op Zoom | |
---|---|
Hérað | Norður-Brabant |
Flatarmál | |
• Samtals | 93,13 km2 |
Mannfjöldi (31. desember 2010) | |
• Samtals | 66.048 |
• Þéttleiki | 709/km2 |
Vefsíða | www.bergenopzoom.nl |
Bergen op Zoom er borg í héraðinu Norður-Brabant í Hollandi og er með 66 þúsund íbúa. Borgin er þekkt fyrir miðaldablæ sinn sem varðveist hefur í gegnum aldirnar.
Lega og lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Bergen op Zoom liggur við árbakka Schelde (Oosterschelde) nær vestast í Norður-Brabant, alveg við héraðið Sjáland og aðeins steinsnar frá belgísku landamærunum. Næstu borgir eru Antwerpen í Belgíu til suðurs (40 km), Breda til norðausturs (40 km) og Dordrecht til norðurs (50 km).
Fáni og skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Fáni borgarinnar eru þrjár láréttar rendur. Mjó rauð rönd, breið hvít og mjó rauð. Til hægri í hvítu röndinni kemur skjaldarmerkið fyrir. Litirnir eru borgarlitir Bergen op Zoom. Fáninn var tekinn í notkun í kringum 1870. Skjaldarmerkið sýnir þrjá silfurlitaða Andrésarkrossa á rauðum grunni. Í forgrunni eru þrjár grænar hæðir, sem merkja árbakka Schelde og koma fyrir í heiti borgarinnar. Risarnir og kórónan eru síðari tíma viðbætur.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Bergen er ekki nefnd eftir fjöllum (eins og hið norska Bergen), heldur því að borgin stendur við bakka Schelde. Hér þýðir Bergen því árbakki. Zoom merkir rönd (sbr. Saum á þýsku).
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Bergen op Zoom myndaðist við samruna þriggja bæja á miðöldum. Bærinn var víggirtur 1330 og hlaut borgarréttindi 1347. Á miðöldum var borgin með höfn við Schelde og var þá samkeppnisaðili Antwerpen, sem liggur aðeins sunnar. En með framburði lokaðist höfnin smátt og smátt. Þegar frelsisstríð Hollendinga var í gangi á 16. öld var Bergen eitt sterkasta vígi Hollendinga gegn Spánverjum. Fjórum sinnum sátu Spánverjar um borgina, 1581, 1588, 1605 og 1622, en í öll skiptin héldu varnir hennar og urðu Spánverjar frá að hverfa. Á hinn bóginn orsakaði stríðið mikla niðursveiflu í atvinnulífi borgarinnar og lauk blómaskeiði hennar um miðja 17. öld. Hins vegar féll borgin í hendur Frökkum 1747 eftir 70 daga umsátur í austurríska erfðastríðinu, en þeim var gert að skila henni ári síðar í friðarsamningunum í Aachen. Frakkar tóku borgina aftur 1795 og héldu henni þar til Vínarfundurinn skipaði þeim að skila henni 1814. Árið 2007 var Bergen op Zoom kjörin besta innanlandsborgin í Hollandi (í kategoríunni meðalstórar borgir).
Byggingar og kennileiti
[breyta | breyta frumkóða]- Geirþrúðarkirkjan stendur við aðalmarkaðstorg borgarinnar. Elsti hluti hennar er turninn (kallaður De Peperbus), en hann er frá 1370 og tilheyrði fyrirrennarakirkjunni. Núverandi bygging var reist á 15. öld og var þá kaþólsk. En í siðaskiptunum ruddist múgur inn í hana 1580 og eyðilagði helgimyndir. Síðan þá hefur kirkjan verið kalvínísk. Kirkjan stórskemmdist í fallbyssuárás Frakka 1747 og var að mestu endurreist 1750. Í dag fara guðsþjónustur bæði kaþólikka og Kalvínista fram í kirkjunni.
- Markiezenhof er greifakastalinn í borginni. Hann var reistur á 14. öld fyrir Jan II greifa og er einn af yngstu gotnesku kastölum í Vestur-Evrópu. Frakkar notuðu kastalann sem herspítala en eftir það var hann herstöð, þar til byggingin var orðin of léleg til notkunar. Kastalinn var gerður upp á sjöunda áratug 20. aldar og var hann ekki opnaður fyrr en 1987 af Beatrix drottningu. Kastalinn er safn í dag.
- Ráðhúsið stendur við aðalmarkaðstorgið. Það var reist 1398–1403 og er því 600 ára gamalt.
- Gevangenpoort er gamalt borgarhlið. Það var reist á 14. öld og er eitt elsta borgarhlið Hollands sem enn stendur. Hliðið þjónaði sem fangelsi í margar aldir, allt til 1931, en þaðan er heitið til komið (Gevangen = fanga).
-
Geirþrúðarkirkjan við markaðstorgið. Fremst er kirkjuturninn De peperbus.
-
Markiezenhof
-
Ráðhúsið
-
Gevangenpoort