Bamberg
Bambergs | |
---|---|
Sambandsland | Bæjaraland |
Flatarmál | |
• Samtals | 54,58 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 262 m |
Mannfjöldi | |
• Samtals | 71.167 (31 desember 2.013) |
• Þéttleiki | 1.304/km2 |
Vefsíða | www.stadt.bamberg.de Geymt 19 mars 2011 í Wayback Machine |
Bamberg er borg í Bæjaralandi í suðurhluta Þýskalands með 71 þúsund íbúa (31. des 2013). Bamberg er háskólaborg. Miðborgin er á heimsminjaskrá UNESCO.
Lega
[breyta | breyta frumkóða]Bamberg liggur við ána Regnitz norðarlega í Bæjaralandi. Næstu borgir eru Nürnberg til suðurs (50 km), Würzburg til vesturs (70 km) og Bayreuth til austurs (40 km).
Skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Skjaldarmerki Bamberg sýnir riddara með krossi. Við hlið hans er blár skjöldur með hvítum erni. Riddarinn er heilagur Georg, verndardýrlingur borgarinnar. Örninn táknar furstaættina sem stjórnaði borginni áður fyrr.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Bamberg er líklega nefnd eftir margreifaættinni Babenberg sem ríkti í Bæjaralandi forðum.[1]
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Bamberg myndaðist, en borgin kemur fyrst við skjöl 902 og kallast þá Castrum Babenberch (kastalavirkið Babenberch). Það tilheyrði Babenberg ættinni sem dó út á þeirri öld og varð virkið þá eign konungs og keisara. 1007 stofnað Hinrik II keisari biskupsdæmi í Bamberg og í kjölfarið var dómkirkjan fræga reist. Síðan þá hefur Bamberg verið sjálfstætt furstadæmi í ríkinu, stjórnuð af biskupum. Í janúar 1430 ruddust hússítar frá Bæheimi að borgarhliðunum. Biskup flúði til Austurríkis og allir heldri íbúar flúðu sömuleiðis. Hússítar létu borgina hins vegar í friði, þannig að almúginn sem eftir varð notaði tækifærið og rændi klaustrin og hús hinna ríku. Á 17. öld varð Bamberg nokkurs konar miðstöð fyrir galdraofsóknir. Á tímabilinu 1612-1618 voru hvorki meira né minna en 300 manns brenndir í báli, þar á meðal borgarstjórinn sjálfur. Bamberg kom nokkuð við sögu í öllum helstu stríðum í ríkinu. Borgin skemmdist verulega af Svíum í 30 ára stríðinu, af Prússum í 7 ára stríðinu og af Frökkum í Napoleonstríðunum. 1802 hertók Bæjaraland borgina með aðstoð Frakka. Furstabiskupinn Christoph Franz von Buseck sagði af sér og endaði þar með stjórn biskupanna. Bamberg varð eftir það bærísk borg. Í heimstyrjöldinni síðari slapp Bamberg við allar loftárásir, en var hertekin af bandarískum her 1945. Árið 1993 var miðborg Bamberg sett á heimsminjaskrá UNESCO.
Íþróttir
[breyta | breyta frumkóða]Körfuboltalið borgarinnar (sem nokkrum sinnum hefur skipt um nafn á síðustu árum) varð þýskur meistari 2005 og 2007, auk þess bikarmeistari 1992. Áhangendur liðsins eru þekktir fyrir ofuráhuga og læti. Í körfuboltaheiminum er borgin Bamberg því oft kölluð ‘Freak-City.’
Frægustu börn borgarinnar
[breyta | breyta frumkóða]- (1093) Konráður III. konungur þýska ríkisins
- (1950) Thomas Gottschalk þáttastjórnandi og skemmtikraftur
Byggingar og kennileiti
[breyta | breyta frumkóða]Í Bamberg eru mýmargar kirkjur. Þegar horft er á þær úr lofti, mynda þær nokkurn veginn kross, Bamberg-krossinn. Allt í allt eru 1200 byggingar í miðborg Bamberg friðaðar. 1993 var miðborgin í heild sinni sett á heimsminjaskrá UNESCO.
- Dómkirkjan í Bamberg er keisarakirkja og er aðalbygging miðborgarinnar. Í henni er keisaragröf, konungsgröf, páfagröf og hún er jafnframt hvíldarstaður furstabiskupanna.
- Gamla ráðhúsið stendur á lítilli eyju í ánni Regnitz og er gullfallegt. Í því er stærsta postulínssafn Evrópu.
- Frúarkirkjan í Bamberg er sérkennileg kirkjubygging. Að innan er málverkið Himnaför Maríu eftir hinn fræga ítalska málara Jacopo Tintoretto.
Myndasafn
[breyta | breyta frumkóða]-
Altenburg-kastalinn
-
Fleischhalle (Kjöthöllin)
-
Marteinskirkjan
-
Litlu Feneyjar
-
Frúarkirkjan
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Geographische Namen in Deutschland, Duden, 1993, bls. 47.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Bamberg“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.