Dómkirkjan í Bamberg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dómkirkjan í Bamberg er keisarakirkja

Dómkirkjan í Bamberg er keisarakirkja og aðalkirkjan í þýsku borginni Bamberg. Þar hvílir einn konungur, einn keisari, einn páfi og mýmargir furstabiskupar.

Saga dómkirkjunnar[breyta | breyta frumkóða]

Keisaraparið Hinrik II og Kúnígúnd. Á milli þeirra er dómkirkjan

Það var Hinrik II keisari sem fyrirskipaði að reisa skyldi dómkirkjuna árið 1004 og var það fyrirrennari núverandi kirkju. Hún var reist á ótrúlega stuttum tíma og vígð 1012. Hún var helguð Maríu mey, Pétri postula og heilögum Georg. Nær allir biskupar þýska ríkisins voru viðstaddir. Turnarnir voru aðeins tveir þá. 1081 brann kirkjan hins vegar og eyðilögðust þá allar innréttingar. Eftir viðgerðir var kirkjan komin í notkun á ný 1087. 1185 brann kirkjan öðru sinni og varð skaðinn öllu meiri en áður. Því var ákveðið að rífa kirkjuna að mestu og reisa nýja frá grunni. Nýja (og núverandi) kirkjan var vígð 1237 og voru verndardýrlingarnir þeir sömu og áður. Hinrik II keisari, sem upphaflega lét reisa dómkirkjuna, var lagður til hvíldar í kirkjunni, sem og eiginkona hans, Kúnígúnd. Bæði höfðu þau verið tekin upp í tölu dýrlinga. Tveimur turnum var bætt við og eru þeir fjórir í dag. Hærri turnarnir eru 74 metra háir. Á 17. öld var kirkjan gerð upp í barokkstíl. Þegar það var búið var kirkjan með 30 ölturu. Margar af breytingunum voru þó teknar til baka á 19. öld.

Markverð fyrirbæri[breyta | breyta frumkóða]

Maríuhurðin[breyta | breyta frumkóða]

Maríuhurðin er hliðarhurð inn í dómkirkjuna og var eingöngu notuð í viðhafnarskyni, t.d. þegar nýr biskup gengur í fyrsta sinn í kirkjuna. Stór og fallegur gullinn bogi er yfir hurðinni, skreyttur styttum af verndardýrlingum kirkjunnar. Auk þess eru þar myndir af Hinrik II og Kúnígúnd. Hjá þessari hurð voru tvö sérsmíðuð ljónahöfuð sem átti að marka lengd einnar öln, sem í Bamberg var álitin 67 cm. Þessi lengdarmæling eru talin elsta fastmótaða lengdareining miðalda. Einnig var þar merki um hversu stórt fetið var og segir sagan að fetið hafi verið mælt eftir skófar Kúnígúnd. Ljónin eru bæði horfin í dag, en enn örlar á skófari Kúnígúndar.

Keisaragröf[breyta | breyta frumkóða]

Keisaragröfin

Í dómkirkjunni hvílir Hinrik II keisari ásamt eiginkonu sinni Kúnígúnd. Í upphafi munu þau hafa legið í venjulegum kistum í grafhvelfingunni. En 1499-1513 smíðaði myndhöggvarinn Tilman Riemenschneider forláta steinkistur fyrir þau bæði. Á lokinu er mynd af keisaraparinu í líkamsstærð. Á hliðunum eru myndir með atvikum úr ævi þeirra. Steinkistan er of stór fyrir grafhvelfinguna og stendur því í hliðarrými kirkjuskipsins.

Grafhvelfing[breyta | breyta frumkóða]

Naglinn helgi

Grafhvelfingin mun vera leifar af fyrirrennarakirkjunni frá því snemma á 11. öld. Þar hvílir Konráður III, konungur þýska ríkisins, en hann lést í Bamberg 1152. Konráður var á leið til Rómar til að láta krýna sig til keisara, en entist ekki ævin. Bamberg er einnig fæðingarstaður hans. Upphaflega stóð kista Konráðs við hlið keisarakistunnar, en hún var færð niður í grafhvelfinguna að ósk Lúðvíks I. konungs Bæjaralands. Við hlið Koráðs hvílir biskupinn Gunther, sem einnig var frá Bamberg. Í grafhvelfingunni er einnig djúpur brunnur með köldu vatni. Vatn þetta er stundum notað fyrir skírnir. Talið er að brunnurinn sé eldri en kirkjan og að kirkjan hafi einfaldlega verið reist yfir hann. Grafhvelfing kirkjunnar var reist á gömlum kirkjugarði. Þar hvíla því ýmsar persónur, ekki síst biskupar sem þjónað hafa í dómkirkjunni. Flest ummerki eftir þá voru hins vegar fjarlægð á 19. öld.

Páfagröf[breyta | breyta frumkóða]

Í dómkirkjunni hvílir páfinn Klemens II. Hann var þýskur og þjónaði áður sem biskup í þessari kirkju til 1046. Það ár var hann kjörinn páfi, en lést aðeins ári seinna. Lík hans var flutt til Bamberg og sett í kistu í kirkjunni, þar sem hann hvílir enn. Klemens II. er eini páfi sögunnar sem hvílir norðan Alpa. Kistan hans er ekki sýnileg fyrir almenning, enda staðsett bak við biskupastólinn.

Naglakapellan[breyta | breyta frumkóða]

Ein hliðarkapella dómkirkjunnar er hin svokallaða Naglakapella. Í henni er nagli úr krossi Jesú til sýnis. Engar heimildir eru lengur til um það hvernig naglinn komst til Bamberg, en líklegt er að krossfarar hafi komið með hann úr landinu helga, ef til vill Konráður III keisari sem tók þátt í 2. krossferðinni 1147-1149. Naglinn er 11 cm langur og brotinn í báða enda. Hann kemur fyrst við skjöl 1390 og er greiptur inn í statíf (Monstranz). Í kirkjunni er til bók um öll þau kraftaverk sem naglinn á að hafa orsakað. Sökum þess hve mikið naglinn var dýrkaður áður fyrr, varð að færa hann úr kirkjuskipinu yfir í hliðarkapellu, þar sem fólk var alltaf að trufla guðsþjónustur. Naglakapellan er enn í stöðugri notkun í dag og því er naglinn ekki til sýnis nema fyrir kirkjugesti.

Gallerí[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Bamberger Dom“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.