August Lehrmann

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

August Lehrmann var þýskur ríkisborgari sem innlyksa á Íslandi á stríðsárunum. Hann kom til Íslands nokkrum misserum fyrir stríð og starfaði hjá Heiny Scheiter sem var með umboðssölu í Reykjavík. Lehrmann var staddur í Borgarnesi þegar Ísland var hernumið af Bretum 10. maí 1940 og var á suðurleið. Hann hringdi til Reykjavíkur og fékk þær fréttir að búið væri að handtaka alla Þjóðverja í Reykjavík og hafin leit að Þjóðverjum annars staðar á landinu. Lehrmann ákveður að fara huldu höfði og reyna að komast til Ísafjarðar. Hann fór fótgangandi milli bæja og byggðalaga og var kominn eftir þrjár vikur að Ísafjarðardjúpi.

Breska herstjórnin hafði látið lesa upp tilkynningu í útvarpið um að allir Þjóðverjar sem staddir væru á Íslandi skyldu gefa sig fram við herstjórnina. Um mánaðarmótin maí-júní var Lehrmann staddur á Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp og tók sér far með djúpbátnum til Ísafjarðar og leitaði þar til Jóhanns Eyfirðings sem sendi hann í sumarbústað við Gilsbrekku á Súgandafirði. Var hann svo fluttur með bát norður í Hrafnsfjörð í Jökulfjörðum og gekk hann þaðan til Furufjarðar og var þar á bóndabæ í tvo mánuði en bóndinn þorði ekki að hafa hann lengur og sendi hann til Ísafjarðar. Þar leitaði Lehrmann til þýskrar konu Gertrud Hasler en fór síðan með Þorbergi vitaverði í Galtarvita í Keflavík við Súgandafjörð og dvaldi þar vetrarlangt en fór þaðan í apríl og reyndi að leynast á Vestfjarðakjálkanum. 21. maí kom hann vestur í Patreksfjörð og bjó í tjaldi upp í fjalli. Þar var hann handtekinn af Bretum og hafði þá farið huldu höfði í eitt ár. Breska herstjórnin handtók flesta þá sem höfðu liðsinnt honum eða skotið yfir hann skjólshúsi og fluttu þá úr landi.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]