Hildur Hákonardóttir
Auður Hildur Hákonardóttir (f. 28. apríl 1938) er íslenskur myndvefari og rithöfundur sem starfar nú í Reykjavík. Hún vakti fyrst athygli í myndlistarheiminum með fyrstu sýningu sinni sem myndvefari í Gallerí SÚM árið 1970. Hildur tók virkan þátt starfi Rauðsokkanna á árunum 1970-1975 og gegndi síðan starfi skólastjóra Myndlistar- og handíðaskóla Íslands á árunum 1975-1978.
Eftir að Hildur fluttist í Árnessýslu 1980 vann hún að ræktun nytjajurta og sinnti vefnaði. Hún tók við forstöðu Byggða- og listasafns sýslunnar 1986 og sá um þau söfn þangað til byggðsafnið flutti á Eyrarbakka og listasafnið til Hveragerðis árið 2001.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Námsleið Hildar lá gegnum Laugarnesskóla, Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Menntaskólann í Reykjavík, en hún fluttist til Bandaríkjanna árið 1956 þar sem hún bjó í New York-fylki og New Jersey i sjö ár. Eiginmaður hennar og skólabróðir Oddur Benediktsson var þar við stærðfræði- og síðar tölvunám. Eftir heimkomuna hóf hún nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands (MHÍ) í Reykjavík og síðar eitt ár við Edinburgh College of Art. Um 1970 hóf hún stunda kennslu við MHÍ fyrst á námskeiðum og síðan við ýmsar deildir og vakti athygli sem myndvefari sem fór óhefðbundnar leiðir strax í upphafi ferils síns. Hildur kynntist framsæknu ungu myndistarfólki á Íslandi og starfaði með SÚM-hópnum sem þá hafði aðsetur við Vatnsstíg í Reykjavík.
Hildur hafði meðan á Ameríkudvöl hennar stóð kynnst því sem var efst á baugi í hugsun þar. Fæðing tölvunnar var að eiga sér stað á þessum árum og austræn menning að blandast vestrænni í suðupotti Kaliforníu. Einnig var andspyrnan við kynþáttaaðskilnað og misrétti sívaxandi einkum í Suðurríkjunum. Konur með háskólamenntun voru farnar að láta til sín taka í sívaxandi mæli. New York-borg hafði eftir síðari heimsstyrjöld orðið athvarf margra myndlistarmanna frá Evrópu. Myndlistarkonur vildu finna nýjar leiðir til listsköpunar og leituðu þá gjarnan í vefnað og margvíslega þráðarlist um leið og þær nýttu sér ljósmyndir og eigin líkama til sköpunar. Það voru ólíkir heimar sem mættust á Íslandi: Evrópa í sárum eftir stríðið, en þangað sóttu flestir námsmenn menntun sína þá; og Ameríka hins vegar sjálfsánægð og komin langt inn í framtíðina hvað snerti margs konar daglegan munað og hugsanahátt.
Hildi var því ljóst hvaða stefnu samfélagið myndi taka þegar hún kom heim, því Íslendingar voru tengdir amerískri menningu bæði vegna veru herliðsins, legu landsins og af því það var ekki þörf á að græða djúp sár sem stríð óhjákvæmilega veldur. Hópefli var þá nýtt hugtak sem var að ryðja sér til rúms og barst hingað frá Ameríku annars vegar og Svíþjóð hins vegar. Í starfi Rauðsokkanna nýtti Hildur sér þekkingu sína og barðist fyrir því að félagsskapurinn væri með sem frjálslegasta sniði.
Vorið 1975 kom Hörður Ágústsson að tali við Hildi og bauð henni að taka að sér starf sitt sem skólastjóri MHÍ. Hann var að vinna að húsarannsóknum og Gísli B. Björnsson hafði sinnt starfi skólastjóra um þriggja ára skeið en þótti nóg komið, en Hörður átti þá enn eftir tvö ár af ráðningartíma sínum.
Hildur tók við starfinu og réði Magnús Pálsson til að taka að sér tilraunadeild í „frjálsri myndlist“. Einnig setti hún á fót málaradeild til jafnvægis við þessa nýjung. Árin á undan hafði kennsluskipan skólans verið í nokkuð föstum skorðum: tvö ár í almennum forskóla og eftir það tók við nokkuð stíf deildaskipting. Nemendum sem ætluðu í myndlist var beint í kennaradeild til að þeir hefðu eitthvað lífsviðurværi ef hrein listsköpun stæði ekki undir sér. Einnig var rekin deild í auglýsingateiknun. Á þessum árum líka bætt við grafikdeild. Svo voru keramik og textíll, og vefnaðarkennaradeildin var enn starfandi. En það var nokkuð langur vegur fyrir fjörugt ungmenni sem hafði nasasjón af því sem var að ske í listheimum beggja vegna við Ísland að þurfa að ganga í gegnum stífar deildir í fjögur ár og „deild í mótun“ (seinna nýlistadeild) var tilraun til að mæta þessari þörf. Starfið gekk vel og þörfin hafði verið augljós. Öflugir árgangar pilta og stúlkna komu fram á svið listalífsins.
Árið 1980 bauðst Hildi að taka við gróðurskika foreldra sinna í Ölfusinu og tók hún þá ákvörðun að draga sig út úr baráttunni og helga sig ræktun og listsköpun um tíma. Næstu sex ár fóru að miklu leyti í að „vera í náttúrunni“ og fylgjast með gangi himintunglanna og lifa sig meira inn í þann heim sem segir okkur hverjar eru frumþarfir mannsins.
Árið 1986 sótti hún um starf forstöðumanns Byggða- og listasafns Árnessýslu og sá um þau söfn uns þau fluttu frá Selfossi og byggðsafninu var fundinn staður á Eyrarbakka og listasafninu Í Hveragerði. Hildur stofnaði einnig með Helgu Thoroddsen Ullarvinnsluna Þingborg 1990 sem hefur verið starfandi handsverkstæði og verslun síðan.
Fjölskylda
[breyta | breyta frumkóða]Hildur er dóttir hjónanna Ólafar Dagmar Árnasdóttur ræktanda og rithöfundar og Hákonar Guðmundssonar yfirborgardómara og útvarpsmanns. Hún á tvær systur, Ingu Huld Hákonardóttur, sagnfræðing og rithöfund; og Hjördísi Hákonardóttur, fyrrverandi hæstarréttardómara. Fyrri eiginmaður Hildar var Oddur Benediktsson prófessor við Háskóla Íslands. Þau eignuðust Kolbrúnu Þóru og Hákon Má. Síðari eiginmaður var Þór Vígfússon skólastjóri og sagnamaður.
Verk
[breyta | breyta frumkóða]Ritverk
[breyta | breyta frumkóða]- Ætigarðurinn (2005) - með eigin teikningum. Salka.
- Já, ég þori, get og vil (2005) - rit helgað kvennafrídeginum 1975 og minningu frumherjans, blaða- og baráttukonunnar Vilborgar Harðardóttur. Bókin er skreytt auk ljósmynda með myndasögu sem höfundur gerði árið 1976 þar sem rakin eru tildrög kvennafrídagsins 24. október 1975. Salka.
- Blálandsdrottingin og fólkið sem ræktaði kartöflurnar (2008). Salka.
- Hvað er svona merkilegt við að vera biskupsfrú I og II (2019-2021). Bókaútgáfan Sæmundur.
Bókarkaflar
[breyta | breyta frumkóða]- Kafli í Dagbók Íslendinga, Mál og menning, Reyjavík, 1999
- Viðtal í Hefurðu séð huldufólk? eftir Unni Jökulsdóttur, Mál og menning, Reykjavík, 2007
- Kafli í Á rauðum sokkum: Baráttukonur segja frá, Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2011
- Kafli í The Warp Weighted Loom, Oppstadveven, Kljásteinavefstaðurinn, Gerstad Museum, Skald, Bergen. 2016.
Þýðingar
[breyta | breyta frumkóða]- H.D. Thoreau, Walden, þýðing ásamt Elísabetu Gunnarsdóttur, Dimma, 2017
Tímarit
[breyta | breyta frumkóða]- Forvitin rauð, Rauðsokkahreyfingin 1972-1982
- Ýmsar greinar í dagblöðum um listir og menningu og viðtöl í sjónvarpi og útvarpi.
Viðurkenningar
[breyta | breyta frumkóða]- Heiðursmeðlimur Nýlistasafnsins.
- Heiðurslaun sjónlista 2012
- Íslensku þýðingarverðlaunin 2017
- Heiðurslaun listamanna 2022
- Ísaks verðlaunin 2023[heimild vantar]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Olga Guðrún Árnadóttir (ritstj.) (2011). Á rauðum sokkum, baráttukonur segja frá. Háskólaútgáfan og RIKK. ISBN 9789979549260.
- Ólöf Kristín Sigurðardóttir og Æsa Sigurjónsdóttir (ritstj.) 2023. Rauður Þráður, Listasafn Reykjavíkur ISBN 9979-769-6
- Íslenska alfræđiorđabókin. Dóra Hafsteinsdóttir, Sigríđur Harđardóttir. [Reykjavik]: Örn og Örlygur. 1990. ISBN 9979-55-000-7. OCLC 24277478.