Fara í innihald

Inga Huld Hákonardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Inga Huld Hákonardóttir (fædd 15. mars 1936, dáin 27. maí 2014) var íslenskur sagnfræðingur, rithöfundur og blaðamaður.

Foreldrar Ingu Huldar voru Hákon Guðmundsson (1904-1980) lögfræðingur og yfirborgardómari í Reykjavík og Ólöf Dagmar Árnadóttir (1909-1993) íþróttakennari og rithöfundur. Inga Huld átti tvær systur, Hildi Hákonardóttur rithöfund og myndvefara og Hjördísi Björk Hákonardóttur fyrrverandi sýslumann og hæstaréttardómara.

Fyrri maður Ingu Huldar var Leifur Þórarinsson tónskáld og eignuðust þau þrjú börn Hákon organista og tónskáld, Öldu Lóu hönnuð og ljósmyndara og Þórarinn rifhöfund og myndlistarmann. Seinni maður hennar var Kristján Árnason bókmenntafræðingur, þýðandi og háskólakennari.[1]

Nám og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Inga Huld lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955[2], BA-prófi í sagnfræði og ensku frá Háskóla Íslands árið 1969 og stundaði framhaldsnám í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla um skeið. Hún starfaði sem blaðamaður á Tímanum, DV og Heimsmynd frá 1965-1988. Frá árinu 1985 starfaði hún við rannsóknir og ritstörf á svið kvennasögu. Hún ritaði fjölda fræðigreina um sagnfræði og kvennasögu og var á meðal frumkvöðla í sagnfræðilegum rannsóknum á sögu kvenna. Hún sat í stjórn Félags um 18. aldar fræði og í stjórn samtaka um Maríusetur.

1981 - Hélstu að lífið væri svona? Viðtöl við verkakonur

1985 - Lífssaga baráttukona - (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir viðtalsbók)

1989 - Ég og lífið - (Guðrún Ásmundsdóttir viðtalsbók)

1992 - Fjarri hlýju hjónasængur - öðruvísi Íslandssaga.

1996 - Konur og kristsmenn. Þættir úr kristnisögu.

Inga Huld var ráðgjafi um kvennasjónarhorn við Kristssögu I-IV og í ritstjórn afmælisritsins Kvennaslóðir, til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi. Auk þess þýddi hún nokkrar bækur.[1]

Inga Huld Hákonardóttir, „Að þegja konur í hel“[óvirkur tengill], Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur, bls. 111-114 (Reykjavík 1980)

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „Minningargreinar: Inga Huld Hákonardóttir“, Morgunblaðið 10. júní 2014, (skoðað 26. júní 2019)
  2. „Í gær brautskráðust 113 stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík“, Þjóðviljinn, 17. júní 1955 (skoðað 25. júní 2019)