Markaðsbrestur
Markaðsbrestur nefnist það þegar framleiðsla á vöru eða þjónustu á markaði er ekki skilvirk. Með því er átt við að hagkvæmara sé að skipuleggja framleiðsluna með öðrum hætti. Sem dæmi um markaðsbresti má nefna: einokunar- og fákeppnismarkaði, samgæði, náttúrulegar auðlindir og ytri áhrif. Markaðsbrestir eru oft notaðir sem réttlæting á inngripi hins opinbera. Andstæða markaðsbrests hefur verið nefndur ríkisbrestur.
Ytri áhrif verða þegar hagrænt atferli hefur í för með sér ábata eða kostnað fyrir þriðja aðila án þess að sá aðili hafi valið að hljóta ábatann eða kostnaðinn. Þau eru ýmist jákvæð eða neikvæð eftir því hvort um er að ræða ábata eða kostnað fyrir þriðja aðilann. Ytri áhrif verða vegna þess að viðskiptakostnaður og/eða skortur á vel skilgreindum eignarrétti veldur því að þeir sem valda ytri áhrifunum og þeir sem verða fyrir þeim geta ekki samið sín á milli um lausn. Í slíkum tilfellum er oft hægt að auka samfélagslega velferð með ríkisinngripum, svo sem Pigou-sköttum eða kvótakerfum.[1]
Óútilokanleg gæði eru þau þar sem ómögulegt er að koma í veg fyrir að einstaklingar njóti gæðanna. Samgæði og náttúrulegar auðlindir eru tveir flokkar óútilokanlegra gæða. Almennt er ómögulegt að krefjast endurgjalds fyrir neyslu óútilokanlegra gæða nema til komi einhvers konar ríkisvald. Án ríkisvalds er of lítið eða ekkert veitt af samgæðum og of mikið notað af náttúrulegum auðlindum.[2]
Ófullkomnar upplýsingar eru þar sem aðilar í viðskiptum hafa lélegar upplýsingar um markaðinn og hefur það í för með sér leitarkostnað. Ósamhverfar upplýsingar eru þar sem aðilar í viðskiptum hafa mismiklar upplýsingar um það sem átt er í viðskiptum með. Hrakval er þegar upplýsingar eru ósamhverfar áður en viðskipti eiga sér stað og veldur því að einungis myndast markaður með gallagripi eða að einungis er átt í kostnaðarsömum viðskiptum. Freistnivandi er þegar upplýsingar eru ósamhverfar eftir að viðskipti eiga sér stað og er algengt vandamál á tryggingamörkuðum. Markaðsaðilar reyna að leysa þessi vandamál með aðskilnaði og merkjagjöf.[3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Mankiw og Taylor (2008): 189-205
- ↑ Mankiw og Taylor (2008): 207-221
- ↑ Mankiw og Taylur (2008): 446-450
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Mankiw, N. Gregory og Taylor, Mark P (2008). Economics. Cengage Learning. ISBN 978-1-84480-133-6.