Andakílsárvirkjun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Andakílsárvirkjun

Andakílsárvirkjun er vatnsaflsvirkjun í Borgarfjarðarsveit sem reist var á árunum 1945-47. Hún virkjar fall Andakílsár úr Andakílsárlóni niður á láglendið neðan gljúfranna. Skorradalsvatn er nýtt sem miðlun fyrir virkjunina og eru þar mannvirki sem stýra rennsli frá Skorradalsvatni til Andakílsár. Virkjunin var á sínum tíma reist af sveitarfélögum á Vesturlandi en tilheyrir í dag Orkuveitu Reykjavíkur.

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1907 festi enskur kaupsýslumaður og rafmagnsverkfræðingur, Cooper að nafni, kaup á vatnsréttindum og landareignum við Andakílsfossa. Ætlun hans var að reisa virkjun og hefja verksmiðjurekstur. Næstu tvö árin stóð félag Coopers fyrir rennslismælingum, en ekkert varð af framkvæmdum.

Skömmu eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar var stofnað félag á Vesturlandi um virkjun Andakílsár. Gerðar voru teikningar, en verkið fór út um þúfur þegar ekki fékkst ríkisábyrgð fyrir framkvæmdinni.

Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar komst á ný skriður á virkjunarmálið. Stofnað var sameignarfélag í eigu Akraness, Borgarfjarðarsýslu og Mýrasýslu árið 1942. Ákvað félagið árið 1944 að reisa 3,7 MW rafstöð. Alþingi samþykkti ríkisábyrgðina og fór undirbúningur þá í fullan gang.

Íslensk hönnun[breyta | breyta frumkóða]

Árni Pálsson verkfræðingur var hönnuður stöðvarhússins og stíflumannvirkja. Hann var jafnframt tæknilegur ráðunautur verksins ásamt Jakobi Guðjohnsen, síðar Rafmagnsstjóra í Reykjavík. Andakílsárvirkjun var því fyrsta stóra virkjunin sem var að öllu leyti hönnuð og reist af Íslendingum.

Í október 1947 var virkjunin gangsett. Hún var þá þriðja stærsta virkjun á landinu. Aðeins Ljósafossvirkjun og Laxárvirkjun,voru stærri.

Árið 1974 var afl stöðvarinnar rúmlega tvöfaldað upp í 8 MW, þegar bætt var við nýrri vélasamstæðu. Um leið voru stíflumannvirki styrkt og stækkuð.

Við sameiningu Orkuveitu Reykjavíkur og Akranesveitu árið 2001 varð Andakílsárvirkjun eign Orkuveitunnar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Helgi M. Sigurðsson (2002). Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi. VST. ISBN 9979772239.