Fara í innihald

Laxárstöðvar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Laxárstöðvar eru þrjár og eru staðsettar í Laxá í Aðaldal.

Laxárstöðvar voru byggðar af fyrirtækinu Laxárvirkjun, sem var helmingafélag ríkisins og Akureyrarbæjar en rann inn í Landsvirkjun 1983. Landsvirkjun á og rekur nú Laxárvirkjanir.

Laxárstöðvar nýta fallið í gljúfrunum við bæinn Brúar neðst í Laxárdal. Þaðan fellur áin út í Aðaldal. Virkjanirnar Laxá I og Laxá III eru rennslisvirkjanir. Það þýðir að virkjanirnar nýta eðlilegt rennsli Laxár. Áin rennur því beint inn í inntaksgöngin og að vatnsvélunum. Æskilegra er að hafa inntakslón.

Laxárstöð I

[breyta | breyta frumkóða]
Laxárstöð I
Virkjað vatnsfall 5 MW
Fallhæð 39 m
Vatnasvið 1550 km2
Fjöldi hverfla 2
Tegund hverfla Francis

Laxárstöð I [1] er elsta virkjunin í Laxá og nýtir hún efri hluta fallsins við Brúar. Frá stíflunni efst í gljúfrunum er vatnið leitt fyrst í jarðgöngum og síðan í trépípu að stöðvarhúsinu um 670 m leið. Fallhæðin er 39 m og framleiðslugeta virkjunarinnar er 5 MW. Í stöðinni eru tvær vélasamstæður og var sú fyrri tekin í notkun árið 1939 en hin síðari árið 1944.

Laxárstöð II

[breyta | breyta frumkóða]
Laxárstöð II
Virkjað vatnsfall 9 MW
Fallhæð 29 m
Vatnasvið 1550 km2
Fjöldi hverfla 1
Tegund hverfla Francis

Laxárstöð II [2] var reist á árunum 1950 til 1952. Hún hýsir einu vatnsvél stöðvarinnar sem tekin var í notkun árið 1953. Afl hennar er 9 MW.

Stíflumannvirki Laxár II voru byggð árið 1952 til að mynda inntakslón fyrir Laxárstöð II. Heildarfallið er 29 m.

Aðrennslispípa liggur frá stíflunni niður að Laxárstöð II, 378 m langur tréstokkur. Hann er 4 m í þvermál og flytur um 40 tonn af vatni á sekúndu. Fallhæðin er 29 m.

Fyrir ofan stöðvarhúsið er áberandi þrýstijöfnunartankur. Í vatninu sem rennur eftir tréstokknum er gífurleg hreyfiorka. Komi til þess að stöðva þurfi skyndilega vélar Laxár II myndast svokallaður vatnshamar í tréstokknum sem getur sprengt hann. Jöfnunartankurinn kemur í veg fyrir að slíkt gerist þar sem hann tekur þá við vatnshögginu. Jafnframt jafnar hann út rennslissveiflur í pípunni. Rör úr botni hans liggur niður að Laxá II.

Laxárstöð III

[breyta | breyta frumkóða]
Laxárstöð III
Virkjað vatnsfall 13,5 MW
Fallhæð 39 m
Vatnasvið 1550 km2
Fjöldi hverfla 1
Tegund hverfla Francis

Laxárstöð III, [3] 13,5 MW að afli, er nýjasta virkjunin í Laxá og nýtir sama fall og Laxá I. Frá stíflu Laxár I er vatnið leitt í jarðgöngum í austari gljúfurveggnum að stöðvarhúsi um 60 m inni í berginu skammt frá stöðvarhúsi Laxár I og þaðan um frárennslisgöng út í Laxá. Þessir vatnsvegir eru alls um 850 m á lengd. Í stöðinni er ein vélasamstæða sem tekin var í notkun árið 1973.

Inni í berginu er hvelfingin sem hýsir vélasamstæðu Laxár III. Upphaflega var hvelfingin hönnuð fyrir tvær vatnsvélar sem hvor um sig átti að framleiða 25 MW. Var þá miðað við 56 m háa stíflu ofar í gljúfrinu og að heildarfallhæðin yrði 83 m. Þessi virkjanatilhögun olli miklum deilum í þjóðfélaginu og gekk undir nafninu laxárdeilan. Henni lyktaði með samkomulagi um núverandi tilhögun þar sem hætt var við alla frekari stíflugerð og aðeins önnur vatnsvélin var sett niður.

Á árinu 1993 var vatnshjól hverfilsins endurnýjað og við það jókst afl stöðvarinnar úr 9 MW í 13,5 MW.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Landsvirkjun - Laxárstöð I“.
  2. „Landsvirkjun - Laxárstöð II“.
  3. „Landsvirkjun - Laxárstöð III“.