Alfred Eisenbeisser

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Alfred Eisenbeisser (rúmenska: Alfred „Fredi“ Fieraru) (f. 7. apríl 1908 - d. 1. júlí 1991) var rúmenskur knattspyrnumaður og skautadansari. Hann vann það fágæta afrek að keppa bæði á Ólympíuleikum og HM í knattspyrnu, í sitthvorri íþróttinni.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Eisenbeisser fæddist í borginni Cernăuţi í Austurríki-Ungverjalandi (nú Úkraínu). Hann var af þýsku ætterni en hlaut rúmenskt ríkisfang í kjölfar stækkunnar landsins eftir fyrri heimsstyrjöldina.

Knattspyrnuferill hans hófst með borgarliðum í Cernăuţi og árið 1930 var hann valinn í rúmenska landsliðið sem tók þátt í fyrstu heimsmeistarakeppninni í Úrúgvæ. Hann tók þátt í báðum leikjum Rúmena á mótinu, gegn Perú og Úrúgvæ. Tveimur árum eftir heimsmeistaramótið gekk hann til liðs við félagið Venus Búkarest og varð fjórvegis rúmenskur meistari undir þeirra merkjum áður en hann lagði skóna á hilluna árið 1944.

Samhliða knattspyrnuferlinum lagði Eisenbeisser stund á listhlaup á skautum. Hann keppti í parakeppni á Evrópumeistaramótinu í listdansi árin 1934 og 1939. Á ÓL í Berlín 1936 náði hann 7. sæti ásamt dansfélaga sínum Irinu Timcic. Eisenbeisser náði því þeim fágæta áfanga að keppa bæði á HM í knattspyrnu og á Ólympíuleikum í annarri íþrótt en knattspyrnu.

Upprisa frá dauðum[breyta | breyta frumkóða]

Eisenbeisser var hætt kominn á heimleiðinni frá HM í Úrúgvæ árið 1930. Hann fékk lungnabólgu í ferðinni og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús í Genúa. Honum var ekki hugað líf og neyddust liðsfélagar hans til að skilja hann eftir á Ítalíu. Þegar heim var komið tilkynntu þeir fjölskyldunni um andlát Alfreds. Öllum að óvörum braggaðist leikmaðurinn furðuhratt og tókst honum að komast heim upp á eigin spýtur. Hann kom heim til sín í þá mund sem verið var að undirbúa minningarathöfnina um hann og leið yfir móðurina þegar sonurinn birtist afturgenginn á heimilinu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]