Fara í innihald

Þriðji viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þriðji viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna (e. Third Amendment to the United States Constitution eða Amendment III) er þriðja grein réttindaskrár Bandaríkjanna (e. Bill of Rights), sem setur hömlur á að hermenn séu vistaðir á almennum heimilum á stríðstímum, en bannar slíkt hið sama alfarið á friðartímum liggi samþykki húseigandans ekki fyrir. Viðaukinn er það ákvæði stjórnarskrárinnar sem hefur farið hvað minnst fyrir á síðustu árum, en var upphaflega mjög mikilvægt og táknrænt í sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna.

Viðaukinn er svohljóðandi á ensku í hinum upprunarlega texta stjórnarskrár Bandaríkjanna:

„No Soldier shall, in time of peace be quartered in any house, without the consent of the Owner, nor in time of war, but in a manner to be prescribed by law.“[1]

Textinn hefur verið þýddur á íslensku á eftirfarandi hátt:

„Á friðartímum skal enginn hermaður vera settur til vistar á nokkru heimili án samþykkis eigandans, og ekki heldur á styrjaldartímum nema á þann hátt sem fyrirskipað verður með lögum.“[2]

Þriðji viðaukinn er það ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna sem á sér e.t.v. hvað lengsta forsögu, en það á rætur sínar að rekja aftur til laga sem Hinrik 1. Englandskonungur setti á Englandi árið 1131.[3]

Landsfeður Bandaríkjanna vildu banna dvöl hermanna á almennum heimilum vegna þess að Breska heimsveldið hafði, sérstaklega á tímum Georgs 3. Bretlandskonungs, verið stöðugt með her í amerísku nýlendunum þar sem hermenn voru oft á tíðum vistaðir á almennum heimilum nýlendubúa, bæði á stríðs- og friðartímum. Árið 1765 voru innleid lög sem voru kölluð „The Quartering Act“ og neyddu nýlendubúa til þess að sjá breskum hermönnum fyrir matföngum og gistingu. Þetta hafði í för með sér illa meðferð hersins á einstaklingum og eignum þeirra, og vakti mikla gremju í garð breskra yfirvalda meðal nýlendubúa.[4][5]

Í kjölfar mótmælanna og Teboðsins í Boston árið 1773 settu Bretar lög sem Bandaríkjamenn nefndu síðar „hin óbærilegu lög“ (e. The Intolerable Acts of 1774), en með þeim voru lögin frá 1765 um vistun hermanna á heimilum hert.[6]Óbærilegu lögin“ voru ein helsta kveikjan að því að Bandaríkjamenn lýstu síðan yfir sjálfstæði árið 1776. Í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna (e. Declaration of Independence), sem Thomas Jefferson skrifaði, er Georg 3. Bretlandskonungur sérstaklega ávíttur fyrir að íþyngja nýlendubúum með því að þurfa að vista hermenn (e. „For Quartering large bodies of armed troops among us.“).[7]

Þriðja viðaukanum var því ætlað að taka sérstaklega á þessu. Réttindaskrá Bandaríkjanna tók gildi árið 1791.[8]

Staða ákvæðisins eftir frelsisstríðið

[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem lítið hefur verið um stríðsrekstur á meginlandi Bandaríkjanna eftir að frelsisstríðinu lauk, hefur eftir það farið lítið fyrir ákvæði þriðja viðaukans. Hann hefur aldrei verið lagður til grundvallar í úrskurði hæstaréttar Bandaríkjanna, og sárasjaldan hefur verið vitnað til hans af dómstólum.[9] Viðaukinn hefur gjarnan verið túlkaður á þann hátt, að hann kveði á um og tryggi friðhelgi einkalífs einstaklinga gagnvart ríkisvaldinu.[10][11]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Bill of Rights“. National Archives. Sótt 19. nóvember 2014.
  2. „Stjórnarskrá Bandaríkjanna“. Sótt 19. nóvember 2014.
  3. Bell, 1993, bls. 118.
  4. „Third Amdenment“. Encyclopaedia Britannica. Sótt 19. nóvember 2014.
  5. „Quartering Act“. Encyclopaedia Britannica. Sótt 19. nóvember 2014.
  6. Fyrirmynd greinarinnar var „Intolerable Acts“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 19. nóvember 2014.
  7. „Declaration of Independence“. National Archives. Sótt 19. nóvember 2014.
  8. Katz, 2007, bls. 260
  9. Bell, 1993, bls. 140.
  10. Bell, 1993, bls. 141.
  11. „Amendment III: Quartering of Soldiers“. National Constitution Center. Sótt 19. nóvember 2014.