Fyrsti viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna
Fyrsti viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna (e. First Amendment to the United States Constitution eða Amendment I) er fyrsta grein réttindaskrár Bandaríkjanna (e. Bill of Rights), sem kveður á um aðskilnað ríkis og kirkju og að Bandaríkjaþingi sé óhemilt að setja lög sem skerða trúfrelsi, tjáningarfrelsi, prentfrelsi, fundafrelsi eða frelsi fólks til að leita réttar síns hjá ríkinu (e. right to petition).
Texti viðaukans
[breyta | breyta frumkóða]Viðaukinn er svohljóðandi á ensku í hinum upprunarlega texta stjórnarskrár Bandaríkjanna:
- „Congress shall make no law respecting an establishment of religion, or prohibiting the free exercise thereof; or abridging the freedom of speech, or of the press; or the right of the people peaceably to assemble, and to petition the Government for a redress of grievances.“[1]
Textinn hefur verið þýddur á íslensku á eftirfarandi hátt:
- „Sambandsþingið skal engin lög setja um stofnun trúfélags né til að koma í veg fyrir frjálsa iðkun trúarbragða; né heldur til skerðingar málfrelsi eða prentfrelsi; né réttindum fólks til friðsamlegra mannfunda eða að senda stjórninni bænaskrá um leiðrétting kvörtunarefna.“[2]
Uppruni
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu tíu viðaukar stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem eru sameiginlega kallaðir réttindaskrá Bandaríkjanna, tóku gildi 15. desember 1791.[3] James Madison, sem var einn af landsfeðrum Bandaríkjanna og „federalisti“ (og seinna 4. forseti Bandaríkjanna), sá um að gera drögin að réttindaskránni í þeim tilgangi að koma til móts við þeim sem voru andsnúnir hugmyndum „federalista“ (e. anti-federalists), en þeir höfðu kallað eftir þeirri málamiðlun að tryggja réttindi borgaranna í stjórnarskránni með sérstakri réttindaksrá. Fyrsti viðaukinn var eitt mikilvægasta ákvæðið í þessu samhengi en hann kveður á um þó nokkur af helstu réttindunum sem eru tryggð í réttindaksránni.[4] Nokkur af ákvæðum fyrsta viðaukans áttu sér fordæmi og voru að mörgu leyti innblásinn af réttindaskrá Bretlands frá árinu 1689 (e. English Bill of Rights of 1689), þá sérstaklega ákvæðið um frelsi fólks til að leita réttar síns hjá ríkinu (e. right to petition), en önnur ákvæði viðaukans voru ný af nálinni.[5]
Trúfrelsi og aðskilnaður ríkis og kirkju
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsti viðaukinn skiptist í raun í nokkur ákvæði, og fyrstu tvö þeirra kveða á um að Bandaríkjaþingi sé óheimilt að stofnsetja þjóðkirkju og að skerða frjálsa iðkun trúarbragða. Bandaríska stjórnarskráin var þannig ein sú fyrsta sem kvað á um aðskilnað ríkis og kirkju, en hugtakið birtist fyrst svo vitað sé í bréfi eftir Thomas Jefferson frá árinu 1802,[6] þar sem hann var að skrifa um fyrsta viðaukann. Jefferson var einn af landsfeðrum Bandaríkjanna og varð síðar 3. forseti Bandaríkjanna.
Ákvæði fyrsta viðaukans um trúfrelsi og aðskilnað ríkis og kirkju hafa verið tiltölulega óumdeild í Bandaríkjunum síðan að réttindaskráin tók gildi en þó hefur komið til deilna um hið síðarnefnda. Eitt helsta dæmið um slíkan ágreining er hvort megi hafa skipulagt bænahald í ríkisskólum samkvæmt lögum, hvort það standist ákvæðið um aðskilnað ríkis og kirkju, og hafa þær deilur verið fyrirferðamiklar í innanríkismálum Bandaríkjanna á síðari hluta 20. aldar.[7]
Tjáningarfrelsi og fundafrelsi
[breyta | breyta frumkóða]Ákvæði fyrsta viðaukans um tjáningar- og fundafrelsi hafa verið túlkuð á mismunandi hátt í gegnum tíðina og hafa verið umdeildari en hin, sérstaklega á 20. öld. Úrskurður hæstaréttar Bandaríkjanna í Gitlow v. New York[8] málinu árið 1925 markaði ákveðin þáttaskil og útvíkkaði valdheimild alríkisins til að framfylgja réttindunum sem kveðið er á um í fyrsta viðaukanum, í fylkjum Bandaríkjanna. Fyrsti viðaukinn inniheldur þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað í hvað flestum málum um.[9]
Þá hafa einnig verið settar ýmsar skerðingar á ákvæðunum um tjáningar-, prent- og fundafrelsi, sérstaklega á millistríðsárunum og síðan á kaldastríðsárunum. Þá voru t.d. innleiddar löggjafir sem bönnuðu uppreisnaráróður gegn ríkinu (e. sedition), og gripið var til fjölda aðgerða til að sporna gegn kommúnisma.[10] Á 21. öldinni hefur síðan verið deilt um hvort að ýmsar aðgerðir Bandaríkjanna í stríðinu gegn hryðjuverkum, í kjölfar hryðjuverkaárásnna 11. september 2001, t.d. í tengslum við Föðurlandsvinalögin svokölluðu (e. Patriot Act), standist fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar.[11]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Bill of Rights“. National Archives. Sótt 31. október 2014.
- ↑ „Stjórnarskrá Bandaríkjanna“. Sótt 31. október 2014.
- ↑ Katz, 2007, bls. 260.
- ↑ Fyrirmynd greinarinnar var „First Amendment to the United States Constitution“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. október 2014.
- ↑ „National Archives - Bill of Rights“. Sótt 31. október 2014.
- ↑ Jefferson, Thomas (1802). „Jefferson's Letter to the Danbury Baptists“. Sótt 31. október 2014.
- ↑ Roskin, Cord, Medeiros & Jones, 2012, bls. 82.
- ↑ Fyrirmynd greinarinnar var „Gitlow v. New York“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. október 2014.
- ↑ Roskin o.fl., 2012, bls. 88-89.
- ↑ Roskin o.fl., 2012, bls. 90-91.
- ↑ Roskin o.fl., 2012, bls. 92-93.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Katz, Richard S (2007). Political Institutions in the United States. Oxford: Oxford University Press.
- Roskin, M. G., Cord, R. L., Medeiros, J. A. og Jones, W. S (2012). Political Science: An Introduction (12. útgáfa). Upper Saddle River, NJ: Pearson Prentice Hall.