Fara í innihald

Írska borgarastyrjöldin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Írska borgarastríðið)
Írska borgarastyrjöldin

Írskir þjóðarhermenn vopnaðir vélbyssum um borð á herskipi í borgarastríðinu
Dagsetning28. júní 1922 – 24. maí 1923
Staðsetning
Niðurstaða Sigur stuðningsmanna ensk-írska sáttmálans
Breyting á
yfirráðasvæði
Staðfesting á stofnun írska fríríkisins
Stríðsaðilar
Fáni Írlands Írska fríríkið
(Stuðningsmenn sáttmálans)
Herstuðningur:
Fáni Bretlands Bretland
Fáni Írlands Írski lýðveldisherinn
(Andstæðingar sáttmálans)
Leiðtogar
Hernaðarleiðtogar:
Michael Collins  
Richard Mulcahy
Stjórnmálaleiðtogar:
W. T. Cosgrave
Kevin O'Higgins
Arthur Griffith
Hernaðarleiðtogar:
Liam Lynch  
Frank Aiken
Stjórnmálaleiðtogar:
Éamon de Valera
Units involved
Írski þjóðarherinn
Rannsóknardeild lögreglunnar
Borgaravarðlið
Samningsandstæðingar Írska lýðveldishersins
Cumann na mBan (að hluta)
Fianna Éireann (að hluta)
Írski borgaraherinn (að hluta)
Írska lýðveldislögreglan (að hluta)
Fjöldi hermanna
Þjóðarherinn: ~55.000 hermenn og 3.500 liðsforingjar undir lok stríðsins,
Flugvarnir: 10 flugvélar,
Lögreglusveitir: 350
~15.000
Mannfall og tjón
~800–900 írskir þjóðarhermenn drepnir[1] Óvíst, a.m.k. 426 drepnir[2]
~12.000 teknir til fanga[3]
Óbreyttir borgarar: Óvíst; u.þ.b. 300–400 drepnir.[4]

Írska borgarastyrjöldin var háð á Írlandi frá 1922 til 1923 á milli stuðningsmanna og andstæðinga ensk-írska sáttmálans sem írskir sjálfstæðisleiðtogar höfðu samið við Breta í kjölfar írska sjálfstæðisstríðsins í desember árið 1921. Meirihluti Íra fylgdi Arthur Griffith og Michael Collins, meðlimum í fyrstu ríkisstjórn írska fríríkisins sem sáttmálinn hafði stofnsett, að málum. Minnihluti landsmanna fylgdi Éamon de Valera að málum og vildi hafna skilmálum sáttmálans. Stríðið braust út eftir að stuðningsmenn sáttmálans unnu sigur í þingkosningum árið 1922. Í stríðinu féllu um 4.000 Írar í valinn á tæpu ári. Átökunum lauk með sigri samningssinna fríríkisstjórnarinnar gegn samningsandstæðingunum.

Borgarastríðið hafði djúpstæð áhrif á stjórnmál Írlands sem enn gætir í dag. Tveir helstu stjórnmálaflokkar írska lýðveldisins, Fianna Fáil og Fine Gael, rekja uppruna sinn til stríðsaðilanna í borgarastyrjöldinni.[5]

Sáttmálinn

[breyta | breyta frumkóða]

Ensk-írski sáttmálinn var saminn eftir viðræður sendinefndar írsku sjálfstæðisleiðtoganna Arthurs Griffith og Michaels Collins við ríkisstjórn Davids Lloyd George í Bretlandi. Með sáttmálanum var bundinn endi á írska sjálfstæðisstríðið. Sáttmálinn kvað á um að Norður-Írland skyldi klofið frá Írlandi en að í 26 sýslum í suðurhluta eyjunnar skyldi stofnað írskt fríríki sem hefði stöðu sjálfstjórnarumdæmis innan bresku krúnunnar. Meðlimir írska þingsins, Dáil Éreann, yrðu því áfram að sverja Bretakonungi hollustueið.

Ensk-írski sáttmálinn var undirritaður þann 6. desember árið 1921 í London og staðfestur í neðri málstöfu breska þingsins og undirritaður af konungi einu ári síðar. Erfiðara reyndist að fá samþykki fyrir honum á Írlandi þar sem tveir helstu sjálfstæðisleiðtogar Íra, Éamon de Valera og Cathal Brugha, voru afar mótfallnir skilmálum hans. Sáttmálinn var að endingu staðfestur þann 7. janúar árið 1922. Í mótmælaskyni sagði de Valera upp þingsæti sínu og sagði af sér sem forseti lýðveldisins. Arthur Griffith stofnaði bráðabirgðastjórn til að skipuleggja stofnun írska fríríkisins.

Í kosningum sem haldnar voru í kjölfarið unnu stuðningsmenn sáttmálans yfirburðasigur. Þeir fullvissuðu Íra um að sáttmálinn yrði aðeins skref í átt að enn frekara sjálfstæði en andstæðingar hans töldu að hann myndi koma varanlega í veg fyrir stofnun írsks lýðveldis.

Klofnun þjóðernishreyfingarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Þótt stuðningsmenn sáttmálans hefðu unnið yfirburðasigur í kosningum ársins 1922 neitaði de Valera að láta niður vopnin og reyndi að ná stjórn á írska lýðveldishernum, þar sem hann naut talsverðrar hylli. Írski lýðveldisherinn (IRA) klofnaði milli andstæðinga og stuðningsmanna sáttmálans og höfundar hans, Michaels Collins. Stuðningsmenn Collins gengu í hinn nýstofnaða írska þjóðarher en andstæðingar hans gengu í nýtt afbrigði af IRA.

Í apríl árið 1922 lögðu 200 stuðningsmenn de Valera undir forystu Rory O'Connor undir sig dómshúsið Four Courts í Dyflinni. Ásetningur þeirra var að æsa upp frekari hernaðarátök gegn Bretum og halda sjálfstæðisstríðinu áfram þar til betri samningsskilmálum væri náð.

Styrjöldin

[breyta | breyta frumkóða]

Orrustan um Dyflina

[breyta | breyta frumkóða]
Four Courts.

Ríkisstjórn Lloyd George hótaði stjórn fríríkisins hernaðarinngripi ef uppreisnarmennirnir yrðu ekki sigraðir en bauðst um leið til að útvega stjórninni vopn til að vinna bug á þeim eins fljótt og auðið yrði.

Michael Collins árið 1921

Michael Collins ákvað að til þess að vernda sjálfræði Írlands gagnvart mögulegu hernaðarinngripi Breta yrði hann að beita breskum fallbyssum til að gera sprengjuárásir á dómshúsið í Dyflinni þann 28. júní 1922.

Orrustan um yfirráð í höfuðborginni varð mjög blóðug, sér í lagi vegna þess að írski þjóðherinn beitti fallbyssum gegn uppreisnarmönnunum. Um 250 óbreyttir borgarar féllu í valinn og andstæðingar sáttmálans voru ofurliði bornir á um einni viku. Undir lok orrustunnar voru um 500 þeirra teknir til fanga af hermönnum fríríkisins. Í orrustunni um Dyflina féllu um 65 manns í valinn, þar á meðal Cathal Brugha, fyrrum varnarmálaráðherra á tíma sjálfstæðisstríðsins.

Eftir orrustuna voru frekari átök óhjákvæmileg milli lýðveldissinna sem fylgdu Liam Lynch að málum og hermanna þjóðhersins undir stjórn Michaels Collins. Í byrjun stríðsins voru lýðveldissinnarnir fjölmennari en hermenn fríríkisins voru betur vopnum búnir og betur skipulagðir.

Bretar höfðu útvegað hermönnum fríríkisins nauðsynlegar birgðir og vopn á borð við skotvopn, brynvarnir og fallbyssur. Fríríkið naut auk þess stuðnings meirihluta landsmanna og kirkjunnar, sem vildu frið eftir margra ára átök. Fleiri manns gengu auk þess til liðs við her fríríkisins á meðan stríðið geisaði og margir þeirra voru reyndir hermenn úr fyrri heimsstyrjöldinni. Flestir andstæðingar sáttmálans voru ungir og óreyndir og í áróðri sínum lögðu þeir áherslu á að hermenn fríríkisins væru upp til hópa gamlir meðlimir í breska hernum.

Í fyrstu réð lýðveldisherinn yfir hluta af mikilvægasta landsvæði Írlands en þar sem lýðveldissinnar voru ekki eins vel vígbúnir og andstæðingarnir forðuðust þeir í fyrstu bein átök. Í ágúst árið 1922 einbeitti þjóðherinn sér að því að endurheimta borgir í suður- og vesturhluta landsins úr höndum lýðveldishersins. Áhlaupið heppnaðist og brátt voru allar helstu borgir Írlands komnar undir stjórn fríríkisins. Lýðveldisherinn varð því að skipta liði og grípa til skæruhernaðar gegn fríríkinu.

Þann 12. ágúst 1922 lést Arthur Griffith, stjórnarleiðtogi fríríkisins, úr heilablóðfalli. Þann 22. ágúst var Michael Collins, leiðtogi þjóðhersins, ráðinn af dögum í umsátri lýðveldissinna. William T. Cosgrave og Richard Mulcahy tóku því við sem stjórnar- og herleiðtogar fríríkisins á lokakafla borgarastríðsins.

Vegna umsátra lýðveldissinna greip þjóðherinn til hefndaraðgerða með því að taka af lífi stríðsfanga í nóvember árið 1922. Lýðveldisherinn brást við í desember með því að gera árásir á þingmenn fríríkisins og á landeigendur, sem gjarnan voru mótmælendatrúar og nutu verndar stjórnarinnar. Ofbeldið hélt áfram að stigmagnast með aftöku lýðveldisforingja á borð við Rory O'Connor. Þar sem lýðveldishernum varð lítið ágegnt og almenningsálitið var farið að snúast enn frekar gegn honum ákvað Éamon de Valera loks að semja um vopnahlé þann 30. apríl árið 1923. Lýðveldissinnum var svo skipað að leggja niður vopnin þann 24. maí.

Eftirmálar

[breyta | breyta frumkóða]

Um 4.000 Írar létust í borgarastyrjöldinni og um 12.000 lýðveldissinnar sátu í fangelsi til ársins 1924. Þetta mannfall var tiltölulega lágt miðar við önnur borgarastríð 20. aldarinnar. Norður-Írlandi var auk þess hlíft við átökunum. Stríðið var engu að síður afar kostnaðarsamt og eyðileggingin kostaði fríríkið um 30 milljónir punda. Eftir stríðið stóð Írland í um fjögurra milljóna punda skuld.

Afleiðingar

[breyta | breyta frumkóða]

Efnahagsafleiðingar stríðsins leiddu til þess að fríríkið varð að gefa nokkuð eftir í samningaviðræðum um landamæri sín við Norður-Írland. Meðal annars varð að eftirláta Norður-Írlandi nokkur svæði þar sem írskir þjóðernissinnar voru í meirihluta í skiptum fyrir að Bretland felldi niður kröfur um að fríríkið bæri hluta af skuldakostnaði Breta úr fyrri heimsstyrjöldinni (sem hafði verið eitt af ákvæðum ensk-írska sáttmálans).

Éamon de Valera reyndi í kjölfar styrjaldarinnar án árangurs að endurskipuleggja Sinn Féin-flokkinn og fá meðlimi hans til að stefna á að breyta fríríkinu í lýðveldi. Þegar þetta tókst ekki stofnaði de Valera árið 1925 eigin flokk, Fianna Fáil, sem átti eftir að gnæfa yfir írskum stjórnvöldum fram á okkar daga.

Fine Gael var stofnaður árið 1933 af gömlum stuðningsmönnum ensk-írska sáttmálans og er einnig annar stærsti flokkur írska lýðveldisins í dag.

  • Calton Younger, Ireland's Civil War, Frederick Muller, London 1968
  • The Irish Claims Compensation Association, A record of some mansions and houses destroyed 1922-23 (1924)
  • Ernie O'Malley, The Singing Flame, Dublin, 1978. Mémoires.
  • M.E. Collins, Ireland 1868-1966, Dublin, 1993
  • Michael Hopkinson, Green against Green - the Irish Civil War, Paperback, 2004
  • Eoin Neeson, The Irish Civil War, 1966, endurútg. 1989
  • Paul V Walsh, The Irish Civil War 1922-23 -A Study of the Conventional Phase, 1998
  • Meda Ryan, The Real chief, Liam Lynch, 2005
  • Tim Pat Coogan, De Valera, Long Fellow, Long Shadow, 1993
  • Frances M. Blake, The Irish Civil War and what it still means for the Irish people, Information on Ireland, London, 1986, endurprentað 1988
  • Liam O'Flaherty, The Sniper, 1923. Smásaga.
  • The Treaty Debates, desember 1921 – janúar 1922

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Report on Talk: 'Establishing the Free State in Conflict'. 22. júní 2015.
  2. The Last Post. National Graves Association. 1985. bls. 130–154. OCLC 64552311.
  3. Hopkinson 1988, bls. 272–273.
  4. Durney, James (2011). The Civil War in Kildare. Mercier Press. bls. 159. ISBN 978-1-85635-757-9: estimates 200 civilians killed
  5. Kissane, Bill (2005). The Politics of the Irish Civil War. OUP Oxford. bls. 11. ISBN 978-0-19-927355-3.