Víetnam

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sósíalíska lýðveldið Víetnam
Cộng hòa Xã hội chủ nghĩa Việt Nam
Fáni Víetnams Skjaldarmerki Víetnams
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Độc lập, tự do, hạnh phúc (víetnamska)
Sjálfstæði, frelsi, hamingja
Þjóðsöngur:
Tiến Quân Ca
Staðsetning Víetnams
Höfuðborg Hanoí
Opinbert tungumál Víetnamska
Stjórnarfar Kommúnískt flokksræði

Aðalritari Nguyễn Phú Trọng
Forseti Võ Văn Thưởng
Forsætisráðherra Phạm Minh Chính
Sjálfstæði frá Frakklandi
 • Yfirlýst 2. september 1945 
 • Viðurkennt 21. júlí 1954 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
66. sæti
331.699 km²
6,38
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
16. sæti
100.000.000
295/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 1.047,318 millj. dala (23. sæti)
 • Á mann 10.755 dalir (106. sæti)
VÞL (2019) 0.708 (117. sæti)
Gjaldmiðill Dong (VND)
Tímabelti UTC+7
Þjóðarlén .vn
Landsnúmer +84

Víetnam er land í Suðaustur-Asíu með landamæri að Alþýðulýðveldinu Kína í norðri, Laos í norðvestri og Kambódíu í suðvestri, og strandlengju að Suður-Kínahafi í austri. Landhelgi Víetnams nær auk þess að landhelgi Taílands í vestri, Indónesíu, Filippseyja og Malasíu í suðri og suðaustri. Víetnam er yfir 330 þúsund ferkílómetrar að stærð og nær yfir austurströnd Indókína. Landið skiptist í 58 sýslur og 5 sveitarfélög. Íbúar landsins voru 100 milljónir árið 2023, sem gerir það að 15. fjölmennasta ríki heims. Höfuðborg Víetnams er Hanoí, en stærsta borgin er Ho Chi Minh-borg sem áður hét Saígon.

Fornleifafundir benda til þess að mannvist hafi hafist í Víetnam á fornsteinöld. Þjóðflokkar sem bjuggu í Rauðárdal og nærliggjandi strandhéruðum urðu hluti af ríki Hanveldisins í Kína á 2. öld f.o.t. Næstu þúsund árin var Víetnam hluti af kínverska keisaraveldinu. Fyrstu sjálfstæðu konungsríkin urðu til á 10. öld. Þau stækkuðu smám saman í suður, þar til Frakkar lögðu landið undir sig á 19. öld og Víetnam varð hluti af Franska Indókína. Nútímaríkið Víetnam varð til þegar íbúar þar lýstu yfir sjálfstæði eftir að hernámi Japana lauk 1945. Frakkar reyndu að halda völdum en Víetnamar sigruðu þá í Fyrsta stríðinu í Indókína sem lauk 1954. Eftir það klofnaði landið í tvennt: Norður-Víetnam með kommúnistastjórn, og Suður-Víetnam með andkommúníska stjórn. Átök milli ríkjanna tveggja leiddu til Víetnamstríðsins þar sem Bandaríkjaher beitti sér til stuðnings stjórninni í Suður-Víetnam, en beið ósigur. Stjórn Norður-Víetnam sameinaði landið í eitt Víetnam árið 1975.

Eftir sigur kommúnistastjórnarinnar var landið lengi vel einangrað á alþjóðavettvangi. Árið 1986 hóf Kommúnistaflokkur Víetnams röð umbóta sem áttu þátt í að bæta stöðu Víetnams efnahagslega og pólitískt. Síðan þá hefur vöxtur verið hraður og landið oft í efstu sætum ríkja með mestan hagvöxt á heimsvísu.

Víetnam er stórveldi í sínum heimshluta og er flokkað sem miðveldi.[1][2] Landið á aðild að fjölda alþjóðastofnana og ríkjasamtaka, þar á meðal Sameinuðu þjóðunum, Sambandi Suðaustur-Asíuríkja, Efnahagssamstarfi Asíu- og Kyrrahafsríkjanna, Samtökum hlutlausra ríkja, Samtökum frönskumælandi ríkja, RCEP og Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Víetnam hefur tvisvar tekið sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Víetnam var flokkað sem þróunarland af Sameinuðu þjóðunum til 2019 og Bandaríkjunum til 2020.[3]

Spilling, þar á meðal útbreidd mútuþægni, er stórvandamál í Víetnam.[4][5] Kannanir frá 2005 og 2010 sýndu að íbúar í þéttbýli mátu gagnsæi sem mjög lítið, og að mútugreiðslur til embættismanna og starfsfólks í heilbrigðisgeirum og opinberri þjónustu voru mjög útbreiddar. Peningagreiðslur í rauðum umslögum, sem eru algengar sem óformlegt greiðslukerfi í kringum hátíðir, urðu útbreiddar í heilbrigðiskerfinu eftir tilraunir til markaðsvæðingar eftir 1986. Aðgerðir gegn spillingu hafa bætt ástandið, en þrátt fyrir það var það enn metið mjög slæmt milli 2015 og 2017.[6][7] Öflugra átak gegn spillingu á að eiga sér stað milli 2021 og 2025.[8]

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Nafnið Việt Nam (越南) er útgáfa heitisins Nam Việt (南越, sem merkir bókstaflega „Suður-Việt“) sem til eru heimildir um frá valdatíð Triệu-ættar á 2. öld f.o.t.[9] Orðið Việt (Yue) var upphaflega ritað í miðkínversku með tákninu 戉 sem táknar exi (samhljóma orð), í bein- og bronsáletrunum frá Sjangveldinu um 1200 f.o.t., en síðar með tákninu 越.[10] Á þeim tíma vísaði það til höfðingja eða þjóðflokks norðvestan við Sjangveldið.[11] Snemma á 8. öld f.o.t. var þjóðflokkur sem bjó um miðbik Jangtse kallaður Yangyue, sem síðar var notað yfir íbúa sem bjuggu sunnar. Milli 7. og 4. aldar f.o.t. vísaði orðið Yue/Việt til íbúa ríkisins Yue neðar við Jangtse. Frá 3. öld f.o.t. var hugtakið notað yfir þjóðir sem ekki töluðu kínversku og bjuggu í Suður-Kína og Norður-Víetnam, sérstaklega þjóðirnar Minyue, Ouyue, Luoyue (Lạc Việt á víetnömsku), sem líka voru kallaðar Baiyue (Bách Việt, „hundrað Yue“, á víetnömsku). Baiyue/Bách Việt kemur fyrst fyrir í annálnum Lüshi Chunqiu sem var tekinn saman um 239 f.o.t.[12]

Á 17. og 18. öld töluðu víetnamskir menntamenn um sjálfa sig sem nguoi Viet („Víetþjóðina“) eða nguoi Nam („suðurþjóðina“).[13] Elstu heimildir um ritháttinn Việt Nam (越南) eru í 16. aldar kvæðinu Sấm Trạng Trình. Hann kemur líka fyrir á 12 steintöflum frá 16. og 17. öld, þar á meðal einni í Bao Lam-hofinu í Hải Phòng sem er frá árinu 1558.[14] Árið 1802 stofnaði Nguyễn Phúc Ánh, sem síðar varð Gia Long keisari, Nguyễn-ætt. Hann óskaði eftir því við Jiaqing Kínakeisara að hann fengi titilinn „konungur Nam Việt/Nanyue“. Keisarinn hafnaði því þar sem nafnið gat vísað til hins forna Nanyue sem náði líka yfir kínversku héruðin Guangxi og Guangdong. Keisarinn ákvað því að nota heldur ritháttinn Việt Nam.[15] Frá 1804 til 1813 notaði keisarinn Gia Long því nafnið Vietnam. Snemma á 20. öld var þetta nafn endurvakið í bókinni Yuènán Wángguó Shǐ eftir sjálfstæðisleiðtogann Phan Bội Châu og víetnamski þjóðernisflokkurinn Việt Nam Quốc Dân Đảng tók það líka upp. Fram til 1945 var landið oftast kallað Annam, en það ár tók keisarastjórnin í Huế upp nafnið Việt Nam.[16]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Đông Sơn-bronstromma.

Elstu menjar um mannabyggð í Víetnam eru frá Fornsteinöld. Steingervingar tengdir Homo erectus hafa fundist í hellum í Lạng Sơn og Nghệ An í Norður-Víetnam. Elstu leifar frá Homo sapiens í Víetnam eru frá Miðpleistósen. Tennur úr Homo sapiens frá Síðpleistósen hafa fundist í Dong Can, og frá Árhólósen frá Mai Da Dieu, Lang Gao og Lang Cuom. Um árið 1000 f.o.t. varð hrísgrjónarækt á flæðiökrum grundvöllur Đông Sơn-menningarinnar sem er þekktust fyrir íburðarmiklar steyptar bronstrommur. Um þetta leyti komu fram víetnömsku ríkin Văn Lang og Âu Lạc og áhrifa þeirra gætti víða í Suðaustur-Asíu, meðal annar á Malajaeyjum allt 1. árþúsundið f.o.t.

Konungsveldin[breyta | breyta frumkóða]

Hồng Bàng-veldið þar sem Hùng-konungar ríktu er goðsagnakennt fyrsta konungsveldi Víetnams og sagt stofnað árið 2879 f.o.t. Árið 257 f.o.t. var síðasti Hùng-konungurinn sigraður af Thục Phán. Hann sameinaði Lạc Việt og Âu Việt í eitt Âu Lạc og tók sér konungsheitið An Dương Vương. Árið 179 f.o.t. sigraði kínverski herforinginn Zhao Tuo An Dương Vương og lagði Âu Lạc undir Nanyue. Hanveldið lagði síðan Nanyue undir sig í kjölfar stríðs Han og Nanyue árið 111 f.o.t. Næstu þúsund árin var landið sem í dag er Norður-Víetnam undir yfirráðum Kína. Tímabundnar uppreisnir voru gerðar undir forystu Trưng-systra og lafði Triệu, og landið fékk sjálfstæði um tíma sem Vạn Xuân milli 544 og 602. Snemma á 10. öld naut landið sjálfræðis undir stjórn Khúc-ættar.

Árið 938 sigraði víetnamski lávarðurinn Ngô Quyền her Kínverja frá Suður-Han við Bạch Đằng og landið fékk fullt sjálfstæði í kjölfarið sem Đại Việt (Mikla-Víet). Eftir það gekk landið í gegnum blómaskeið undir Lý-ætt og Trần-ætt. Á tíma Trần-ættar hratt landið þremur innrásartilraunum Mongóla. Á sama tíma blómstraði Mahayana-búddismi í landinu og varð ríkistrú. Kínverska Mingveldið lagði landið undir sig um stutt skeið eftir sigur á Hồ-ætt en endurheimti sjálfstæðið undir Lê-ætt. Á þessum tíma stækkaði Víetnam smám saman til suðurs og lagði að lokum Champa undir sig auk hluta Kmeraveldisins.

Frá 16. öld einkenndist stjórn landsins af innri átökum. Mạc-ætt hóf átök við Lê-ætt og eftir að sigur vannst á Mạc-ætt var Lê-ætt aðeins endurreist að nafninu til. Raunveruleg völd voru í höndum Trịnh-lávarðanna í Norður-Víetnam og Nguyễn-lávarðanna í suðri sem tókust á um völdin í landinu í fjóra áratugi. Samið var um frið og skiptingu landsins á 8. áratug 17. aldar. Á þessum tíma stækkuðu Nguyễn-lávarðarnir veldi sitt í suður svo það náði yfir árósa Mekong, miðhálendið og lönd Kmera vestan við árósana. Skiptingu landsins lauk öld síðar þegar Tây Sơn-bræður sameinuðu löndin tvö um stutt skeið, þar til Nguyễn Ánh sigraði þá með aðstoð Frakka. Hann tók sér keisaranafnið Gia Long og stofnaði Nguyễn-veldið árið 1802.

Franska Indókína[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu Evrópubúarnir sem áttu í viðskiptum við Víetnam voru Portúgalar sem komu þangað á 16. öld. Eftir að hafa stofnað nýlendur í Makaó og Nagasaki hófu þeir verslun í Hội An um miðbik Víetnam. Jesúítar stunduðu trúboð í Víetnam á 17. öld. Hollenska Austur-Indíafélagið og Breska Austur-Indíafélagið reyndu að koma sér fyrir í Víetnam en gekk illa vegna átaka við íbúa.

Franskir kaupmenn stunduðu verslun við Víetnam milli 1615 og 1753. Fyrstu frönsku trúboðarnir komu til landsins árið 1658. Brátt bættust spænskir Dóminikanar og Fransiskanar í hópinn. Víetnömsk yfirvöld tóku að líta á þetta trúboð sem ógnun og handtóku nokkra kaþólska trúboða 1843. Franski sjóherinn fékk þá leyfi til hernaðaraðgerða til að frelsa trúboðana. Milli 1859 og 1885 unnu Frakkar nokkra hernaðarsigra á Víetnömum og lögðu Suður-Víetnam undir sig 1867. Eftir það hóf Văn Thân-hreyfingin aðgerðir gegn kaþólikkum í Mið- og Norður-Víetnam.

Um 1884 var nánast allt landið á valdi Frakka. Þeir skiptu því í þrennt: Cochinchine (Suður-Víetnam) Annam (Mið-Víetnam) og Tonkin (Norður-Víetnam). Þessi þrjú landsvæði voru formlega sameinuð Franska Indókína árið 1887. Stjórn Frakka olli miklum stjórnarfarslegum breytingum á samfélagi Víetnama, sérstaklega með vestrænu menntakerfi. Flestir Frakkar settust að í Suður-Víetnam og í borgunum Saígon og Hanoí.

Cần Vương-hreyfingin barðist gegn yfirráðum Frakka og myrti um þriðjung allra kristinna Víetnama áður en hún var sigruð árið 1890 í kjölfar víðtækra hefndaraðgerða. Thái Nguyên-uppreisnin var líka barin niður af hörku. Frakkar komu upp plantekrum sem ræktuðu tóbak, indigó, te og kaffi um leið og þeir hunsuðu kröfur landsmanna um aukna sjálfstjórn.

Þjóðernishreyfing varð til í upphafi 20. aldar með leiðtogum á borð við Phan Bội Châu, Phan Châu Trinh, Phan Đình Phùng, Hàm Nghi keisara og Hồ Chí Minh sem kölluðu eftir sjálfstæði. Víetnamski þjóðernisflokkurinn blés til Yên Bái-uppreisnarinnar árið 1930 sem Frakkar börðu niður. Uppreisnin leiddi til klofnings innan hreyfingarinnar og margir leiðtogar hennar tóku að aðhyllast kommúnisma.

Frakkar héldu yfirráðum sínum í Indókína fram að síðari heimsstyrjöld þegar Japanar réðust inn í Frönsku Indókína í Kyrrahafsstríðinu 1940. Japanar leyfðu frönskum stjórnvöldum sem voru hliðholl Vichy-stjórninni í Frakklandi að starfa áfram í landinu gegn því að fá að setja heri sína þar niður og nýta náttúruauðlindir landsins. Japanar tóku alveg yfir stjórn landsins í mars 1945. Í kjölfarið fylgdi hungursneyðin í Víetnam 1945 sem olli dauða tveggja milljóna manna.

Fyrsta stríðið í Indókína[breyta | breyta frumkóða]

Skipting Franska Indókína eftir Genfarráðstefnuna 1954.

Árið 1941 var Việt Minh-hreyfingin stofnuð undir stjórn Hồ Chí Minh. Hreyfingin sóttist eftir sjálfstæði frá Frökkum og endalokum hernáms Japana. Eftir ósigur Japans og hrun leppstjórnar þeirra í Víetnam í ágúst 1945 upphófst ofbeldisalda í landinu. Việt Minh lagði Hanoí undir sig og lýsti yfir stofnun starfsstjórnar sem aftur lýsti yfir sjálfstæði 2. september.

Í júlí 1945 ákváðu Bandamenn að skipta Indókína við 16. breiddargráðu til að Chiang Kai-shek gæti tekið við uppgjöf Japana í norðurhlutanum og Mountbatten lávarður gert það sama í suðurhlutanum. Bandamenn samþykktu að Frakkar fengju yfirráð yfir Indókína að nýju.

Indverskar hersveitir á vegum Breta og Suðurher Japana voru notuð til að viðhalda lögum og reglu og aðstoða Frakka við að taka stjórnina í sínar hendur. Hồ Chí Minh ákvað að forðast bein átök við Frakka, óskaði eftir því að franskir embættismenn hyrfu frá landinu og að franskir kennarar aðstoðuðu stjórnina við að byggja upp nútímalegt menntakerfi. Starfsstjórn Franska lýðveldisins hafnaði þessum óskum og sendi Leiðangursher Frakka til Austurlanda fjær til að endurreisa nýlenduyfirvöldin. Seint á árinu 1946 hóf Việt Minh skæruhernað gegn Frökkum og þar með Fyrsta stríðið í Indókína. Stríðið stóð til ársins 1954 þegar Frakkar biðu ósigur í orrustunni við Điện Biên Phủ. Á Genfarráðstefnunni 1954 var Hồ Chí Minh í góðri stöðu til að semja um friðarskilmála.

Við endalok nýlendustjórnarinnar var Franska Indókína skipt í þrjú lönd: Víetnam, og konungsríkin Kambódíu og Laos. Víetnam var auk þess skipt í norður- og suðurhluta við 17. breiddargráðu, fram að kosningum sem áttu að fara fram árið 1956. Frjáls för fólks milli landshlutanna var heimiluð í 300 daga og á þeim tíma fluttust flestir útlendingar og kaþólskir Víetnamar frá norðurhlutanum til suðurhlutans af ótta við ofsóknir kommúnista. Bandaríkjaher aðstoðaði við flutningana. Skipting Víetnams átti aldrei að vera langvarandi, en árið 1955 framdi Ngô Đình Diệm valdarán í Suður-Víetnam og lýsti sjálfan sig forseta Lýðveldisins Víetnam. Lýðveldið fékk stuðning frá Bandaríkjunum, Laos, Lýðveldinu Kína og Taílandi, en Alþýðulýðveldið Víetnam í norðurhlutanum fékk stuðning frá Sovétríkjunum, Svíþjóð, Rauðu Kmerunum og Alþýðulýðveldinu Kína.

Víetnamstríðið[breyta | breyta frumkóða]

Frá 1953 til 1956 stóð stjórn Norður-Víetnams fyrir umbótum í landbúnaði sem leiddu til kúgunartilburða og aftaka meðal þorpsbúa í sveitum. Lengi var talið að um 50.000 hefðu verið tekin af lífi, en nýlegar rannsóknir benda til mun lægri tölu, en þó fleiri en 13.500.[17] Í suðurhlutanum barði Diệm niður andstöðu með því að handtaka þúsundir meintra kommúnista og setja í „endurmenntunarbúðir“. Skæruliðasveitir Việt Cộng, sem voru hliðhollar stjórninni í Hanoí, hófu vopnaða baráttu gegn stjórn Suður-Víetnams seint á 6. áratugnum. Árið 1960 gerði stjórn Norður-Víetnams samninga um hernaðaraðstoð við Sovétríkin.

Stjórn Diệms var höll undir kaþólska trú og óánægja búddista með hana leiddi til mótmælaöldu árið 1963 sem barin var niður af mikilli hörku. Þetta varð til þess að samband stjórnarinnar við Bandaríkin rofnaði og nýs valdaráns þar sem Ngo Dinh Diem var myrtur. Eftir það tók hver herforingjastjórnin við af annarri þar til herforingjarnir Nguyễn Cao Kỳ og Nguyễn Văn Thiệu tóku völdin í sínar hendur um mitt ár 1965. Thiệu sölsaði síðan völdin undir sig með kosningasvindli 1967 og 1971. Á þessum tíma óx kommúnistum ásmegin og Bandaríkin hófu að senda hernaðarráðgjafa til Suður-Víetnam. Tonkinflóaatvikið 2. ágúst 1964 var átylla sem Bandaríkin notuðu fyrir beinum afskiptum. Bandarískir hermenn hófu hernaðaraðgerðir í Víetnam árið 1965 og urðu um 500.000 talsins þegar mest var nokkrum árum síðar. Á sama tíma sáu Alþýðulýðveldið Kína og Sovétríkin Norður-Víetnam fyrir hergögnum og 15.000 ráðgjöfum. Birgðum var komið frá Norður-Víetnam til Việt Cộng í Suður-Víetnam eftir Hồ Chí Minh-slóðinni sem lá um Laos.

Árið 1968 hófu kommúnistar Tết-sóknina gegn skotmörkum í Suður-Víetnam. Sóknin mistókst en olli því að almenningsálitið í Bandaríkjunum snerist gegn stríðinu. Fjöldamorðin í Huế, þar sem talið er að yfir 3000 almennir borgarar hafi verið myrtir af Việt Cộng, auk fjöldamorða sem bandarískir hermenn og hermenn stjórnar Suður-Víetnams frömdu, og ljósmyndir birtust af í vestrænum blöðum, urðu til þess að andstaða við Víetnamstríðið í Bandaríkjunum jókst hratt. Rannsóknarnefnd bandarísku öldungadeildarinnar komst að því 1974 að 1,4 milljónir almennra borgara hefðu týnt lífinu frá 1965 til 1974, þar af yfir helmingur vegna aðgerða Bandaríkjahers og stjórnvalda í Suður-Víetnam. Bandaríkin hófu því að draga herlið sitt frá Víetnam snemma á 8. áratugnum. Tilraunir til að styrkja stöðu stjórnvalda í Suður-Víetnam mistókust og með friðarsamningum í París var Bandaríkjunum gert að hverfa með allt herlið sitt frá Víetnam fyrir 29. mars 1973. Í desember 1974 hóf Norður-Víetnam sókn suður á bóginn sem lyktaði með falli Saígon 30. apríl 1975. Suður-Víetnam var undir starfsstjórn í nærri átta ár eftir hernám Norður-Víetnams.

Sameining og umbætur[breyta | breyta frumkóða]

Norður- og Suður-Víetnam voru formlega sameinuð sem Alþýðulýðveldið Víetnam 2. júlí 1976. Víetnamstríðið skildi landið eftir í rúst og talið er að milli 966.000 og 3,8 milljónir hafi týnt lífinu. Undir stjórn Lê Duẩn voru engin fjöldamorð framin á Suður-Víetnömum eins og Vesturveldin höfðu óttast, en 300.000 voru send í endurmenntunarbúðir þar sem fangar voru látnir vinna erfiðisvinnu og margir máttu þola pyntingar, hungur og sjúkdóma. Samyrkjustefna var tekin upp í landbúnaði og iðnaði. Eftir að Rauðu Kmerarnir fyrirskipuðu fjöldamorð á Víetnömum í landamærabæjunum An Giang og Kiên Giang gerði Víetnam innrás í Kambódíu og setti þar á fót leppstjórn, Alþýðulýðveldið Kampútseu, sem ríkti til 1989. Þetta leiddi til versnandi samskipta við Kína sem hafði stutt Kmerana. Í kjölfarið tók Víetnam upp nánari samskipti við Sovétríkin.

Á sjötta þingi Kommúnistaflokks Víetnams í desember 1986 tók ný kynslóð umbótasinna við valdataumunum í Víetnam. Leiðtogi þeirra var Nguyễn Văn Linh sem varð aðalritari flokksins. Hann hóf röð umbóta sem lutu að því að færa landið frá áætlunarbúskap í átt til meira efnahagslegs frjálsræðis í nafni sósíalísks markaðshagkerfis. Umbæturnar voru kallaðar Đổi Mới („endurnýjun“). Ríkið hélt stjórn á lykilatvinnuvegum en hvatti jafnframt til fjárfestinga einkaaðila og útlendinga. Í kjölfarið óx efnahagur Víetnams hratt samhliða auknum ójöfnuði.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Hạ Long-flói, Bản-Giốc-fossar og Yến-fljót.

Víetnam er austasti hluti Indókína milli 8° og 24° norður, og 102° og 110° austur. Landið er rúmlega 330 þúsund ferkílómetrar að stærð. Samanlagt eru landamæri Víetnams 4.639 km að lengd og strandlengjan er 3.444 km.[18] Þar sem landið er grennst, í héraðinu Quảng Bình, er það aðeins 50 km breitt, en breiðast er það 600 km í norðurhlutanum.[19] Landið er að mestu hæðótt og vaxið þéttum skógi. Sléttlendi er aðeins 20% af heildarlandsvæðinu en fjöll þekja 40% þess.[20] Hitabeltisskógar þekja um 42% landsins. Mesta þéttbýlið er við árósa Rauðár í norðrinu, á þríhyrndu landsvæði sem er um 15.000 ferkílómetrar að stærð. Árósar Mekong í suðrinu eru ekki eins þéttbýlir. Eitt sinn var þar vík við Tonkinflóa en hún hefur fyllst af framburði árinnar í gegnum árþúsundin.[21][22] Árósarnir ná yfir 40.000 ferkílómetra og eru aðeins 3 metra yfir sjávarmáli að meðaltali. Um þá liggur net árfarvega og skipaskurða sem bera svo mikið set að ósarnir stækka 60 til 80 metra út í sjó á hverju ári.[23][24] Efnahagslögsaga Víetnams er 417.663 km² að stærð í Suður-Kínahafi.[25]

Hoàng Liên Sơn-fjöll, hlutar af Fansipan sem er hæsti tindur Indókína.

Suður-Víetnam skiptist í láglendi við ströndina, Annamfjöll og stóra skóga. Hálendið skiptist í fimm, tiltölulega flatlendar, sléttur með basaltjarðvegi, sem þekja um 16% af ræktarlandi og 22% af skóglendi Víetnams.[26] Jarðvegur í suðurhluta Víetnams er tiltölulega snauður vegna þaulræktunar.[27] Nokkrir litlir jarðskjálftar hafa mælst í landinu, flestir við landamærin í norðri, í héruðunum Điện Biên, Lào Cai og Sơn La, en aðrir undan strönd miðhluta landsins.[28][29] Norðurhluti landsins er aðallega hálendi og árósar Rauðár. Fjallið Fansipan (líka skrifað Phan Xi Păng) í héraðinu Lào Cai, er hæsti tindur Víetnams, 3.143 metrar á hæð.[30] Undan strönd Víetnams eru margar eyjar. Sú stærsta er Phú Quốc.[31] Hellirinn Hang Sơn Đoòng er með stærstu náttúrulegu hellum heims. Hann uppgötvaðist árið 2009. Stærsta stöðuvatn Víetnams er Ba Bể-vatn, en lengsta áin er Mekong.[32]

Efnahagur[breyta | breyta frumkóða]

Sjávarútvegur[breyta | breyta frumkóða]

Strandlengja Víetnams er 3260 km og skiptist veiðisvæðið í fjóra aðalhluta; við Tonkinflóa (ásamt Kína), Mið-Víetnam, Suðaustur-Víetnam og við Suðvestur-Víetnam (ásamt Kambódíu og Taílandi) sem er hluti af Taílandsflóa. Á þessu svæði eru yfir 80 hafnir sem hafa burði til að taka við vélknúnum bátum sem voru 81 þúsund árið 2003. Þær eru hins vegar misstórar og ekki allar eru fullbúnar fyrir þróaðan sjávarútveg og lendir mikill hluti aflans í staðbundnum bæjar- og þorpsmörkuðum á verulega gamaldags hátt. Vinnslustöðvar rísa þó hratt við hafnirnar og ísunaraðferðum fleygir áfram á vissum stöðum.

Veiðar alveg við ströndina eru mjög mikilvægar fyrir fátækari hlið sjávarútvegsins. Um 30 þúsund óvélknúnir bátar og kanóar starfa þar og um 45 þúsund litlir vélknúnir, en enginn notast við höfn heldur er unnið beint af ströndinni. Helstu veiðarfæri eru net, lína og gildrur.

Floti Víetnam þegar veitt er á grunnsævi aðeins lengra frá ströndum þess samanstendur af um 20 þúsund vélknúnum bátum sem eru nánast allir úr viði. Mest eða um 30% er veitt í botnvörpur, 26% í nætur og 18% í net. Mikilvægustu tegundir Víetnams eru rækja, túnfiskur, smokkfiskur, karfi, skelfiskur og litlar uppsjávartegundir.

Fiskeldi/vatnarækt í Víetnam er einnig mikilvægur hluti fiskframleiðslunnar og eru mikilvægar tegundir meðal annars steinbítstegundir, rækjur/risa rækjur, humar, krabbi, karfi og tilapia. Innanlandsveiðar utan eldis reka svo lestina en ferskvatnsveiðar voru mikilvægar fyrir efnahag landsins áður fyrr. Ofnýting hafði slæm áhrif á þann iðnað, þó að Mekong-áin sé ennþá mikilvægur hluti af fiskframleiðslu í Víetnam.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Lowy Institute (2020). „Asia Power Index 2020 Edition: Vietnam“. Lowy Institute.
  2. Le Dinh Tinh; Hoang Long (2019). „Middle Powers, Joining Together: The Case of Vietnam and Australia“. The Diplomat.
  3. VnExpress. „US delisting of Vietnam as developing nation no big deal - VnExpress International“. VnExpress International – Latest news, business, travel and analysis from Vietnam. Sótt 17. maí 2021.
  4. Pham, Andrew T (2011). „The Returning Diaspora: Analyzing overseas Vietnamese (Viet Kieu) Contributions toward Vietnam's Economic Growth“ (PDF). Working Paper Series No: 1–39.
  5. Dang, Thuy Vo (1. janúar 2005). „The Cultural Work of Anticommunism in the San Diego Vietnamese American Community“. Amerasia Journal. 31 (2): 64–86. doi:10.17953/amer.31.2.t80283284556j378. ISSN 0044-7471. S2CID 146428400.
  6. „Vietnam Corruption Report“. GAN Integrity. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. maí 2021. Sótt 17. maí 2021.
  7. „Overview of corruption and anti-corruption in Vietnam“ (PDF). transparency.org. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 17. maí 2021. Sótt 5. júlí 2021.
  8. „State President targets stronger push against corruption in 2021-25 period“. hanoitimes.vn. Sótt 17. maí 2021.
  9. Woods, L. Shelton (2002). Vietnam: a global studies handbook. bls. 38.
  10. Norman, Jerry; Mei, Tsu-lin (1976). „The Austroasiatics in Ancient South China: Some Lexical Evidence“. Monumenta Serica. 32: 274–301.
  11. Meacham, William (1996). „Defining the Hundred Yue“. Bulletin of the Indo-Pacific Prehistory Association. 15: 93–100.
  12. Knoblock, John; Riegel, Jeffrey (2001). The Annals of Lü Buwei. Stanford University Press.
  13. Lieberman, Victor (2003). Strange Parallels: Integration of the Mainland Southeast Asia in Global Context, c. 800-1830. Volume 1. Cambridge University Press.
  14. Phan, Khoang (1976). Việt sử: xứ đàng trong, 1558–1777. Cuộc nam-tié̂n của dân-tộc Việt-Nam. Nhà Sách Khai Trí. University of Michigan.
  15. Ooi, Keat Gin (2004). Southeast Asia: A Historical Encyclopedia, from Angkor Wat to East Timor.
  16. Tonnesson, Stein; Antlov, Hans (1996). Asian Forms of the Nation. Routledge.
  17. Vu, Tuong (2007). „Newly released documents on the land reform“. Naval Postgraduate School. University of Washington Libraries. Afritað af uppruna á 20. apríl 2011. Sótt 22. júlí 2021.
  18. Nasuchon, Nopparat (2008). „Coastal Management and Community Management in Malaysia, Vietnam, Cambodia and Thailand, with a case study of Thai Fisheries Management“ (PDF). United Nations-Nippon Foundation Fellow Research Presentation. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 10-2-2018. Sótt 10-16-2018.
  19. Protected Areas and Development Partnership (2003). Review of Protected Areas and Development in the Four Countries of the Lower Mekong River Region. ICEM.
  20. Fröhlich, Holger L.; Schreinemachers, Pepijn; Stahr, Karl; Clemens, Gerhard (2013). Sustainable Land Use and Rural Development in Southeast Asia: Innovations and Policies for Mountainous Areas. Springer Science + Business Media. ISBN 978-3-642-33377-4.
  21. Huu Chiem, Nguyen (1993). „Geo-Pedological Study of the Mekong Delta“ (PDF). Southeast Asian Studies. 31 (2). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 10-2-2018. Sótt 10-2-2018.
  22. Minh Hoang, Truong; van Lap, Nguyen; Kim Oanh, Ta Thi; Jiro, Takemura (2016). „The influence of delta formation mechanism on geotechnical property sequence of the late Pleistocene–Holocene sediments in the Mekong River Delta“. Heliyon. 2 (11).
  23. Huu Chiem, Nguyen (1993). „Geo-Pedological Study of the Mekong Delta“ (PDF). Southeast Asian Studies. 31 (2). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 10-2-2018.
  24. Hong Truong, Son; Ye, Qinghue; Stive, Marcel J. F. (2017). „Estuarine Mangrove Squeeze in the Mekong Delta, Vietnam“. Journal of Coastal Research. 33 (4): 747–763.
  25. Vietnamese Waters Zone. „Catches by Taxon in the waters of Viet Nam“. Sea Around Us.
  26. Cosslett, Tuyet L.; Cosslett, Patrick D. (2017). Sustainable Development of Rice and Water Resources in Mainland Southeast Asia and Mekong River Basin. Springer Publishing.
  27. Van De, Nguyen; Douglas, Ian; McMorrow, Julia; Lindley, Sarah (2008). „Erosion and Nutrient Loss on Sloping Land under Intense Cultivation in Southern Vietnam“. Geographical Research. 46 (1): 4–16.
  28. Hong Phuong, Nguyen (2012). „Seismic Hazard Studies in Vietnam“ (PDF). GEM Semi-Annual Meeting – Academia Sinica. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 10-10-2018.
  29. Việt Nam News (2016). „Seismologists predict potential earthquakes“. Việt Nam News.
  30. Vietnam Ministry of Culture, Sports and Tourism (2014). „Conquering the Fansipan“. VIR. Ministry of Culture, Sports and Tourism.
  31. Boobbyer, Claire; Spooner, Andrew (2013). Vietnam, Cambodia & Laos Footprint Handbook. Footprint Travel Guides. ISBN 978-1-907263-64-4.
  32. Cosslett, Tuyet L.; Cosslett, Patrick D. (2013). Water Resources and Food Security in the Vietnam Mekong Delta. Springer Science + Business Media. bls. 13. ISBN 978-3-319-02198-0.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]