Yinchuan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd sem sýnir Yinchuan torg í samnefndri borg í Ningxia héraði í norðurhluta Kína.
Yinchuan torg í samnefndri borg í Ningxia héraði í norðurhluta Kína.
Landakort sem sýnir legu Yinchuan borgar í Ningxia héraði í norðurhluta Kína.
Kort af legu Yinchuan borgar í Ningxia héraði í norðurhluta Kína.
Gervihnattamynd sem sýnir Yinchuan borg búa að hagstæðum skilyrðum fyrir landbúnað.
Gervihnattamynd sem sýnir Yinchuan borg og græn nágrannasvæði.

Yinchuan (kínverska: 银川; rómönskun: Yínchuān) er höfuðborg Ningxia sjálfstjórnarhéraðs í Alþýðulýðveldinu Kína. Borgin er staðsett í norðurhluta Ningxia í suður af Helan-fjöllum sem marka vesturhluta Ordos-hásléttunnar, nálægt vesturenda Kínamúrsins. Yinchuan (þýðir „Silfurá“) er fyrrum höfuðborg Vestur-Xiaveldis (1038–1227). Fram að miðri 20. öld var borgin einkum viðskiptastöð fyrir landbúnaðarafurðir en síðan þá hefur iðnaður byggst þar upp. Hún er miðstöð stjórnmála, mennta og menningar héraðsins. Um fjórðungur borgarbúa eru kínverskir múslimar af Hui þjóðarbrotinu. Borgarbúar eru um 2.4 milljónir.

Staðsetning[breyta | breyta frumkóða]

Yinchuan er staðsett í norðurhluta Ningxia héraðs í suður af Helan-fjöllum sem marka vesturhluta Ordos-hásléttunnar, nálægt vesturenda Kínamúrsins. Yinchuan liggur miðja vegu milli Gulafljóts sem rennur um borgina, og Helan-fjalla sem veita skjól frá eyðimörkum Mongólíu. Hún er í um 1.100 metrum yfir sjávarmáli og nær yfir 8.900 ferkílómetra landsvæði í fallegrar náttúru og hagstæðum skilyrðum fyrir landbúnað.

Yinchuan borg í Ningxia héraði í Kína.
„Trommuturninn“ í Yinchuan borg.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Yinchuan var upphaflega sýsla undir nafninu Lian (Fuping) árið 119 f.Kr. en nafni hennar var breytt í Huaiyuan á 6. öld e.Kr. Eftir fall Tangveldisins árið 907 var borgin hernumin af Tangut þjóðinni (ættuð frá Tíbet og Mjanmar) á 10. öld. Þeir stofnuðu síðar Vestur Xiaveldið (1038–1227) og gerðu Xingqing (nú Yinchuan) að höfuðborg þess. Mongólar nefndu borgina Iryai. Þeir rændu borgina og slátruðu íbúum hennar. Sjálfur Djengis Khan lést í orustu við borgina árið 1227.

Eftir að Mongólaveldið lagði undir sig Vestur Xiaveldið árið 1227 fór borgin undir stjórn hisn mongólska Júanveldisins. Á tímum Mingveldisins (1368–1644) og Tjingveldisins (1644–1911) var borgin höfuðstaður Ningxia svæðis.

Árið 1929, þegar héraðið Ningxia var formlega stofnað úr hlutum Gansu og Innri Mongólíu, varð það Yinchuan höfuðborg þess. Þegar Ningxia hérað var lagt niður árið 1954, var borginni komið fyrir í Gansu héraði; en með stofnun sjálfstjórnarhéraðsins Hui þjóðarbrotsins í Ningxia árið 1958, varð Yinchuan aftur höfuðborg.

Efnahagur[breyta | breyta frumkóða]

Fram að miðri 20. öld var borgin einkum viðskiptastöð fyrir landbúnaðarafurðir en síðan þá hefur iðnaður byggst þar upp. Á fimmta áratug síðustu aldar voru fyrirtæki sem unnu að handverki en þar var engin nútíma iðnaður. Tekin var ákvörðun um að flytja verksmiðjur frá strandhéruðum í austur Kína til Yinchuan borgar. Það ýtti undi þróun vélsmíðaiðnaðar.

Miklar kolaútfellingar sem fundust í námum nálægt Shizuishan borg, um 100 km norður af höfuðborginni, ýttu mjög undir uppbyggingu efnaiðnaðar og varmaaflsvirkjana í Yinchuan. Framleiðsla byggingarefna varð einnig mikilvæg í borginni.

Sléttusvæðið í kringum Yinchuan borg býr hagstæð skilyrði fyrir landbúnað. Það byggir ekki síst á afkastamiklum áveitukerfum sem byggð voru fyrst á tímum Hanveldisins (206 f.Kr. - 220 e.Kr.) og Tangveldisins (618–907).

Yinchuan er helsti markaður og dreifingarmiðstöð fyrir landbúnaðarafurðir svæðisins. Þar er markaður fyrir korn, mjölverksmiðjur, hrísgrjónavinnsla og olíupressun úr landbúnaðarafurðum. Ullin sem framleidd á sléttunum skapar textíliðnað. Aðrar búgreinar eru meðal annar sykurhreinsun, hörspun og sútun.

Mynd sem sýnir aðaljárnbrautarstöð Yinchuan borgar í Kína.
Aðaljárnbrautarstöð Yinchuan borgar.

Samgöngur[breyta | breyta frumkóða]

Í aldir hefur Gulafljót verið ein helsta samgönguæð borgarinnar enda rennur fljótið í gegnum borgina. Siglingar hafa verið mögulegar norðaustur til Innri Mongólíu og til norðurhluta Ningxia héraðs.

Eftir miðja síðustu öld hafa verið lagðir þjóðvegir til Baotou, Lanzhou og Wuwei í Gansu og til Xian í Shaanxi héraði. Þá hafa járnbrautir verið lagðar frá Lanzhou til Baotou og borgin þannig tengd öðrum landshlutum Kína með járnbrautum.

Yinchuan Hedong alþjóðaflugvöllurinn, sem er 25 kílómetra af borginni, býður upp á reglulegt flug til stórborga í Kína. Árið 2019 fóru um flugvöllinn um 10.6 milljón farþegar. Þá er millilandaflug að byggjast upp, meðal annars til Dúbaí og fleiri borga.

Mynd sem sýnir mosku múslima í Yinchuan borg, Kína.
Moska múslima í Yinchuan borg.

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Flestir borgarbúar eru Han kínverjar (um 73 prósent árið 2019) Borgin er talin miðstöð fyrir Hui þjóðarbrotið, kínverskra múslima, sem eru um fjórðungur borgarbúa og hefur þannig mikil menningarleg og efnahagsleg tengsl við íslömsk lönd. Borgin er fastur staður fyrir China-Arab Expo sem er alþjóðlegur vettvangur fyrir menningarleg og efnahagsleg skoðanaskipti milli Kína og Arabalanda.

Ýmsar rannsóknar- og háskólastofnanir eru í borginni. Stærsti háskólinn í Ningxia héraði, Ningxia háskólinn (stofnaður sem háskóli 1962), er í borginni. Hann er talinn til lykilháskóla Kína.


Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]