Walhalla
Walhalla er þekktasta frægðarhöll Þýskalands og stendur við borgina Regensburg í Bæjaralandi. Þar hefur verið komið fyrir brjóstmyndum og minnistöflum til heiðurs þýskumælandi afreksfólki.
Saga Walhalla
[breyta | breyta frumkóða]Það var Lúðvík I, krónprins Bæjaralands, sem fékk hugmyndina að því að reisa frægðarhöll fyrir Þjóðverja (fólk þýskrar tungu) árið 1807. Bæjaraland var þá nýorðið að konungsríki. Lúðvík þótti miður að Þýsk-rómverska ríkið skyldi nú vera úr sögunni og hversu mikil áhrif Napoleons voru orðin í þýsku löndunum. Hann tók saman lista yfir 50 nafntogaða einstaklinga sem þóttu hafa skarað framúr og lét gera brjóstmyndir af þeim. Bygging frægðarhallarinnar dróst þó um nokkra áratugi. Árið 1823 var Lúðvík krýndur konungur og komst þá hreyfing á málið. Í samráði við byggingameistarann Leo von Klenze varð hæð ein við Regensburg fyrir valinu. Framkvæmdir hófust 1830 og var frægðarhöllin vígð af Lúðvík sjálfum 1842. Hún er í formi grísks musteris, 20 metra há og 66 metra löng. Stallurinn er 125 metrar að lengd. Það var von Klenze sem lagði til nafnið Walhalla og byggingin heitir þannig eftir Valhöll, bústað Óðins í norrænni goðafræði.
Þekktir einstaklingar
[breyta | breyta frumkóða]Við opnun frægðarhallarinnar voru 96 brjóstmyndir komnar upp, en þær urðu fljótlega 160. Í dag eru 192 Þjóðverjar heiðraðir í henni, ýmist með brjóstmynd eða minnistöflu. Meðal þeirra má nefna (í stafrófsröð) Konrad Adenauer, Johann Sebastian Bach, Ludwig van Beethoven, Otto von Bismarck, Albrecht Dürer, Albert Einstein, Friðrik Barbarossa keisara, Jakob Fugger, Johann Gutenberg, Goethe, Georg Friedrich Händel, Joseph Haydn, Immanuel Kant, Karl V. keisara, Johannes Kepler, Nikolaus Kópernikus, Martein Lúther, Wolfgang Amadeus Mozart, Wilhelm Conrad Röntgen, Peter Paul Rubens, Franz Schubert, Richard Wagner, Albrecht von Wallenstein og marga fleiri.
Konur
[breyta | breyta frumkóða]Meðal þeirra sem heiðruð eru í Walhalla eru aðeins 12 konur, þeirra þekktastar e.t.v. Amalía greifynja af Hessen-Kassel, nunnan og heimspekingurinn Edith Stein, nunnan Karolina Gerhardinger, Katrín II keisaraynja af Rússlandi (þýsk að uppruna), María Teresa keisaraynja í Austurríki og Sophie Scholl, andspyrnukona gegn nasisma.