Albrecht Dürer
Albrecht Dürer (21. maí 1471 – 6. apríl 1528) var þýskur listmálari, stærðfræðingur, prentari og gríðarlega afkastamikill myndskeri. Hann er talinn einn af helstu forvígismönnum þýsku endurreisnarinnar og átti í samskiptum við helstu endurreisnarlistamenn sinnar tíðar, eins og Rafael, Giovanni Bellini og Leonardo da Vinci. Maximilían 1. keisari gerðist stuðningsmaður hans árið 1512.
Dürer fæddist og dó í Nürnberg. Prentmyndir hans koma oft fyrir sem myndraðir. Hann lærði gullsmíði af föður sínum en reyndist svo drátthagur að hann var tekinn í læri hjá málaranum og prentmyndasmiðnum Michael Wolgemut fimmtán ára gamall. Eftir að námssamningi hans lauk gerðist hann förusveinn í eitt ár, líkt og tíðkaðist hjá þýskum iðnaðarmönnum, og ferðaðist um Þýskaland og til Sviss og Hollands. 1494 hélt hann í stutta ferð til Feneyja á Ítalíu þar sem verk meistara Endurreisnarinnar höfðu mikil áhrif á hann. Hann opnaði eigið verkstæði þegar hann sneri aftur til Nürnberg.
Dürer fékkst við olíumálverk, vatnsliti og teikningar, en er þekktastur fyrir tréristur sínar sem var eftirlætistækni hans á síðari árum. Þær eru undir meiri áhrifum frá gotneskum stíl en önnur verk hans. Meðal þekktustu trérista Dürers má nefna Riddari, Dauðinn og Djöfullinn (1513), Heilagur Híerónýmus á skrifstofu sinni (1514) og Melencolia I (1514). Einkennandi fyrir vatnslitamyndir hans eru fínlegar náttúrulífsmyndir og landslagsmyndir.
Dürer var einn mikilvægasti listamaður norrænu endurreisnarinnar á 15. og 16. öld. Hann var vel að sér í list ítölsku meistaranna og ritum húmanista og skrifaði fræðirit um fjarvídd, hlutföll mannslíkamans, mælingar og verkfræði.