Fara í innihald

Við Djúpið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Miðnætursól á fjallatoppum umhverfis Ísafjörð.

Tónlistarhátíðin Við Djúpið er árleg kammertónlistarhátíð og sumarnámskeið fyrir tónlistarnemendur á Ísafirði og nágrenni. Hún var fyrst haldin sumarið 2003 og var stofnuð af Guðrúnu Birgisdóttur, flautuleikara, og Pétri Jónassyni, gítarleikara. Hátíðin hefur samanstaðið frá upphafi af sumarnámskeiðum fyrir lengra komna tónlistarnemendur og tónleikahaldi. Þungamiðja tónlistarhátíðarinnar er á Ísafirði en tónleikahald var áður líka í Bolungarvík, Flateyri, Súðavík og víðar. Lengst af hefur Greipur Gíslason verið í forsvari hátíðarinnar, fyrst ásamt Tinnu Þorsteinsdóttur, píanóleikara, og síðar Danýju Arnalds, píanóleikara og -kennara, organista og kórstjóra. Síðan 2023 hefur Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsóttir, söngkennari og kórstjóri tekið við ásamt Greipi.

Hátíðin og dagskrá hennar hefur vakið athygli um árabil og námskeiðin voru eftirsótt. Rás 1 hljóðritaði marga tónleika hátíðarinnar og sendi einnig út beint.[1]

Fyrstu árin (2003–5)

[breyta | breyta frumkóða]
Skólabygging Tónlistarskóla Ísafjarðar, áður Húsmæðraskólinn Ósk. Stórt steinsteypt hús á 3 hæðum.
Tónlistarskóli Ísafjarðar við Austurveg.

Í kjölfar fjárveitingar úr Menningarborgarsjóði og smá umhugsun stóðu Guðrún Birgisdóttir og Pétur Jónasson fyrst fyrir tónlistarhátíð við Djúpið. Þau vildu leggja áherslu á gott samstarf við heimamenn og stofnuð til samtals við tónlistarskólana á Ísafirði og í Bolungarvík og Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar. Þau lögðu líka áherslu á að tengjast náttúrunni, efna til gönguferða og fleira. Auk Guðrúnar og Péturs komu Martial Nardeau, Ólafur Kjartan Sigurðsson og heiðursgesturinn Jónas Ingimundarson fram á fyrstu hátíðinni auk þess að kenna á námskeiðunum.[2]

Árið eftir var talið í 2. tónlistarhátíðina Við Djúpið. Guðrún og Pétur í fararbroddi en nú með Jóhönnu Linnet, Árna Heiðari Karlssyni og Halldóri Haraldssyni sem var heiðursgestur.[3]

Það dróg til tíðinda í sögu hátíðarinnar árið 2005 þegar hún var færð framar í júní en áður og þannig vera í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík. Fram að því hafði hátíðin verið haldin í kringum sumarsólstöður.

Árið 2006 höfðu heimamenn á Ísafirði milligöngu um að fá Tinnu Þorsteinsdóttur, píanóleikara til liðs við hátíðina sem listrænan stjórnanda í kjölfar þess að frumkvöðlarnir Guðrún og Pétur sögðu skilið við verkefnið. Greipur Gíslason var svo fenginn til að starfa við hlið Tinnu sem framkvæmdastjóri.

Fyrsta ár þeirra við stjórnvölin var hátíðin mjög hefðbundin. Guðrún Birgisdóttir mætti til leiks og kenndi á flautu, Sigrún Hjálmtýsdóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir kenndu söng og Peter Máté kenndi á píanó. Öll komu þau fram á tónlekum á hátíðinni auk Tinnu sjálfrar og tríósins Flís. Með þáttöku þeirra má segja að sleginn hafi verið nýr tónn í skipulagningu hátíðarinnar.[4]

Öðruvísi tónlist og hádegistónleikar 2007

[breyta | breyta frumkóða]

5. tónlistarhátíðin Við Djúpið, 2007, sker sig úr meðal hátíðanna fram að því. Breidd tónlistarinnar er meiri og boðið upp á fjölbreyttari námskeið. Evan Ziporyn frá Bandaríkjunum kenndi Gamelan-tónlist ásamt konu sinni Christine Southworth. Þau stöldruðu svo við í Reykjavík á heimleið og héldu einnig tónleika þar. Davíð Þór Jónsson kenndi spunapíanóleik á vinsælu námskeiði og hélt eftirminnilega tónleika.

Við Djúpið og Háskólasetur Vestfjarða efna sumarið 2007 í fyrsta sinn til hádegistónleikaraðar. Tónleikarnir voru haldnir í nýbyggðu anddyri Grunnskólans á Ísafirði við Aðalstræti. Þar komu fram fyrsta árið Davíð Þór annarsvegar og ATON hinsvegar. Hádegistónleikarnir voru eftir þetta fastur liður í dagskrá hátíðarinnar, allt fram á síðasta ár hennar. Oftast í grunnskólanum en einnig í Ísafjarðarkirkju og árið 2008 alfarið í Bryggjusal Edinborgarhússins.

Á hátíðinni léku og kenndu einnig Erling Blöndal Bengtsson, sellóleikari og píanóleikarinn Vovka Stefán Ashkenazy. Stærri hluti hátíðarinnar fór nú fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði en áður þó svo að Tónlistarskóli Ísafjarðar hafi verið þungamiðjan sem fyrir. Til stóð að danska tónskáldið Simon Steen-Andersen yrði með tónskáldasmiðju á hátíðinni en hann forfallaðist. Íslenski samtímatónlistarhópurinn Aton kom einnig fram.

Í fyrsta sinn sendi Rás 1 beint frá tónleikum á hátíðinni en á þeim komu allir listamenn hennar fram. [5]

Norrænir risar 2008

[breyta | breyta frumkóða]

Tveir norrænir listamenn sóttu hátíðina heim árið 2008. Finnski fiðluleikarinn Pekka Kuusisto lék á opnunartónleikum 17. júní ásamt Simon Crawford-Philips frá Englandi og einn aðalkennari hátíðarinnar það ár var norski píanóleikarinn Håkon Austbø. Ætla má að með komu Evans Ziporyns og Erlings Blöndal Bengtsonar árið áður og þeirra Pekka og Håkons 2008 hafi hátíðin endanlega skipað sér í fremstu röð tónlistarhátíða Íslands.[6]

Auk Austbø kenndu Una Sveinbjarnardóttir á fiðlu og Hanna Dóra Sturludóttir söng. Með Hönnu Dóru var Kurt Kopecky. Að auki kenndi Agnar Már Magnússon á vinæslu spunapíanónámskeiði og fylgdi þannig í fótspor Davíðs Þórs frá árinu áður.[7]

Á tónleikadagskrá hátíðarinnar voru fernir hádegistónleikar í Bryggjusal Edinborgarhússins. Á einum þeirra Lék Anna Guðný Guðmundsdóttir kafla úr 20 tillit til Jesúbarnsins eftir Olivier Messiaen í fyrsta sinn.[8][9] Hún átti síðar eftir að hljóta Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlstarflytjandi ársins fyrir flutning sinn á öllu verkinu.[10]

Ný ásýnd

[breyta | breyta frumkóða]
Sýnishorn af kynningarefni hátíðarinnar 2007 eftir Gunnar Vilhjálmsson grafískan hönnuð.

Árið 2007 kvað við nýjan tón í grafísku útliti hátíðarinnar. Aðstandendur Við Djúpið fengu Vinnustofu Atla Hilmarssonar til að gera kynningarefni fyrir hátíðina um sumarið. Gunnar Vilhjálmsson lagði til letur en fleiri hönnuðir á vinnustofunni komu að hönnun efnisins. Þetta samstarf hélt áfram 2008 þegar aðalmynd kynningarefnisins var af bifhárum í innra eyra mannsins. Útlitið tók svo nýja stefnu 2009 þegar Gunnar Vilhjálmsson tók yfir listræna stjórn útlits hátíðarinnar og kynnti til leiks notkun siglingafána sem áttu eftir að verða einkenni tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið til enda.

Bæklingur og boðskort, hluti kynningarefnis tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið 2010. Heildarútlitið, hannað af Gunnari Vilhjálmssyni, hlaut aðalverðlaun FÍT, Félags íslenskra teiknara.

Önnur útgáfa útlitsins, fyrir hátíðina 2010, hlaut aðalverðlaun Félags íslenskra teiknara á verðlaunahátíð þeirra í mars 2011. Heildarútlitið hlaut líka verðlaun í flokknum Mörkun ársins og veggspjald hátíðarinnar verðlaun í veggspjaldaflokk.[11]

Ris og fall (2009–2013)

[breyta | breyta frumkóða]

Blómaskeið tónlistarhátíðarinnar er án efa árin 2007–2012. Dagný Arnalds tók við listrænni stjórn af Tinnu Þorsteinsdóttur eftir hátíðina 2008. Samstarfið við ameríska kammerhópinn ACJW, síðar Declassified / Decoda hafði mikið að segja um gæði dagskrárinnar og samfellu. Þar skipti sköpum aðstoð og áhugi sellóleikarans Sæunnar Þorsteinsdóttur en hún var fastur gestur á hátíðinni frá 2011. Fjárstuðningur bandariskra stjórnvalda með fulltingi sendiráðs þeirra í Reykjavík tryggði það samstarf. Góð dagskrá og áhugaverðir tónleikar auk tónskáldavinnustofunnar gerði hátíðina einnig áhugaverða til upptöku og útsendinga á Rás 1 sem jók orðspor Við Djúpið á Íslandi.

Kammersveitin Ísafold að afloknum tónleikum í Ísafjarðarkirkju á hátíðinni 2009. Þar frumflutti hún 3 verk eftir ný tónskáld sem sóttu tónskáldasmiðju hátíðarinnar. Daníel Bjarnason, hljómsveitarstjóri, er lengst til vinstri.

Ný tónskáld

[breyta | breyta frumkóða]
Hljóðfæraleikarar æfa nýtt tónverk á í skólastofu.
Úr vinnustofu nýrra tónskálda 2011. Ensamble ACJW æfa verk Halldórs Smárasonar undir handleiðslu Daníels Bjarnasonar.

Árið 2009 stóð hátíðin í fyrsta sinn, í samstarfi við Rás 1 og Kammarsveitina Ísafold fyrir tónskáldakeppni og vinnustofu. Þremur tónskáldum var boðið að semja stutt hljómsveitarverk fyrir kammersveitina og fá það flutt á hátíðinni. Samhliða æfingum bauðst tónskáldinum að vinna náið með hljóðfæraleikurum Ísafoldar, hljómsveitarstjóranum Daníel Bjarnasyni og leiðbeinanda vinnustofunnar, tónskáldinu Bent Sørensen. Árið eftir stóð þremur tónskáldum til boða að semja verk fyrir blásarakvintett skipuðum hljóðfæraleikurum úr Nordic Chamber Soloists. Daníel Bjarnason tók þá við handleiðslu vinnustofunnar og gerði árin á eftir. 2011 hófst samstarf við hljóðfærahóp tengdum Carnegie Hall í Bandaríkjunum sem hélt áfram árin á eftir (fyrst Ensamble ACJW, næst The Declassified og svo Decoda).[12]

Eyrarrósin

[breyta | breyta frumkóða]

Tónlistarhátíðin Við Djúpið var tilnefnd til Eyrarrósarinnar 2012 sem framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Fulltrúar hátíðarinnar voru viðstödd afhendingu viðurkenningarinnar á Bessastöðum í febrúar 2012. Safnasafnið á Svalbarðsströnd hlaut Eyrarrósina það ár. Skjal til staðfestingar tilnefningunni hangir í Tónlistarskóla Ísafjarðar við Austurveg á Ísafirði.

Vegleg afmælishátíð 2012

[breyta | breyta frumkóða]

10. árlega tónlistarhátíðin Við Djúpið fór fram 19.–24. júní 2012. Segja má að á afmælishátíðinni allir þættir hátíðarinnar, nýir og þeir sem höfðu verið hornsteinar frá upphafi, náð einhverskonar hápunkti. Glæsilegt námskeiðshald með fjölda nemenda, framúrskarandi tónleikum, hádegistónleikum, síðkvöldstónleikaröð og tónskáldastofu. Erlendir og innlendir listamenn og fjöldi áheyrenda. Aðalkennararnir voru bandaríski fiðluleikarinnar Jorja Fleezanis, flautuleikarinn Stefán Ragnar Höskuldsson og góðvinur hátíðarinnar Vovka Ashkenazy kenndi á píanó. Daníel Bjarnason leiddi tónskáldastofu með kvintett úr The Declassified / Decoda og ný síðkvöldstónleikaröð, Söngvaskáldin, hóf göngu sína á Húsinu við Hafnarstræti á Ísafirði.

Aukin velgengni og athygli virtist ekki gera auðveldara að afla fjár fyrir hátíðina. Engin leið var að gera samninga til lengri tíma en árs í senn og náðu endar því ekki saman, þrátt fyrir aukningu í aðsókn.

Síðasta árlega hátíðin 2013

[breyta | breyta frumkóða]

Dagana 19.– 23. júní 2013 fór síðasta árlega tónlistarhátíðin Við Djúpið fram á Ísafirði. Þá hafði Dagný Arnalds sagt skilið við aðstendandateymið og Greipur Gíslason einn eftir. Fáir nemendur sóttu hátíðina en framboð sumarnámskeiða hafði aukist á Íslandi, meðal annars í Reykjavík, sem dróg úr aðsókninni. Hátíðin var þó frambærileg með tónskáldastofu þátttöku Decoda frá Bandaríkjunum. Efnt var öðru sinni til síðkvöldstónleikaraðar á Húsinu á Ísafirði. Þar komu fram Valdimar Olgeirsson, Hjalti Þorkelsson , Skúli Mennski og Sigríður Thorlacius. Þrennir hádegistónleikar í Grunnskóla Ísafjarðar voru í boði í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða.

Það fór vel á því að lokatónleikar síðustu hátíðarinnar væri tileinkaðir minningu sellóleikarans og Ísfirðingsins Erlings Blöndal Bengtssonar en hann lést nokkrum vikum áður. Á tónleikunum í Ísafjarðarkirkju lék breski organistinn James McVinnie meðal annars tónlist J.S. Bachs en tónlist hans var Erlingi hugleikin.[13]

Sérstök útgáfa 2015

[breyta | breyta frumkóða]
Hljómsveit yngri nemenda við New England Conservatory æfir í íþróttahúsinu á Torfnesi, Ísafirði fyrir tónleika á Við Djúpið 23. júní 2015.

Dagana 23.–25. júní 2015 komu góðir gestir til Ísafjarðar. Eftir áralangt samstarf hátíðarinnar við sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi var komið á samband við New England Conservatory í Boston og skólahljómsveit þaðan, Youth Philharmonic Orchestra, kom til Íslands þetta sumar. Hljómsveitin hélt tónleika í íþróttahúsinu á Torfnesi. Einleikari á tónleikunum var Ari Vilhjálmsson, fyrrum nemandi við skólann. auk þess sem minni hópar buðu upp á ókeypis hádegistónleika í Grunnskólanum á Ísafirði. Nemendur úr skólahljómsveitinni gisti á ísfirskum heimilum og nutu aðstöðu í Menntaskólanum á Ísafirði.[14]

Við Djúpið hefur sig til flugs á ný (2022)

[breyta | breyta frumkóða]

Vorið 2022 var tilkynnt um upprisu hátíðarinnar þegar efnt var til lítillar tónlistarhátíðar dagana 17.–19. júní. Tveir kennarar buðu upp á námskeið og fernir tónleikar voru á dagskrá hátíðarinnar. Kennararnir voru Sæunn Þorsteínsdóttir, sellóleikari, sem hafði verið haukur horni í hátíðarinnar á árum áður og James Laing, kontratenór, frá Englandi. Hvort um sig komu fram á einleikstónleikum auk þess sem píanóleikarinn Erna Vala Arnardóttir kom fram á einleikstónleikum. Hátín var sett með útitónleikum á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn.

Að skipulagningu hátíðarinnar kom sem fyrr Greipur Gíslason og nú annar Ísfirðingur, Pétur Ernir Svavarsson.

Tríó skipað flautuleikara, píanóleikara og sellóleikara á tónleikasviði á Ísafirði.
Tríó skipað meðlimum Decoda frá New York leikur á lokahátíð tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið 2023. Catherine Gregory á flautu, David Kaplan á píanó og Sæunn Þorsteinsdóttir á selló.

2023: Við Djúpið sýnir styrk sinn

[breyta | breyta frumkóða]

Dagana 17.–21. júní 2023 fór hátíðin á ný fram á Ísafirði. Aðalkennarar voru meðlimir kammerhópsins Decoda frá New York í Bandaríkjunum; David Kaplan á píanó, Catherine Gregory á flautu og Sæunn Þorsteinsdóttir á selló. Lögð var áhersla á kennslu í kammertónlist en einnig boðið upp á masterclassa á hlóðfæri sem og einkatíma. Tónleikar voru haldnir öll kvöld hátíðarinnar við góðar undirtektir sem á hádegistónleikar hennar sem fram fóru í Edinborgarhúsinu.

Að skipulagningu að þessu sinni auk Greips Gíslasonar kom Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, söngkona, kórstjóri og tónlistarkennari.[15]

Listamenn og kennarar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Anna Guðný Guðmundsdóttir Fáni Íslands 2006, 2008, 2010, 2012.
  • Andrew Quartermain Fáni Bretlands
  • Árni Heimir Ingólfsson Fáni Íslands 2010.
  • Bent Sørensen Fáni Danmerkur 2009.
  • Berglind María Tómasdótir Fáni Íslands 2008.
  • Catherine Gregory Fáni Bandaríkjana Fáni Ástralíu 2023.
  • Christine Southworth Fáni Bandaríkjana 2007.
  • Daníel Bjarnason Fáni Íslands 2009–2013.
  • David Kaplan Fáni Bandaríkjana 2023.
  • Ellis Ludwig-Leone Fáni Bandaríkjana 2023, 2024.
  • Eliza Bagg Fáni Bandaríkjana 2024.
  • Elizabeth Roe Fáni Bandaríkjana 2013.
  • Erna Vala Arnardóttir Fáni Íslands 2022.
  • Erling Blöndal Bengtsson Fáni Íslands Fáni Danmerkur 2007
  • Evan Ziporyn Fáni Bandaríkjana 2007.
  • Goran Stevanovich Fáni Bosníu og Hersegóvínu 2024.
  • Guðrún Sigríður Birgisdóttir Fáni Íslands 2003–2006.
  • Halldór Haraldsson Fáni Íslands
  • Halldór Smárason Fáni Íslands 2023, 2024.
  • Hanna Dóra Sturludóttir Fáni Íslands 2008.
  • Håkon Austbø Fáni Noregs 2008.
  • Herdís Anna Jónasdóttir Fáni Íslands 2024.
  • James Laing Fáni Bretlands 2022.
  • James McVinnie Fáni Bretlands 2012, 2013.
  • Jorja Fleezanis Fáni Bandaríkjana 2010.
  • Jónas Ingimundarson Fáni Íslands
  • Kurt Kopecky Fáni Austurríkis 2005.
  • Kurt Nikkanen Fáni Finnlands
  • Meena Bhasin Fáni Bandaríkjana 2011–2013.
  • Owen Dalby Fáni Bandaríkjana 2011–2013.
  • Ólafur Kjartan Sigurðsson Fáni Íslands 2003.
  • Pekka Kuusisto Fáni Finnlands 2008.
  • Pétur Jónasson Fáni Íslands 2003–5, 2009.
  • Sif Tulinius Fáni Íslands 2010.
  • Simon Crawford Philips Fáni Bretlands 2008.
  • Stefán Ragnar Höskuldsson Fáni Íslands 2010.
  • Sæunn Þorsteinsdóttir Fáni Íslands Fáni Bandaríkjana 2009, 2011–2013, 2022, 2023, 2024.
  • Tinna Þorsteinsdóttir Fáni Íslands 2006–2008.
  • Una Sveinbjarnardóttir Fáni Íslands 2008, 2009.
  • Vovka Stefán Ashkenazy Fáni Íslands 2007, 2010.

Tónlistarhópar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Pasifica-kvartettinn Fáni Bandaríkjana 2005.
  • Flís tríó Fáni Íslands 2006.
  • ATON Fáni Íslands 2007.
  • Kammersveitin Ísafold Fáni Íslands 2009.
  • Nordic Chamber Soloists Fáni Íslands Fáni Noregs Fáni Svíþjóðar Fáni Þýskalands 2010.
  • Ensemble Connect (ACJW) Fáni Bandaríkjana 2011.
  • Dúó Harpverk Fáni Íslands 2011.
  • Decoda Fáni Bandaríkjana 2012, 2013, 2023.
  • Asteío-tríó Kanada 2023.
  • Orchester im Treppenhaus Fáni Þýskalands 2024.
  • Antigone Music Collective Fáni Bandaríkjana 2024.

Helstu samstarfsaðilar

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Rás 1 við Djúpið í beinni“. ANNIT.IS. 23. júní 2007. Sótt 16. mars 2021.[óvirkur tengill]
  2. „Morgunblaðið - 175. tölublað (01.07.2003) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 15. mars 2021.
  3. „Fréttablaðið - 149. tölublað (03.06.2004) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 15. mars 2021.
  4. „Fréttablaðið - 162. tölublað (19.06.2006) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 15. mars 2021.
  5. „Morgunblaðið - 162. tölublað (16.06.2007) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 15. mars 2021.
  6. „Morgunblaðið - 29. tölublað (30.01.2008) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 16. mars 2021.
  7. „Morgunblaðið - 161. tölublað (14.06.2008) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 16. mars 2021.
  8. „Morgunblaðið - 161. tölublað (14.06.2008) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 16. september 2022.
  9. „Lesbók Morgunblaðsins - 06. september (06.09.2008) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 16. september 2022.
  10. „Íslensku tónlistarverðlaunin“. Samtónn.
  11. „Morgunblaðið - 70. tölublað (24.03.2011) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 15. mars 2021.
  12. Morgunblaðið, 22. janúar 2011, bls. 46.
  13. „Meistara minnst Við Djúpið“. www.mbl.is. Sótt 16. mars 2021.
  14. „Fréttablaðið - 149. tölublað (27.06.2015) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 15. júní 2022.
  15. Heimildin, 14. júlí 2023