Sigrún Hjálmtýsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigrún Hjálmtýsdóttir (f. 8. ágúst 1955), einnig þekkt sem Diddú, er íslensk óperusöngkona og söngkennari. Hún hefur farið með hlutverk í fjölda uppsetninga Íslensku óperunnar og einnig leikið og sungið í kvikmyndum.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Diddú er fædd í Reykjavík og alin upp í Vesturbænum. Foreldrar hennar voru hjónin Margrét Matthíasdóttir (1936-1995) ritari og söngkona og Hjálmtýr Edward Hjálmtýsson (1933-2002) bankafulltrúi og söngvari. Diddú er næst elst sjö systkina en yngstur í systkinahópnum er söngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson. Maki Diddúar er Þorkell Jóelsson hornleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og eiga þau þrjár dætur.[1]

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Diddú stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972-1974 og var nemandi í leiklistarskólum SÁL og Leiklistarskóla Íslands frá 1974-1975. Hún lauk ASGM-gráðu í einsöng og kennslufræðum frá Guildhall School of Music and Drama í London árið 1984 og sótti einkatíma í söng á Ítalíu 1987-1988.[1]

Söngferill[breyta | breyta frumkóða]

Söng með Spilverki þjóðanna 1975-1978, m.a. á sjö hljómplötum og í leikritinu Grænjaxlar í Þjóðleikhúsinu. Hún hefur sungið fjölmörg hlutverk hjá Íslensku óperunni, m.a. í Carmina Burana, hlutverk Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós, Gildu í Rigoletto, Næturdrottninguna og Papagenu í Töfraflautunni, Luciu í Lucia di Lammermoor, Violettu í La traviata, Adinu í Ástardrykknum og Rósalindu í Leðurblökunni. Hún söng í Niflungahringnum og Olympiu í Ævintýrum Hoffmanns og árið 1992 söng hún hlutverk Gildu í Rigoletto við óperuna í Gautaborg. Diddú hefur leikið og sungið í sjónvarpsleikritum, s.s. Brekkukotsannál og fór með hlutverk Lóu í Silfurtunglinu árið 1978, lék í kvikmyndunum Karlakórnum Heklu og Bíódögum og söng titillag kvikmyndarinnar Stella í orlofi. Hún hefur sungið inn á fjölda geisladiska og komið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sungið með fjölda kóra bæði kirkjuleg og veraldleg verk. Diddú hefur einnig komið fram á fjölmörgum tónleikum og öðrum tónlistarviðburðum víða erlendis.

Árið 2001 söng Diddú ásamt José Carreras á tónleikum í Laugardagshöll og árið 2005 söng hún með Placido Domingo á tónleikum í Egilshöll.[2]

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Diddú hefur hlotið fjölda viðurkenninga á ferli sínum. Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1995, Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir hlutverk Næturdrottningarinnar í Töfraflautunni, fyrstu óperusýningunni í Hörpu árið 2011 og heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2020.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn J-Ö, bls. 713-714, (Reykjavík, 2003)
  2. Ismus.is, „Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú)“, skoðað 11. mars 2020