Sigrún Hjálmtýsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Sigrún Hjálmtýsdóttir (f. 8. ágúst 1955), einnig þekkt sem Diddú, er íslensk óperusöngkona og söngkennari. Hún hefur farið með hlutverk í fjölda uppsetninga Íslensku óperunnar og einnig leikið og sungið í kvikmyndum.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Diddú er fædd í Reykjavík og alin upp í Vesturbænum. Foreldrar hennar voru hjónin Margrét Matthíasdóttir (1936-1995) ritari og söngkona og Hjámtýr Edward Hjálmtýsson (1933-2002) bankafulltrúi og söngvari. Diddú er næst elst sjö systkina en yngstur í systkinahópnum er söngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson. Maki Diddúar er Þorkell Jóelsson hornleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og eiga þau þrjár dætur.[1]

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Diddú stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972-1974 og var nemandi í leiklistarskólum SÁL og Leiklistarskóla Íslands frá 1974-1975. Hún lauk ASGM-gráðu í einsöng og kennslufræðum frá Guildhall School of Music and Drama í London árið 1984 og sótti einkatíma í söng á Ítalíu 1987-1988.[1]

Söngferill[breyta | breyta frumkóða]

Söng með Spilverki þjóðanna 1975-1978, m.a. á sjö hljómplötum og í leikritinu Grænjaxlar í Þjóðleikhúsinu. Hún hefur sungið fjölmörg hlutverk hjá Íslensku óperunni, m.a. í Carmina Burana, hlutverk Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós, Gildu í Rigoletto, Næturdrottninguna og Papagenu í Töfraflautunni, Luciu í Lucia di Lammermoor, Violettu í La traviata, Adinu í Ástardrykknum og Rósalindu í Leðurblökunni. Hún söng í Niflungahringnum og Olympiu í Ævintýrum Hoffmanns og árið 1992 söng hún hlutverk Gildu í Rigoletto við óperuna í Gautaborg. Diddú hefur leikið og sungið í sjónvarpsleikritum, s.s. Brekkukotsannál og fór með hlutverk Lóu í Silfurtunglinu árið 1978, lék í kvikmyndunum Karlakórnum Heklu og Bíódögum og söng titillag kvikmyndarinnar Stella í orlofi. Hún hefur sungið inn á fjölda geisladiska og komið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sungið með fjölda kóra bæði kirkjuleg og veraldleg verk. Diddú hefur einnig komið fram á fjölmörgum tónleikum og öðrum tónlistarviðburðum víða erlendis.

Árið 2001 söng Diddú ásamt José Carreras á tónleikum í Laugardagshöll og árið 2005 söng hún með Placido Domingo á tónleikum í Egilshöll.[2]

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Diddú hefur hlotið fjölda viðurkenninga á ferli sínum. Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1995, Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir hlutverk Næturdrottningarinnar í Töfraflautunni, fyrstu óperusýningunni í Hörpu árið 2011 og heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2020.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn J-Ö, bls. 713-714, (Reykjavík, 2003)
  2. Ismus.is, „Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú)“, skoðað 11. mars 2020