Edinborgarhúsið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Edinborgarhúsið er friðað hús og menningarmiðstöð á Ísafirði. Húsið var byggt af Edinborgarversluninni sem var kringum aldamótin 1900 eitt stærsta verslunarfyrirtæki landsins um aldamótin 1900. Edinborgarverslunin var stofnuð í Reykjavík árið 1895 og var í eigu Ásgeirs Sigurðsson sem ættaður var frá Ísafirði og skoska verslunarfyrirtækisins Copland and Berrie í Leith. Edinborgarverslunin færði út kvíarnar og opnaði verslunarbúð á Ísafirði árið 1902. Árið 1903 varð Karl Olgeirsson, verslunarstjóri Edinborgarverslunar á Ísafirði og meðeigandi fáum árum síðar.

Bygging Edinborgarhússins hófst eftir að fengin var byggingarlóð fyrir húsið árið 1907 við Pollinn. Þar var byggt hús eftir teikningu Rögnvald Ágúst Ólafsson og bryggja og bryggjuhús. Edinborgarhúsið og bryggjan voru lengi ein mesta mannvirki á Ísafirði. Edinborgarverslun hætti starfsemi á Ísafirði árið 1917 og seldi hlut sinn til Karls verslunarstjóra. Árið 1918 varð Jóhann E. Þorsteinsson meðeigandi og var verslunin rekin undir nafninu Karl & Jóhann til 1923 en þá seldi Karl sinn hluta og Sigurjón Þ. Jónsson kom inn og ráku Sigurjón og Jóhann E. Þorsteinson verslunina til ársins 1926.

Togarafélag Ísfirðinga h.f. sem var stofnað 1925 var til húsa í Edinborgarhúsinu. Félagið keypti og rak togarann Hávarð Ísfirðing frá 1925 til 1939. Á kreppuárunum gekk reksturinn illa og árið 1935 tók Landsbankinn yfir reksturinn, hlutafé var aukið og nafni breytt í h.f. Hávarður. Árið 1938 varð þar félag gjaldþrota og stofnað nýtt hlutafélag með aðkomu Kaupfélags Ísfirðinga. Nýja hlutafélagið var nefnt Valur og var togarinn Hávarður endurskírður og nefndur Skutull.

Kaupfélag Ísfirðinga elfdist mjög á millistríðsárunum og keypti upp ýmsar eignir. Árið 1937 eignaðist kaupfélagið eignir sem höfðu tilheyrt Edinborgarversluninni og þar á meðal Edinborgarhúsið og fiskreiti á lóð hússins. Kaupfélagið átti stóran hlut í útgerðarfélaginu Nirði en það félag gerði út báta sem kallaðir voru Dísirnar. Kaupfélagið verkaði fisk frá Nirði á fiskreitunum og skömmu eftir árið 1945 var settur upp þurrklefi fyrir fisk í Edinborgarhúsinu. Þessi þurrklefi gerði mögulegt að þurrka fisk innan dyra á veturna. Kaupfélag Ísfirðinga átti Edinborgarhúsið í rúmlega 50 ár eða þangað til SÍS tók yfir eigur þess.

Stofnað var einkahlutafélag um menningarmiðstöð í Edinborgarhúsinu 9. september 1992.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]