Fara í innihald

Vogaflugvöllur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Vágaflugvöllur)
Flugstöðin á Vogaflugvelli.
Vogaflugvöllur er merktur rauðu á Vogi.

Vogaflugvöllur (færeyska: Vága Floghavn, danska: Vágar Lufthavn) er eini flugvöllurinn í Færeyjum, um 2 km austan við Sørvág á eynni Vogum. Þar eru höfuðbækistöðvar færeyska flugfélagsins Atlantic Airways, auk þess sem flogið er þaðan með þyrlum til nokkurra áfangastaða innan eyjanna.

Verkfræðideild breska hersins lagði flugvöllinn í síðari heimsstyrjöldinni og að stríðinu loknu komst hann í umsjá dönsku flugmálastjórnarinnar. Stóð það til 1. maí 2007 en þá var hann afhentur Færeyingum. Það var þó ekki fyrr en um 1960 sem reglubundið áætlunarflug til Færeyja hófst. Upphaflega var flugbrautin aðeins 1250 metrar á lengd og gátu því aðeins flugvélar sem þurfa tiltölulega stutta braut til flugtaks og lendingar notað hann. 2011 var flugbrautin lengd í 1799 metra[1] og 2014 var reist ný flugstöð.[2]

Áður sigldi ferja milli Voga og Þórshafnar en árið 2002 voru opnuð jarðgöng yfir til Straumeyjar og er því hægt að aka á milli Þórshafnar og flugvallarins. Áætlunarflug er nú meðal annars til Kaupmannahafnar, Reykjavíkur, Aberdeen, London, Óslóar, Stafangurs og Narsarsuaq á Grænlandi.

Þann 26. september 1970 fórst Fokker F27-flugvél Flugfélags Íslands skömmu fyrir lendingu á Vogaflugvelli. Vélin var í áætlunarflugi frá Kaupmannahöfn með millilendingu í Björgvin en veðuraðstæður voru slæmar í Færeyjum og vélin rakst á fjallið Knúk á Mykinesi. Í vélinni voru 34 og átta þeirra fórust, þar á meðal flugstjórinn, Bjarni Jensson. Margir slösuðust illa og þurfti að flytja þá af slysstað á þyrlu við mjög erfiðar aðstæður (sjá: Flugslysið í Mykinesi).

Þann 3. ágúst 1996 fórst Gulfstream III-flugvél danska flughersins í aðflugi að Vogaflugvelli í slæmu veðri og lélegu skyggni. Níu manns fórust, þar á meðal danski varnarmálaráðherrann Jørgen Garde og eiginkona hans.

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Vágar Airport“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. apríl 2011.
  • „Sex Íslendingar meðal 34 um borð. Morgunblaðið, 27. september 1970“.
  1. „A 1.799 m. long runway and terminal for a total of DKK. 412“. Oct 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. september 2015.
  2. „News - FAE - Vága Floghavn“. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. febrúar 2015.