Títóismi
Títóismi er pólitísk stefna sem er ein grein sósíalisma, kennd við Tító marskálk (1892-1980) og þykir einkum einkenna stjórnartíð hans í Júgóslavíu (1945-1980). Nafngiftin er notuð til aðgreiningar frá öðrum sósíalistum, en títóistar sjálfir kalla sig yfirleitt bara sósíalista.
Ólíkt flestum öðrum löndum Austur-Evrópu, þá tókst Júgóslövum að sigra hernámslið Þjóðverja án mikillar aðstoðar Rauða hersins við lok Síðari heimsstyrjaldar. Árið 1945 var Júgóslavía því á valdi skæruliða sem flestir aðhylltust kommúnískar eða sósíalískar hugmyndir og lutu forystu Títós. Þeir voru því ekki bundnir af vilja Stalíns og Sovétmanna eins og flest hin löndin. Skömmu eftir stríð kom til vinslita milli Stalíns og Títós, sem vildi að Júgóslavía færi sínar eigin leiðir til þess að framkvæma sósíalismann. Það er þessi júgóslavneska leið, sem er gjarnan kennd við Tító sjálfan.
Til aðgreiningar frá öðrum greinum sósíalisma, þá felur títóismi í sér sterk syndikalísk áhrif — það er að segja, að verksmiðjur og aðrar einingar hagkerfisins eru að miklu leyti undir stjórn verkamanna sjálfra, verkalýðshreyfingin hefur meira sjálfstæði gagnvart ríkisvaldinu heldur en t.d. við stalíníska eða maóíska stjórnarhætti og áætlunarbúskapurinn er ekki eins umfangsmikill, heldur gefur ákveðið rúm fyrir markað. Þar sem Júgóslavía var fjölþjóðlegt sambandsríki, má líta á hvort tveggja sem einkenni á títóismanum líka: Áherslur á að þjóðarbrot hafi verulega sjálfstjórn hvert í sínu fylki, og að allir eigi að vera jafnir fyrir ríkinu, óháð þjóðerni, og fylkin myndi ríkið í sameiningu. Auk þess nutu Júgóslavar mun meiri réttinda en flestir aðrir íbúar Austur-Evrópu, til dæmis hvað snerti ferðafrelsi og prentfrelsi.
Eftir vinslitin við Stalín, fylgdi Júgóslavía að mestu hlutleysisstefnu í utanríkismálum, eftir því sem hægt var í Kalda stríðinu. Tító stofnaði Samband hlutlausra ríkja ásamt Gamal Abdel Nasser, forseta Egyptalands, Jawaharlal Nehru, forseta Indlands og Sukarno, forseta Indónesíu. Austur-evrópsku ríkin sniðgengu Júgóslava að miklu leyti, og því beindust utanríkisviðskipti þeirra að mestu leyti til Vestur-Evrópu.
Tító og stjórn hans nutu vinsælda heima fyrir, þar sem honum tókst að láta þjóðarbrot Júgóslavíu halda friðinn að mestu leyti, og halda uppi mun betri almennum lífskjörum en í hinum sósíalísku löndnum — þótt Júgóslavía hafi fjármagnað þau að miklu leyti með erlendum lánum, og þannig safnað skuldum sem seinna urðu þung byrði. Austurblokkin deildi þó hart á Tító. Enver Hoxha, forseti Albaníu, gagnrýndi hann sérstaklega mikið, í ræðu og riti.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]- Ritsafn Títós á Marxists.org