Fara í innihald

Fylkið

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá The Matrix)
Þessi grein fjallar um kvikmyndina „Fylkið“, en getur einnig átt við hugtak í stærðfræði og stjórnsýslueiningu.
Fylkið
The Matrix
LeikstjóriLilly Wachowski
Lana Wachowski
HandritshöfundurLilly Wachowski
Lana Wachowski
FramleiðandiJoel Silver
LeikararKeanu Reeves
Laurence Fishburne
Carrie-Anne Moss
Hugo Weaving
FrumsýningFáni Bandaríkjana 31. mars, 1999
Fáni Íslands 25. júní, 1999
Lengd136 mín.
Tungumálenska
AldurstakmarkMPAA: Rated R for sci-fi violence and brief language. R
Afar háþróuð vísindaskáldsöguleg frásögn gerð af nýjustu tækni og með áður óséðum myndrænum tilbrigðum. Margt dularfullt og óhugnanlegt ber fyrir sjónir. Nokkuð er um skrímsliskenndar lýsingar sem sumar hverjar geta komið ónotalega við unga áhorfendur. Háþróuð hljóð- og myndtækni ýtir mjög undir skynjun þessara þátta. En einnig er um "hefðbundnari" ofbeldis lýsingar að ræða, beitingu skotvopna, slagsmál o.s.frv. Bardagaatriði eru þó all sérstök mjög hröð, í anda svokallaðrar Hong Hong kvikmyndagerðar. Efni og framsetning þess, sbr. framanritað, þykir gefa tilefni til efstu aldursmarka. 16
Ráðstöfunarfé$63,000,000
FramhaldThe Matrix Reloaded

Fylkið (upphafleg þýðing: Draumaheimurinn; enska: The Matrix) er kvikmynd sem var fyrst sýnd í kvikmyndahúsum 31. mars 1999. Hún naut strax mikillar hylli og er í dag talin á meðal bestu vísindaskáldskaparkvikmynda sem framleiddar hafa verið. Myndin fjallar í megindráttum um efni sem lengi hefur verið kvikmyndagerðarmönnum hugleikið, þ.e. hvernig það væri ef vélarnar myndu stjórna mannkyninu. Myndina má flokka sem vísindaskáldskap, með tilvísunum í japanskar teiknimyndir, myndasögur, kung-fu-myndir, trúarlegar hugmyndir og heimspeki.

Leikarar og leikstjórar[breyta | breyta frumkóða]

Aðalleikarar eru Keanu Reeves, sem Neo; Laurence Fishburne sem Morpheus; Carrie-Ann Moss sem Trinity; Joe Pantoliano sem Cypher og Hugo Weaving sem Smith fulltrúi (e. Agent Smith). Leikstjórar myndarinnar eru systurnar Lana og Lilly Wachowski. Áður en þær gerðu The Matrix voru þær nánast óskrifað blað (tabula rasa) í kvikmyndaheiminum en höfðu þó getið sér gott orð fyrir mynd sína Bound. Systurnar eru frá Chicago og eru margar vísanir í heimaborg þeirra í myndinni, aðallega í ýmsum götunöfnum. Wachowski-systurnar hafa mikinn áhuga á myndasögum, kung-fu og japönskum teiknimyndum og þykir það sjást á heildaryfirbragði og útliti myndarinnar.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Fylkið fjallar um tímann þegar vélarnar hafa tekið völdin. Mennirnir hafa sprengt upp himininn og til að fá þá orkulind sem er nauðsynleg eftir tap sólarorkunnar taka vélarnar á það ráð að tengja mennina í sýndarheim, „Draumaheiminn“, og nýta sér líkamsvarma þeirra til að vinna orku. Þó lifir ekki allt mannkynið í Draumaheiminum því um 250.000 manna samfélag lifir nálægt kjarna Jarðar, í hinum raunverulega heimi. Markmið samfélagsins er að binda enda á stríðið milli vélanna og mannkyns, þ.e. að frelsa mannkynið úr viðjum Draumaheimsins.

Aðalpersóna Fylkisins er tölvurefurinn Neo, sem lifir í Draumaheiminum og hefur alltaf fundið á sér að eitthvað sé galið við heiminn. Morpheus er skipstjóri á skipinu Nebúdkadnesar, einu af skipum flota hins raunverulega heims. Hann telur að Neo sé hinn eini, frelsari mannkyns og því tekur hann Neo úr Draumaheiminum og sýnir honum sannleikann.

Inni í Draumaheiminum standa svokallaðir fulltrúar (e. agents) vörðinn. Fulltrúarnir eru einfaldlega tölvuforrit sem geta tekið sér búsetu í líkama hvers sem er. Myndin snýst um baráttu áhafnar Nebúkadnesars og fulltrúanna. Að lokum er lokabardagi milli æðsta fulltrúans, Smith, og Neo og fer svo að Neo eyðir Smith.

Fylkið á heimsvísu[breyta | breyta frumkóða]

Fylkið þénaði alls um 32 milljarða íslenskra króna á heimsvísu. Miklar vinsældir myndarinnar gátu af sér meira efni um Draumaheiminn á ýmsum formum. Tvær aðrar kvikmyndir voru framleiddar í framhaldi af þeirri fyrstu, The Matrix Reloaded og The Matrix Revolutions, sem gagnrýnendur hafa yfirleitt talið mun síðri en frumburðinn. Wachowski-systur halda því stöðugt fram að kvikmyndunum hafi alltaf verið ætlað að vera þríleikur en að kvikmyndaverið, Warner Brothers, hafi aðeins samþykkt að gera eina. Hins vegar þykir mikill munur á eðli myndanna þriggja benda til þess að hún hafi aðeins átt að vera ein.

Áður en The Matrix Reloaded var gefin út voru þó gerðar 9 stuttar japanskar teiknimyndir, sem áttu að gefa ítarlegri upplýsingar um eðli Draumaheimsins og hafa myndirnar níu yfirleitt saman gengið undir nafninu The Animatrix. Einnig hafa verið gefnar út myndasögur og tveir tölvuleikir, Enter the Matrix og The Matrix Online.

Heimspeki og trúarbrögð[breyta | breyta frumkóða]

Heimspeki og tilvísanir í trúarbrögð eru eitt helsta aðdráttarafl myndarinnar. Í Fylkinu er velt upp spurningum um ýmsa þætti í sálarlífi manna. Tekið er á sömu spurningum og myndir eins og t.d. The Truman Show hafa tekið á, þ.e. hvenær eitthvað getur talist raunverulegt. Fólkið utan Draumaheimsins í myndinni reynir að frelsa íbúa Draumaheimsins úr prísundinni sem Draumaheimurinn er og sýna þeim hinn raunverulega heim. Áhorfandinn er hins vegar knúinn til að velta fyrir sér hvort Draumaheimurinn sé ekki raunveruleiki þeirra sem þar búa, hvort að hinn raunverulegri heimur sé eitthvað raunverulegri í þeirra augum.

Persónan Neo í myndinni hefur augljós samkenni með Jesú í kristni. Neo heitir fullu nafni Thomas A. Anderson. Á latínu þýðir Anderson mannssonur, Neo þýðir nýr og Tómas var sá postuli sem efaðist í Biblíunni. Hér er komin tilvísun í líf Krists, þ.e. Neo er fyrst um sinn Tómas, hann efast um eðli heimsins og veit að ekki er allt með felldu en þegar hann er færður úr Draumaheiminum verður hann hinn nýi (Neo) mannssonur (Anderson). Neo verður frelsari mannkynsins og í myndinni deyr hann meira að segja og vaknar svo aftur upp frá dauðum. Að lokum má þess geta að í myndinni segir persónan Choi beint við Neo: ,,Þú ert frelsari, maður, minn eigin Jesús Kristur” (e. „You’re my saviour, man, my own personal Jesus Christ“).

Myndin byggir einnig mikið á bókinni Simulacres et Simulation eftir Jean Baudrillard sem upprunalega var gefin út 1983. Í bókinni er talað um gerviheiminn sem er í kringum okkur og að raunveruleikinn sé ekki til, eða gleymdur. Hann talar mikið um Ljósrit án upprunalegs eintaks. Þegar Morpheus segir: „Welcome to the desert of the real“ er verið að vitna beint í bókina. Bókin sést í myndinni, Neo notar hana til að geyma diskana sína og opnast bókinn beint á kaflann „On Nihilism“ sem reyndar er aftarlega í bókinn en ekki í miðjunni eins og sýnt er í myndinni.

Tæknibrellur[breyta | breyta frumkóða]

Fylkið hefur getið sér gott orð fyrir tæknivinnu. Blátjaldstæknin er mikið notuð í myndinni, ásamt víratækni til að gera leikurunum kleift að svífa um loftin eins og í heimi án þyngdarafls. Síðan hefur kvikmyndatakan notið mikillar hylli og hún þykir vera mjög frumleg. Við vinnslu myndarinnar fann yfirmaður tæknibrellna, John Gaeta, ásamt Wachowski-systrunum upp nýja kvikmyndatökutækni sem nefnist skottími.

Skottími er notaður í atriðum þar sem myndavélin er látin snúast gríðarlega hratt í um 360°. Framleiðendum myndarinnar varð snemma ljóst að ekki var hægt að nota venjulega Panasonic-kvikmyndatökuvél til að ná atriðunum, því hún gat ekki farið nógu hratt. Á einum tímapunkti datt Wachowski-systrunum í hug að festa tökuvélina við eldflaug til að ná nauðsynlegum hraða, en yfirmaður kvikmyndatöku, Bill Pope, samþykkti það ekki. Lausnin var að raða yfir 200 stafrænum myndavélum upp, sem voru stilltar til að smella á fyrirfram ákveðnum tíma og síðan var römmunum sem myndavélarnar tóku raðað upp í flæðandi hreyfimynd. Hreyfimynd er ekkert annað en safn af römmum og því er ekkert öðruvísi að taka margar ljósmyndir á sekúndu og raða þeim upp (þess má geta að hefðbundinn fjöldi ramma á sekúndu er 24). Þessi tækni hlaut nafnið skottími, eins og áður var getið.

Verðlaun og viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2000 var myndin tilnefnd til fjögurra verðlauna og hlaut hún þau öll. Zach Staenberg hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi klippingu, Dane Davis hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi hljóðklippingu, John Gaeta, Janek Sirrs, Steve Courtley og Jon Thum hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi tæknibrellur og að lokum hlutu John T. Reitz, Gregg Rudloff, David E. Campbell og David Lee verðalun fyrir besta hljóð í kvikmynd. Auk þessara verðlauna hlaut myndin ýmis verðlaun víðsvegar um heiminn, m.a. verðlaun Akademíu vísindaskáldskapar, ævintýra- og hryllingsmynda, Saturn-verðlaunin, fyrir bestu mynd og bestu leikstjórn.

Skemmtilegar staðreyndir[breyta | breyta frumkóða]

 • Í opnunaratriði myndarinnar eru sömu leikmyndir og notaðar voru við gerð myndarinnar Dark City, sem hefur mjög svipað meginþema.
 • Áður en upptökur hófust, gengust aðalleikarar myndarinnar undir fjögurra vikna þjálfun í kung-fu og í myndinni framkvæma þeir sjálfir öll bardagaatriði.
 • Jean Reno var beðinn um að leika Smith fulltrúa en ákvað í staðinn að leika í myndinni Godzilla.
 • Gert hefur verið grín að hinu fræga skottímaatriði í yfir 20 mismunandi kvikmyndum.
 • Í myndinni sést alltaf skýr blæbrigðamunur milli Draumaheimsins og raunverulega heimsins, Draumaheimurinn býr yfir grænum tón á meðan raunverulegri heimurinn er kaldari og býr yfir bláum tón.
 • Ef stöfunum í Neo er raðað aftur upp fæst út One, þ.e. sá eini, sem er einmitt hlutverk Neos í myndinni.
 • Neo þýðir líka nýr, og á latínu er það fyrsta persóna af sögninni nere sem þýðir að snúast. Neo þýðir þá „ég snýst“.
 • Í atriðinu þar sem Neo fer til Véfréttarinnar er leikið jazz-lag undir sem kallst „I'm beginning to see the light“ eða „Ég er byrjaður að sjá ljósið“.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

 • Heimasíða Matrix-þríleiksins Geymt 29 maí 2004 í Wayback Machine
 • Matrix-síðan á imdb.com
 • Aðdáendasíða Geymt 11 júlí 2005 í Wayback Machine
 • Matrix skýringar og hugmyndir Geymt 16 maí 2006 í Wayback Machine
 • Viðtal við Lana Wachowski
 • „Er möguleiki að okkar raunveruleiki sé draumsýn eða jafnvel skapaður veruleiki, samanber kvikmyndina The Matrix?“. Vísindavefurinn.
 • „Er vitað hvers vegna svo kallað déjà vu á sér stað?“. Vísindavefurinn.
 • „Erum við við eða ímyndun einhvers annars?“. Vísindavefurinn.
 • „Hvað er sýndarveruleiki?“. Vísindavefurinn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]