Fara í innihald

Raunveruleiki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Raunveruleikinn eða veruleikinn er það sem er,[1][2] í víðum skilningi felur raunveruleikinn í sér allt sem er (var og jafnvel verður) til, hvort sem það er áþreifanlegt eða óáþreifanlegt, sjáanlegt eða ósjáanlegt eða með einhverjum hætti skiljanlegt innan vísindanna, heimspekinnar eða einhvers annars hugtakakerfis. Frumspeki (og verufræði) er undirgrein heimspekinnar sem fjallar um hvað það er sem er raunverulega til og hvernig það er til eða í hvaða skilningi.

Heimspekilegar kenningar um raunveruleikann

[breyta | breyta frumkóða]

Heimspekin fjallar um raunveruleikann á tvennan hátt: eðli raunveruleikans annars vegar og tengsl hans við hugann (og tungumál og menningu) hins vegar.

Verufræði er undirgrein frumspekinnar sem fjallar um hvað er til, helstu flokka tilvistar. Verufræðin reynir að lýsa almennustu tegundum þess sem er til og hvernig þeir tengjast (til dæmis efnislegir hlutir og eiginleikar, sem eru háðir hlutunum sem hafa þá). Sumir heimspekingar gera greinarmun á raunveruleika og tilvist. Margir rökgreiningarheimspekingar forðast að nota orðin „raunverulegur“ og „raunveruleiki“ í umfjöllun um verufræði. Þeir sem gera ekki greinarmun á raunveruleika og tilvist spyrja gjarnan hvort tilvist sé eiginleiki hluta. Flestir heimspekingar síðan Immanuel Kant hafa haldið að tilvist sé alls ekki eiginleiki heldur forsenda þess að hlutir geti haft eiginleika.

Í umræðum um hlutlægni, sem eiga sér stað innan bæði frumspeki og þekkingarfræði, snýst spurningin um raunveruleikann oft um það að hvaða marki og á hvaða hátt raunveruleikinn veltur á hugrænum og menningarlegum atriðum, svo sem skynjunum, skoðunum og öðrum íbyggnum viðhorfum, trúarbrögðum, stjórnmálahugsjónum og svo framvegis.

Sú skoðun að til sé raunveruleiki óháður skoðunum, skynjunum og svo framvegis kallast hluthyggja. Heimspekingar tala oft um hluthyggju um þetta og hitt, til dæmis hluthyggju um altök eða hluthyggju um hinn ytri heim. Almennt má segja að þegar maður getur bent á einhvern hóp hluta eða einkenna sem velta ekki á skynjunum, skoðunum, tungumáli eða öðrum mannasetningum, þá sé hægt að tala um hluthyggju um þann hóp hluta.

Andstæðan við hluthyggju er hughyggja um sama hóp hluta, til dæmis hughyggja um altök (sem er venjulega kölluð nafnhyggja) eða hughyggja um hinn ytri heim. Eitt afbrigði hughyggju er stundum nefnt fyrirbærafræði. Menningarleg afstæðishyggja er hughyggja um siðfræðileg hugtök, sem heldur því fram að siðfræðileg hugtök séu félagsleg smíði sérhvers menningarsamfélags.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Simon Blackburn, The Oxford Dictionary of Philosophy s.v. „reality“ (Oxford: Oxford University Press, 1994).
  2. Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er raunverulegt?“. Vísindavefurinn 16.1.2003. http://visindavefur.is/?id=3016. (Skoðað 16.3.2011).
  • „Hvað er raunverulegt?“. Vísindavefurinn.
  Þessi heimspekigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.