Tembó Tabú
Tembó Tabú (franska: Tembo Tabou) er 24. bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin í samvinnu við Jean Roba og Greg sem einnig er skráður fyrir handritinu.
Hún kom út á frummálinu árið 1974, en gefin út á íslensku 1978 og er þriðja í röðinni í íslenska bókaflokknum.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Svalur og Valur eru á ferð um myrkviði Afríku til fundar við bandaríska rithöfundinn Gurgling Thirstywell, þegar þeir sjá sér til mikillar undrunar rauða fíla. Fílarnir hafa traðkað niður búðir rithöfundarins, sem sjálfur er á bak og burt. Í ljós kemur að fílarnir hafa verið málaðir, líklega til að flæma burt ferðamenn.
Félagarnir komast í kynni við vinalega en einfalda svarta skógardverga. Þrjótar, þeir hinir sömu og máluðu fílana rauðar, þvinga þjóðflokkinn til að leita að gulli fyrir sig. Svalur og Valur sannfæra skógardvergana um að veita þeim mótspyrnu. Þrjótarnir fanga þá félagana og gormdýrið og hyggjast nota þá sem fóður fyrir kjötætuplöntur sem þeir rækta til að hræða dvergana til hlýðni. Vinirnir sleppa og finna Thirstywell sem hafði verið haldið föngnum. Skógardvergarnir grípa til vopna og skúrkarnir eru yfirbugaðir.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Franquin skrifaði söguna árið 1959 á milli Sjávarborgarinnar og Neyðarkalls frá Bretzelborg. Sagan birtist hins vegar ekki upphaflega í tímaritinu Sval, heldur í dagblaðinu Le Parisien libéré (síðar Le Parisien). Árið 1968 var hún prentuð í tímaritinu Sval og kom loks út á bók árið 1974, en þá höfðu þegar komið úr fjórar bækur eftir Jean-Claude Fournier um ævintýri félaganna. Hún er því stundum ranglega talin síðasta Svals og Vals-saga Franquins.
- Franskri útgáfu bókarinnar fylgir stutt saga um viðureign Gorms við óprúttinn veiðimann.
- Sænskur útgefandi bókaflokksins hætti við að gefa út Tembó Tabú af ótta við að myndirnar af skógardvergunum væru taldar einkennast af kynþáttafordómum.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Tembó Tabú var gefin út af Iðunni árið 1978 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var þriðja íslenska Svals og Valsbókin.