Neyðarkall frá Bretzelborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Neyðarkall frá Bretzelborg (franska: QRN sur Bretzelburg) eftir Franquin er átjánda bókin í bókaflokknum um Sval og Val, Greg er skráður fyrir handritinu. Sagan birtist á tímaritaformi með hléum frá 1961 til 1963 en kom ekki út á bók fyrr en 1966 á frummálinu. Árið 1982 var hún gefin út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst á að Valur mætir hróðugur með agnarsmátt rafeindatæki sem er í senn útvarp og senditæki. Gormdýrið gleypir tækið fyrir slysni og heldur vöku fyrir félögunum með háværri útvarpsdagskrá. Tækið truflar einnig fjarskipti radíóamatörsins Smára Loftssonar sem leitar Sval og Val uppi. Hann segir þeim frá fjarskiptasamtali sínu við Lárus konung í einangraða ríkinu Bretzelborg, sem segist vera haldið í gíslingu.

Leyniþjónusta Bretzelborgar hefur hlerað samtölin og hyggst handsama Smára. Valur er tekinn í misgripum og fluttur til Bretzelborgar þar sem hann sætir pyntingum. Landið reynist sárafátækt þar sem öllu fé er varið í vopnakaup til að verjast grannríkinu. Í ljós kemur að yfirhershöfðingi landsins heldur konunginum í vímu róandi lyfja og leikur tveimur skjöldum: hann er jafnframt varnarmálaráðherra grannríkisins og notar stríðsæsingar til að réttlæta kaup á vopnum sem reynast í raun eftirlíkingar og stingur mismuninum í vasann.

Valur sleppur úr haldi kvalara sinna með hjálp Gormdýrsins, í sömu mund og Svalur og Smári koma til að frelsa hann. Með hjálp sprengiglaðra andspyrnumanna ná þeir að handtaka hershöfðingjann og friður og velsæld komast á í landinu.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Þetta er síðasta Svals og Vals-saga Franquins í fullri bókarlengd. Útgáfa hennar hófst í tímaritinu Sval á árinu 1961. Þegar sagan var skammt á veg komin var gert hlé á birtingu hennar, þar sem höfundur átti við þunglyndi að stríða og hafði ofreynt sig á vinnu. Seinni hluti sögunnar birtist því ekki fyrr en á árinu 1963. Í millitíðinni birti tímaritið m.a. söguna Tembó Tabú sem áður hafði komið út í öðru blaði.
  • Þegar útgáfa sögunnar hófst 1961 var titill hennar QRM sur Bretzelburg en seinni hlutinn nefndist QRN sur Bretzelburg.
  • Þegar sagan var gefin út á bók 1966 var hún nokkuð stytt frá því sem verið hafði í tímaritsútgáfunni. Íslenska útgáfan frá 1982 inniheldur hluta af því efni sem sleppt var í upphaflegu bókarútgáfunni, en þó ekki allt.
  • Í bókarútgáfunni sést Valur berja á klefadyr sínar og kvarta yfir að vera látinn ganga berfættur á köldu steingólfi. Í upphaflegu útgáfunni brugðust fangaverðirnir við með því að láta hann klæða sig í níðþrönga skó og ganga í hringi. Þeim hluta er sleppt í bókinni og virðist því skringilegt að næst þegar Valur kemur við sögu sjást skór liggjandi við hlið hans í fangaklefanum.
  • Þótt pyntingarnar sem Valur er látinn sæta séu flestar sakleysislegar (hann er sveltur og látinn finna matarilm eða neyddur til að hlusta á ískrandi krít á töflu) þótti umfjöllunarefnið pólitískt viðkvæmt, enda höfðu frönsk stjórnvöld orðið uppvís að því að beita skipulögðum pyntingum í baráttu sinni við sjálfstæðissinna í Alsír.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Neyðarkall frá Bretzelborg var gefin út af Iðunni árið 1982 í íslenskri þýðingu Jóns Gunarssonar. Þetta var ellefta bókin í íslensku ritröðinni