Gísli Þorláksson
Gísli Þorláksson (f. 11. nóvember 1631, d. 22. júlí 1684) var Hólabiskup frá 1657 til dauðadags 1684, eða í 27 ár.
Foreldrar: Þorlákur Skúlason biskup á Hólum og Kristín Gísladóttir kona hans. Gísli fæddist á Hólum og ólst þar upp. Hann brautskráðist úr Hólaskóla 1649 og fór utan sama haust. Skráður í Kaupmannahafnarháskóla 3. desember 1649. Kom aftur til landsins 1652, var skólameistari á Hólum 1654–1656. Eftir fráfall föður síns var hann kosinn biskup á prestastefnu 21. apríl 1656, aðeins 24 ára. Fór utan um sumarið og var vígður 10. maí 1657. Kom að Hólum 7. júlí sama ár og var biskup til dauðadags, 1684, þá 52 ára.
Gísli var friðsamur maður, lítillátur, örlátur og vel látinn, en þótti hvorki mikill lærdómsmaður né hafa háar gáfur. Var og reynslulítill þegar hann tók við embætti, en naut ætternis síns. Fyrri hluta biskupsferils síns stóð hann nokkuð í skugga Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti, sem var atkvæðameiri maður. Gísli átti um tíma í hörðum deilum við Jón Eggertsson á Ökrum og fleiri.
Gísli er einna kunnastur fyrir áhuga sinn á myndlist. Hann hafði lengi í þjónustu sinni Guðmund Guðmundsson bíld frá Bjarnastaðahlíð. Eru til mörg verk sem Guðmundur vann fyrir Gísla og Ragnheiði Jónsdóttur þriðju konu hans. Þekktast þeirra er skírnarsárinn í Hóladómkirkju, frá 1674.
Ritstörf: Húspostilla 1–2 (Gísla-postilla), Hólum 1667–1670, að nokkru þýdd. Þýddi einnig spurningakver handa börnum, Examen Catheceticum, Hólum 1674. Orti latínukvæði til Runólfs Jónssonar 1651. Hafði umsjón með prentsmiðjunni á Hólum og lét prenta þar rúmlega 40 bækur. Þekktust þeirra er frumútgáfa Passíusálma Hallgríms Péturssonar 1666.
Árið eftir að Gísli dó, 1685, var prentuð önnur útgáfa Gísla-postillu, og einnig Kristileg líkpredikun Gísla Thorlákssonar eftir Þorstein Gunnarsson. Voru það síðustu bækur prentaðar á Hólum á 17. öld, áður en prentsmiðjan var flutt suður í Skálholt.
Í Þjóðskjalasafni Íslands eru nokkrar skjalabækur Gísla, m.a. bréfabók hans (óheil) og prestastefnubók, prentaðar 1983: Prestastefnudómar og bréfabók Gísla biskups Þorlákssonar.
Gísli var þríkvæntur:
- Kona 1 (gift 1658): Gróa Þorleifsdóttir (um 1633 – 14. janúar 1660), dóttir Þorleifs Magnússonar sýslumanns á Hlíðarenda.
- Kona 2 (1664): Ingibjörg Benediktsdóttir (2. maí 1636 – 24. janúar 1673), dóttir Benedikts Halldórssonar sýslumanns á Reynistað.
- Kona 3 (1674): Ragnheiður yngri Jónsdóttir (1646 – 10. apríl 1715), dóttir Jóns Arasonar prests í Vatnsfirði.
Gísli var barnlaus með öllum konum sínum.
Heimildir
- Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár II.
- Sigurður Líndal (ritstj.): Saga Íslands VII.
Fyrirrennari: Þorlákur Skúlason |
|
Eftirmaður: Jón Vigfússon |