Stóru-Akrar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Gamli bærinn á Stóru-Ökrum, að hluta til frá tíma Skúla Magnússonar.

Stóru-Akrar eða Akrar er bær í miðri Blönduhlíð í Skagafirði og höfðingjasetur fyrr á öldum. Bæir standa þétt í nágrenni Stóru-Akra og kallast þar Akratorfa.

Á Stóru-Ökrum bjó Björn prestur Brynjólfsson á fyrri hluta 14. aldar og afkomendur hans um langan aldur. Sonur Björns var Brynjólfur ríki Björnsson (d. 1381) og síðan Björn sonur hans (d. um 1403). Dóttir hans var Sigríður, sem giftist seinni manni sínum, Þorsteini Ólafssyni lögmanni í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi 1408 en vitnisburður um brúðkaupið er síðasta örugga heimild um búsetu norrænna manna þar. Einkadóttir þeirra var kölluð Akra-Kristín. Hún var fyrst gift Helga Guðnasyni lögmanni en síðar Torfa Arasyni hirðstjóra. Dóttir hennar og Helga var Ingveldur, kona Þorleifs Björnssonar hirðstjóra á Reykhólum.

Dætur Ingveldar og Þorleifs, Guðný og Helga, eignuðust Akra eftir foreldra sína og bjó Guðný, sem kölluð var Akra-Guðný, lengi á jörðinni með manni sínum, Grími Jónssyni lögmanni. Hinn hlutann eignaðist Gunnar Gíslason á Víðivöllum. Dóttir hans var Solveig kvennablómi, kona Arngríms lærða, og virðist Arngrímur hafa búið þar um tíma og seinna Jón sonur hans. Hann seldi Eggert Jónssyni jörðina árið 1630 og bjuggu afkomendur hans þar þangað til 1743, þegar hún var seld Skúla Magnússyni,, sýslumanni Skagfirðinga og síðar landfógeta. Hann byggði þar á árunum 1743-1745 myndarlegan torfbæ sem búið var í til 1938 og stendur enn að hluta. Hann er undir umsjá Þjóðminjasafns Íslands og hefur verið endurgerður.

Kirkja var á Stóru-Ökrum frá því snemma á öldum en hún var lögð niður með konungsbréfi 1765.

Héðinsminni er félagsheimili Akrahrepps og er á Stóru-Ökrum. Húsið var byggt á árunum 1919-1921 og vígt 13. júní 1921. Það var reist fyrir fé sem Símon Eiríksson bóndi í Litladal gaf í minningu sonar síns, Skarphéðins Símonarsonar, sem drukknaði í Héraðsvötnum við Grundarstokk 15. nóvember 1914. Húsið var upphaflega nefnt Héðinshöll en þó venjulega kallað Þinghúsið. Á árunum 1960-1961 var það endurbætt mjög mikið og stækkað og hlaut þá nafnið Héðinsminni. Um 1990 var húsið enn stækkað og endurbætt. Þar var skóli hreppsins um áratuga skeið, allt þar til hann var lagður niður árið 2006.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi. Akrahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2007. ISBN 978-9979-861-15-7}