Sveinn Pálsson (f. 1762)
Sveinn Pálsson (25. apríl 1762 – 23. apríl 1840) var íslenskur læknir og náttúrufræðingur sem stundaði umfangsmiklar rannsóknir á náttúru Íslands og varð meðal annars fyrstur manna til að átta sig á eðli skriðjökla og fleiri náttúrufyrirbæra.
Nám
[breyta | breyta frumkóða]Sveinn var fæddur á Steinsstöðum í Tungusveit í Skagafirði, sonur hjónanna Páls Sveinssonar bónda og gullsmiðs og Guðrúnar Jónsdóttur yfirsetukonu. Hann var settur til mennta og varð stúdent frá Hólaskóla 1782. Næsta ár var hann við sjóróðra en hóf síðan læknisnám hjá Jóni Sveinssyni landlækni og var hjá honum í fjögur ár. Þá fór hann til Kaupmannahafnar og nam læknisfræði við Hafnarháskóla í fjögur ár til viðbótar en lauk ekki prófi. Hann stundaði jafnframt nám í náttúruvísindum og fékk þriggja ára ferðastyrk frá danska náttúruvísindafélaginu árið 1791 til að fara til Íslands og stunda rannsóknir. Hann hafði í hyggju að snúa aftur til Kaupmannahafnar og ljúka námi en af því varð ekki.
Starfsferill og fjölskylda
[breyta | breyta frumkóða]Hann ferðaðist um Ísland frá 1791-1794, vann að ýmsum rannsóknum og sendi niðurstöður sínar til Kaupmannahafnar en fékk ekki framlengingu á styrknum, sem hann hafði vonast eftir, og varð að snúa sér alfarið að búskap og læknisstörfum, sem hann hafði þó stundað jafnframt ferðalögunum. Þann 4. október 1799 var hann skipaður fjórðungslæknir í Sunnlendingafjórðungi og átti að sinna Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjum. Fyrir þetta fékk hann 66 ríkisdala árslaun, sem þótti afar naum og varð hann alla tíð að róa til fiskjar á vetrum jafnframt læknisstörfum og búskap.
Þegar Sveinn var 33 ára gekk hann að eiga Þórunni, dóttur Bjarna landlæknis Pálssonar, sem var mikill dugnaðarforkur og sá að miklu leyti um búskapinn alla tíð. Þau eignuðust 15 börn en 10 komust upp, svo að heimilið var þungt og erfitt að framfæra þennan stóra hóp. Sveinn reyndi oft að fá kjör sín bætt en fékk ekki einu sinni embættisbústað sem átti þó að fylgja starfinu fyrr en eftir meira en tíu ára baráttu; þá fékk hann hálfa jörðina Vík frítt til ábúðar. Árið 1816 bötnuðu kjörin þó verulega og fékk Sveinn þá 300 ríkisdali í árslaun.
Rannsóknir
[breyta | breyta frumkóða]Sveinn er þó ekki þekktastur fyrir læknisstörf sín, heldur rannsóknir sínar á náttúru Íslands, en hann varð fyrstur manna í heiminum til að átta sig á eðli skriðjökla og skýra hreyfingu þeirra. Árið 1793 varð hann líka fyrstur til að setja fram þá kenningu að gervigígar mynduðust við gufusprengingar en það varð ekki almennt viðurkennt fyrr en um 1950. Hann hlaut þó ekki þann sess í sögu jarðvísinda sem honum hefði borið fyrir uppgötvun sína því að skýrsla hans eða rit um jöklana fékkst ekki birt; helstu vísindarit hans komu út löngu eftir lát hans. Ferðabók Sveins Pálssonar, eins konar dagbók um athuganir hans um náttúru, land og þjóð, var skrifuð á dönsku og ekki þýdd og gefin út á íslensku fyrr en 1945.
Hann ferðaðist víða um landið og skrifaði mikið um athuganir sínar og ýmis önnur efni. Hann þýddi líka ýmis rit um læknisfræði og náttúruvísindi fyrir almenning. Honum mun hafa fallið þungt að geta ekki einbeitt sér að vísindarannsóknum en þurfa stöðugt að strita við bústörf og læknisstörf í fjölmennasta héraði landsins.
Sveinn var meðal annars fyrstur til að koma að Lakagígum 1794, tíu árum eftir Skaftárelda, og sama ár gekk hann á Öræfajökul fyrstur manna og gerði tilraun til að ganga á Snæfell en varð frá að hverfa vegna óveðurs. Hann varð fyrstur til að hvetja til aðgerða gegn eyðingu skóga á Íslandi og er Dagur umhverfisins haldinn árlega á fæðingardegi hans, 25. apríl.