Jón Sveinsson (landlæknir)
Jón Sveinsson (24. maí 1752 – 13. júní 1803) var íslenskur læknir sem var annar í röð landlækna á Íslandi og tók við af Bjarna Pálssyni.
Jón var sonur Sveins Sölvasonar lögmanns á Munkaþverá og Málfríðar Jónsdóttur konu hans. Hann útskrifaðist sem stúdent úr heimaskóla 1772 og hélt síðan til Kaupmannahafnar, þar sem hann las læknisfræði en tók þó ekki próf. Hann var skipaður landlæknir 14. júní 1780 en Bjarni Pálsson hafði dáið haustið áður. Hann sótti um að fá að senda læknisfræðiritgerð til Kaupmannahafnarháskóla sem ígildi prófs eða að fá leyfi til að sigla til að taka próf en fékk það svar frá kansellíinu að hann skyldi vera undanþeginn því að taka læknispróf á meðan hann væri á Íslandi því ekki væri gott að þar væri læknislaust á meðan hann væri í Kaupmannahafnarferð til að taka próf og kom því aldrei til þess að Jón lyki prófi.
Jón var drykkfelldur „en jafnan spakur“, segir Jón Espólín. Hann bjó á Nesi við Seltjörn og gegndi embættinu þar til hann sótti um lausn 1803 og var veitt hún frá 1. júní, en hann lést tveimur vikum síðar. Kona hans var Guðríður Sigurðardóttir og voru þau barnlaus.