Stefania Turkewich

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stefania Turkewich
Upplýsingar
FæddStefania Turkewich
25. apríl 1898
Dáin8. apríl 1977 (78 ára) Cambridge, Englandi
UppruniFáni Úkraínu Lviv, Úkraínu
HljóðfæriPíanó

Stefania Turkewich-Lukianovych (25. apríl 1898 – 8. apríl 1977) var úkraínskt tónskáld, píanóleikari og tónlistarfræðingur. Hún er talin fyrsta kventónskáld Úkraínu.[1] Á tíma sovéskra yfirráða í Úkraínu voru verk hennar bönnuð.

Æskuár[breyta | breyta frumkóða]

Afi Stefaníu (Lev Túrkevítsj) og faðir hennar, (Ívan Túrkevítsj), voru prestar. Móðir hennar, Sofía Kormosjiv, var píanóleikari sem hafði lært hjá Karol Mikuli og Vilém Kurz og var einnig kunnug ungu óperusöngkonunni Sólómíju Krúsjelnítska.[2] Allir meðlimir fjölskyldunnar voru tónhneigðir og léku á hljóðfæri. Stefanía lék á píanó, hörpu og harmonium. Síðar sagði hún um barnæsku sína og ást fjölskyldunnar á tónlist:

Gæsalappir

Í miðju alls var móðir mín, sem lék listilega á píanó. Þegar ég var barn fannst mér fátt skemmtilegra en að hlusta á hana spila. Síðan stofnuðum við stofuhljómsveit heima hjá okkur. Hljómsveitinni var skipað þannig að pabbi lék á bassa, móðir mín á píanóið, Ljonjó á selló, ég á harmonium og Marika og Zenkó á fiðlur. Pabbi stofnaði líka fjölskyldukór. Þetta voru fyrstu skref okkar inn í heim tónlistarinnar. Pabbi sparaði aldrei við sig né kom með afsakanir þegar tónlistarlíf okkar var annars vegar.[2]

— .

Nám[breyta | breyta frumkóða]

Miðröðin (frá vinstri til hægri): Systirin Írena, bróðirinn Lev (með tennisspaða) og Stefania, u.þ.b. 1915.

Stefania hóf tónlistarnám hjá rússneska tónskáldinu Vasíl Barvinskíj. Frá 1914 til 1916 stundaði hún nám í Vín sem píanóleikari hjá tékkneska píanókennaranum Vilém Kurz. Eftir fyrri heimsstyrjöldina lærði hún hjá pólska tónfræðingnum Adolf Chybiński við Háskólann í Lviv og sótti einnig fyrirlestra hans um tónfræði við Tónlistarskólann í Lviv.[2]

Árið 1919 gaf Stefania út sitt fyrsta tónverk, Helgistund (Літургію), sem var flutt nokkrum sinnum í Dómkirkju Heilags Georgs í Lviv.[3]

Árið 1921 hóf hún nám hjá bæheimsk-austurríska tónlistarfræðingnum Guido Adler við Vínarháskóla og austurríska tónskáldinu Joseph Marx við Tónlistar- og sviðslistaháskólann í Vínarborg. Stefania Turkewich lauk kennaraprófi við skólann árið 1923.[3]

Árið 1925 giftist hún Robert Lisovskyi og flutti með honum til Berlínar þar sem hún bjó 1927 til 1930 og stundaði nám hjá Arnold Schönberg og Franz Schreker.[2] Árið 1927 eignuðust hjónin dótturina Zoju (Зоя).[4]

Árið 1930 fór Turkewich til til Prag í Tékkóslóvakíu og nam hjá Zdeněk Nejedlý við Karlsháskólann og hjá Otakar Šín við Tónlistarskólann í Prag. Hún lærði einnig tónsmíðar hjá Vítězslav Novák við Tónlistarskólann. Haustið 1933 kenndi hún píanóleik og varð meðleikari við skólann. Árið 1934 varði hún doktorsritgerð sína, sem fjallaði um úkraínska þjóðtrú í rússneskum óperum.[2] Hún lauk doktorsprófi í tónlistarfræði árið 1934 frá Úkraínska fríháskólanum í Prag. Hún varð fyrsta konan frá Galisíu (þá hluti Póllands) til að ljúka doktorsprófi.

Þegar hún kom aftur til Lviv varð hún kennari í tónfræði og píanóleik við Tónlistarskólann í Lviv frá 1934 þar til síðari heimsstyrjöldin braust út. Turkewich gerðist þá meðlimur í Sambandi úkraínskra atvinnutónlistarmanna.[3]

Seinni heimstyrjöldin[breyta | breyta frumkóða]

Haustið 1939, eftir hernám Sovétríkjanna í vesturhluta Úkraínu, starfaði Turkewich-Lukianovych sem leiðbeinandi og konsertmeistari við óperuna í Lviv og var frá 1940 til 1941 dósent við tónlistarskóla borgarinnar. Þegar tónlistarskólanum var lokað vegna hernáms Þjóðverja gerðist hún kennari við tónlistarskóla ríkisins. Vorið 1944 fór Turkewich frá Lviv og flutti til Vínarborgar.[3] Árið 1946 flutti hún til suðurhluta Austurríkis til þess að flýja Sovétmenn og síðan til Ítalíu, þar sem annar eiginmaður hennar, Nartsiz Lúkjanovítsj, vann sem læknir fyrir Breta.[5]

England[breyta | breyta frumkóða]

Haustið 1946 flutti Turkewich til Bretlands þar sem hún bjó í Brighton (1947–1951). Hún bjó og starfaði á nokkrum stöðum í Englandi: Í London (1951–1952), Barrow Gurney (nálægt Bristol) (1952–1962), BelfastNorður-Írlandi) (1962–1973) og Cambridge (frá 1973). Undir lok fjórða áratugarins fór hún aftur að semja tónverk. Öðru hverju tók hún aftur að sér störf sem píanóleikari, sérstaklega árið 1957 við tónleikaröð samfélags Úkraínumanna á Englandi og árið 1959 á píanótónleikum í Bristol. Hún var meðlimur í Félagi breskra kventónskálda og tónlistarkvenna (sem var lagt niður árið 1972).

Árið 1970 var ópera Turkewich, Hjarta Oksönu, flutt í Winnipeg í tónleikahöllinni Centennial Concert Hall undir leikstjórn systur hennar, Írenu Turkevycz-Martynec.[6]

Gæsalappir

Centennial Concert Hall- sunnudag klukkan 19.30: Úkraínska barnaleikhúsið kynnir Hjarta Oksönu, óperu eftir Stefaniu Turkevich-Lukianovich, sem er saga stúlku sem mætir goðsagnaverum í galdraskógi í leit að týndum bræðrum sínum.[7]

— .

Arfleifð[breyta | breyta frumkóða]

Tónsmíðar Stefaniu Turkewich eru nútímalegar að formi en notast við sagnaminni úr úkraínskri þjóðlagatónlist, þegar þau eru ekki expressjónísk. Hún hélt áfram að semja tónverk fram á áttunda áratuginn. Stefania Turkewich lést þann 8. apríl 1977 í Cambridge á Englandi.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Ukrainian Art Song Project – Stefania Turkewich“. Afritað af uppruna á 22. mars 2016. Sótt 4. mars 2021.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Павлишин, Степанія Стефанівна. Перша українська композиторка: Стефанія Туркевич-Лісовська-Лукіянович, БаК, Lviv 2004.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Роман Кравець. „Українці в Сполученому Королівстві“. Інтернет-енциклопедія. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. apríl 2017. Sótt 28. ágúst 2018.
  4. „Зоя Робертівна Лісовська-Нижанківська, the Encyclopedia of Modern Ukraine“ (ukrainian). Sótt 17. desember 2018.
  5. „Narcyz Lukianowicz (Нарциз Лукіянович)“.
  6. „Svoboda“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 9. júlí 2016. Sótt 4. mars 2021.
  7. Winnipeg Free Press, 6. júní 1970