Soong Mei-ling
- Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Soong, eiginnafnið er Mei-ling.
Soong Mei-ling 宋美齡 | |
---|---|
Fædd | 5. mars 1898 |
Dáin | 23. október 2003 (105 ára) |
Þjóðerni | Kínversk |
Menntun | Wellesley-háskóli |
Flokkur | Kuomintang |
Trú | Meþódismi[1] |
Maki | Chiang Kai-shek |
Soong Mei-ling (kínverska: 宋美齡; pinyin: Sòng Měilíng; 5. mars 1898 – 23. október 2003), einnig þekkt sem Frú Chiang Kai-shek eða Frú Chiang, var kínversk stjórnmálakona sem var lengi forsetafrú Lýðveldisins Kína. Hún var eiginkona hershöfðingjans og forsetans Chiang Kai-shek og jafnframt mágkona Sun Yat-sen, stofnanda og fyrsta leiðtoga Lýðveldisins Kína. Hún var áberandi í kínversku stjórnmála- og þjóðfélagslífi og gegndi ýmsum ábyrgðar- og heiðursembættum, meðal annars embætti forstöðumanns kaþólska Fu Jen-háskólans. Á tíma seinna stríðs Kína og Japans tók hún þátt í að fylkja kínversku þjóðinni gegn japönsku innrásinni og árið 1943 fór hún í átta mánaða ræðuferð til Bandaríkjanna til að vinna Kínverjum stuðning.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Soong Mei-ling fæddist árið 1898 og var dóttir Charlie Soong, Kínverja sem hafði gerst kristinn trúboði eftir dvöl í Bandaríkjunum. Charlie Soong hagnaðist á því að flytja inn tækninýjungar til Kína og lét bæði prenta Biblíuna og ýmis róttæk áróðursrit fyrir kínverska byltingarleiðtogann Sun Yat-sen. Soong Mei-ling var yngst þriggja dætra Charlie Soong sem allar giftust áhrifamönnum í kínverskum stjórnmálum: Elsta systirin, Soong Ai-ling, giftist auðjöfrinum H. H. Kung, miðsystirin Soong Ching-ling giftist Sun Yat-sen, og Mei-ling giftist árið 1926 hershöfðingjanum Chiang Kai-shek, sem tók við af Sun Yat-sen sem leiðtogi kínverska þjóðernisflokksins Kuomintang.[2]
Soong Mei-ling var send til náms í Bandaríkjunum þegar hún var níu ára og bjó þar þangað til hún varð nítján ára. Hún útskrifaðist úr háskóla með ágætiseinkunn og sneri síðan aftur til heimabæjar síns í Kína, þar sem hún kynntist Chiang Kai-shek, hægri hönd Sun Yat-sen, á heimili móður sinnar. Chiang hreifst fljótt af Soong Mei-ling en fyrsta bónorði hans til hennar var hafnað þar sem hann var mun eldri en hún, fráskilinn og búddisti. Soong Mei-ling taldi Chiang á að taka kristna trú til þess að þau gætu gifst. Þetta gerði hann eftir fimm ár, sem leiddi til þess að þau gáfust saman þann 1. desember 1927 í Sjanghæ.[3][4]
Mei-ling vann margvísleg líknarstörf á ferli sínum, meðal annars fyrir kvenréttindum og gegn barnaþrælkun.[2] Mei-ling sat jafnframt á löggjafarþingi Lýðveldisins Kína frá 1930 til 1932 og var formaður kínversku flugmálanefndarinnar frá 1936 til 1938. Hún stofnaði munaðarleysingjahæli og skóla fyrir börn sem höfðu misst foreldra sína í kínversku borgarastyrjöldinni.[5] Eftir upphaf stríðsins gegn Japan urðu málefni munaðarleysingja mun meira aðkallandi og því stofnaði Soong Mei-ling líknarsjóð kínverskra kvenna fyrir stríðsreksturinn.[6]
Í desember 1936 var gerð uppreisn gegn Chiang og hann fangelsaður. Soong Mei-ling fór sjálf á fund uppreisnarmennina til að semja um lausn eiginmanns síns.[3] Afleiðing atviksins varð sú að Chiang var leystur úr haldi en hann var þvingaður til að semja um vopnahlé við kínverska kommúnista í borgarastyrjöldinni sem stóð yfir svo Kínverjar gætu barist saman gegn innrás Japana.
Soong Mei-ling fór til Bandaríkjanna árið 1943 til að vekja athygli á málstað Kínverja í stríðinu gegn Japan. Hún flutti ræðu við Bandaríkjaþing og vakti mikla lukku.[7] Eftir að þjóðernissinnar töpuðu borgarastyrjöldinni gegn kommúnistum fylgdi Mei-ling eiginmanni sínum í útlegð til eyjarinnar Taívan. Hún var þar forsetafrú Lýðveldisins Kína á stjórnartíð Chiangs frá 1950 til 1975. Eftir að Chiang lést árið 1975 tók sonur hans úr fyrra hjónabandi, Chiang Ching-kuo, við völdum á Taívan en Mei-ling kom ekki vel saman við stjúpson sinn. Mei-ling flutti sama ár frá Taívan til óðals sem hún átti í Lattingtown í New York í Bandaríkjunum. Hún bjó í Bandaríkjunum þar til hún lést árið 2003, þá 105 ára gömul.[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Hubert R. Knickerbocker (5. mars 1938). „Heimsstyrjöld er yfirvofandi“. Fálkinn. bls. 4.
- ↑ 2,0 2,1 „May Ling, frægasta konan í Kína“. Fálkinn. 21. janúar 1949. bls. 4.
- ↑ 3,0 3,1 „Frú Chiang Kai-shek“. Tíminn. 5. mars 1938. bls. 485.
- ↑ „„Drottning Kínaveldis" Frú Chiang Kai Shek“. Morgunblaðið. 6. maí 1943. bls. 5-6.
- ↑ Tyson Li, Laura (2006). Madame Chiang Kai-shek: China's Eternal First Lady. New York: Grove Press. ISBN 978-0-8021-4322-8. Preview at Google Books
- ↑ Scott Wong, Kevin (2005). Americans first: Chinese Americans and the Second World War. Harvard University Press. bls. 93. ISBN 9780674016712.
- ↑ „Frú Chiang Kai-shek er vongóð um lokasigur“. Morgunblaðið. 5. ágúst 1951. bls. 3.
- ↑ Faison, Seth (24. október 2003). „Madame Chiang Kai-shek, a Power in Husband's China and Abroad, Dies at 106“. New York Times. Sótt 27. júní 2008.