Fara í innihald

Snjóflóðið í Súðavík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Súðavík á Vestfjörðum við Ísafjarðardjúp
Mynd af þeim hluta Súðavíkur þar sem flóðið féll, þar sem áður stóð svo kölluð gamla byggð.

Snjóflóðið í Súðavík er snjóflóð sem féll 16. janúar 1995 á þorpið Súðavík stendur við Álftafjörð við vestanvert Ísafjarðardjúp. Fjörðurinn hefur meginstefnuna SSV–NNA, en sveigir örlítið yst og opnast til norðurs. Kauptúnið í Súðavík er byggt upp í landi hins gamla góðbýlis og útvegsjarðar í Súðavík og að nokkru leyti einnig í landi Traðar.

Mánudaginn 16. janúar 1995, kl.06:25, féll eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar. Það féll á gömlu byggðina í Súðavík í Álftafirði. Af þeim 25 húsum sem voru á áfallasvæðinu voru 7 sem hýstu fyrirtæki og stofnanir. Þannig urðu 18 íbúðarhús fyrir flóðinu. Þann 1. desember 1995 voru 227 manns skráðir til heimilis í þorpinu Súðavík, skv. upplýsingum Hagstofunnar. Talið er að um 65 manns hafi verið með fasta búsetu í íbúðarhúsunum á áfallasvæðinu, en 62 þeirra hafi verið heima. Af þeim slösuðust 10 manns og 14 létust. Sumir komust af sjálfsdáðum úr húsarústunum en björgunarsveitir og sjálfboðaliðar fundu aðra. Sá síðasti sem fannst á lífi var 12 ára gamall drengur. En hann hafði þá legið í húsarústum, kaldur og hrakinn, í alls 23 klukkustundir. Á þessum tíma hafði geysað óveður á Vestfjörðum og var landleiðin milli Ísafjarðar og Súðavíkur ófær sökum snjóa og fjölmargra snjóflóða sem höfðu fallið á veginn um Súðavíkurhlíð. Björgunarlið, læknar, lögreglumenn og sjálfboðaliðar voru því flutt frá Ísafirði og nágrannasveitum sjóleiðis. Djúpbáturinn Fagranes spilaði stóran þátt í því verkefni. Á fjórða hundrað björgunarsveitarmanna af Vestfjörðum og björgunarmenn úr 10 sveitum á SV horni landsins tóku þátt í aðgerðum í Súðavík. Þar af 8 björgunarsveitarmenn í björgunarsveitinni Kofra í Súðavík. Þá er ótalinn fjöldi sjálboðaliða frá Súðavík og nágrannabyggðum sem lögðu lið. Notaðir voru leitarhundar af Vestfjörðum og frá Björgunarhundasveit Íslands. Snjóflóðið kom úr fjallinu ofan byggðarinnar, Súðavíkurfjalli, sem er 680 metrar y/s Talið er að 60.000 til 80.000 tonn af snjó hafi runnið niður hlíðina á 150 km. Hraða (í 100 metra hæð y/s), en á 65 km. hraða þegar það skall efstu húsunum. Talið er að flóðið hafi verið 400 metrar að breidd. Fyrst sem „hengjuhlaup“ sem síðar kom af stað „flekaflóði“.

Uppbygging í Súðavík eftir snjóflóð árið 1995

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir snjóflóðið fluttu íbúar Súðavíkur til Ísafjarðar eða Reykjavíkur. Í kjölfar flóðsins stóðu íbúar Súðavíkur frammi fyrir því að ákveða hvort hefja ætti uppbyggingu í bænum að nýju. Það varð svo að eindreginn vilji meirihluta Súðvíkinga vildi flytja á ný í sína heimabyggð en með þeim skilyrðum þó að bæjarstæðið yrði fært á öruggt svæðið innan við Eyrardalsá. Hreppsnefnd Súðavíkurhrepps óskaði eftir því við Ofanflóðasjóð og Almannavarnaráð ríkisins að eignir Súðvíkinga á snjóflóðahættusvæðinu yrðu keyptar upp í stað þess að byggð yrðu varnarvirki ofan við þorpið. Þegar búið var að ákveða flutning byggðarinnar var fyrsta verkefnið að útvega þeim sem misstu heimili sín í snjóflóðinu bráðabirgðahúsnæði á meðan á uppbyggingu stæði. Átján sumarbústaðir voru fluttir til Súðavíkur og fluttu tæplega 70 íbúar í húsin í mars 1995. Þáverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, tók fyrstu skóflustunguna að nýrri byggð í Súðavík 30. apríl árið 1995 og þann 23. ágúst, sama ár, voru steyptir sökklar að fyrsta nýja húsinu í Eyrardalssvæðinu. Haustið 1996 voru komnir grunnar að 51 nýju húsi og var lokið við smíði íbúðanna um veturinn. Átta hús voru flutt úr eldri byggðinni, þar af fjögur eldri hús og fjögur sem voru nýreist þegar snjóflóðið féll.

Í eldri byggðinni stóðu eftir 54 hús og íbúðir í góðu ásigkomulagi og fljótlega komu upp hugmyndir um að nýta húsin sem orlofshús yfir sumartímann. Í fyrstu voru húsin boðin til sölu og nýttu margir brottfluttir Súðvíkingar tækifærið og keyptu hús. Árið 1998 var hlutafélagið Sumarbyggð stofnað um rekstur á leigu orlofshúsa í Súðavík og í maí 1999 komu fyrstu gestirnir til dvalar í húsi á vegum Sumarbyggðar.