Snjóflóðið í Súðavík

Snjóflóðið í Súðavík er snjóflóð sem féll að morgni 16. janúar 1995 á þorpið Súðavík sem stendur við Álftafjörð við Ísafjarðardjúp. 14 manns létust í snjóflóðinu sem var mesta manntjón í snjóflóði á Íslandi frá því að 20 létust í snjóflóði í Hnífsdal árið 1910. Átta hinna látnu voru börn. Tólf til viðbótar slösuðust.
Í kjölfar þessara snjóflóða var byggð á Súðvík færð inn fyrir Eyrardalsá á öruggt svæði en íbúðarhúsnæði í eldri hluta byggðarinnar var keypt upp. Snjóflóðið í Súðavík og snjóflóðið á Flateyri sem féll aðeins níu mánuðum síðar breyttu verulega viðhorfum til snjóflóðahættu á Íslandi þannig að áhætta var metin upp á nýtt og ráðist var í gerð varnarmannvirkja á mörgum stöðum.
Staðhættir
[breyta | breyta frumkóða]Álftafjörður hefur meginstefnuna SSV–NNA, en sveigir örlítið yst og opnast til norðurs. Gamla byggðin í Súðavík er í landi hins gamla góðbýlis og útvegsjarðar í Súðavík og að nokkru leyti einnig í landi Traðar. Ofan þorpsins er Súðavíkurhlíð en svo nefnist fjallshlíðin út Álftafjörð að vestanverðu. Þorpið stendur í aflíðandi og vel gróinni brekku undir hlíðinni en utan þorpsins er Súðavíkurhlíðin brött fram í sjó. Ofan þorpsins er fjallsbrúnin í um 580 metra hæð yfir sjávarmáli og fjallið er nokkuð flatt að ofanverðu fyrir utan hrygg sem rís um 30 metra yfir umhverfi sitt ofan á fjallinu.[1]
Byggð í Súðavík var lengst af bundin við sjávarsíðuna þar sem flest íbúðarhúsin stóðu, en ofan þeirra í brekkunni voru tún, fjárhús og önnur útihús. Upp úr 1960 var farið að byggja íbúðarhús ofar í brekkunni og Túngata varð til. Flest húsin við Túngötu voru byggð á árunum 1972 til 1978. Utar í þorpinu í framhaldi af Túngötu varð svo til Nesvegur, en flest húsanna við þá götu voru reist á árunum 1978 til 1988.[2] Þann 1. desember 1994 voru 227 manns skráðir til heimilis í Súðavík.[3]
Snjóflóðahætta við Súðavík var vel þekkt fyrir hið mannskæða flóð í janúar 1995 en hættan var talin mest undir svonefndu Traðargili sem er nokkuð fyrir innan meginbyggðina eins og hún var þá. Ekki hafði orðið mannskaði áður í Súðavík vegna snjóflóða og íbúðarhús hafði ekki eyðilagst í flóði fyrr en 18. desember 1994 að snjóflóð féll úr Traðargili á íbúðarhúsið á bænum Saurum sem þá stóð aðeins fyrir ofan húsaröðina við Aðalgötu. Ábúandinn þar bjargaðist úr flóðinu en húsið eyðilagðist. Stór snjóflóð úr Súðavíkurhlíð ofan þorpsins voru sjaldgæfari en snjóflóð hafði þó fallið 6. janúar 1983 sem eyðilagði spennubreyti og fjárhús fyrir ofan byggðina og drap 50 fjár. Það flóð náði niður að íbúðarhúsi við Túngötu 2 og lagðist upp að því án þess þó að valda miklu tjóni.[4] Fyrir lá hættumat fyrir byggðina sem hafði verið samþykkt 1989 þar sem skilgreind voru hættusvæði og örugg svæði. Þar var sá hluti byggðarinnar sem var undir Traðargili á hættusvæði en hús við Túngötu og Nesveg féllu utan þess. Línan var dregin meðfram efstu húsunum þar. Það stóð til að gera aðra götu ofan Túngötu og jafnvel reisa nýjan grunnskóla þar, en fallið var frá þeim áformum eftir að hættumatið var gert.[5]
Veður í aðdraganda snjóflóðsins
[breyta | breyta frumkóða]
Óveðrið sem olli hinu mannskæða snjóflóði var vegna lægðar sem myndaðist í hafinu suður af landinu. Tölvuspár þessa tíma náðu illa utan um það sem var að gerast og reiknuðu með því að ferill lægðarinnar myndu fremur ganga austur fyrir landið án þessa að valda meiri vandræðum en éljagangi á norðaustanverðu landinu. Lægðin gekk hins vegar þvert yfir landið austanvert og aftur út á haf fyrir norðan land þar sem hún dýpkaði hratt.[6] Afar skammur fyrirvari gafst því áður en mjög slæmt veður skall á víða um land. Vindhraðamet var slegið á Hveravöllum og mesta 3 sekúndna vindhviða sem mælst hefur á Íslandi mældist kl 4 að morgni 16. janúar á Gagnheiði, 74,5 m/s.[7] Mikil snjókoma fylgdi þessu veðri um allt norðvestanvert landið og þá sérstaklega á Vestfjörðum en þar hafði einnig snjóað mikið í hægum vindi dagana áður. Vindáttin á Vestfjörðum var í fyrstu austanstæð, en eftir því sem leið á kvöldið á sunnudeginum 15. janúar færðist vindáttin til norðurs og svo rétt vestur af norðri. Norðvestanáttir eru sjaldgæfar á þessum slóðum og í bland við mikla úrkomu og skafrenning safnaðist snjór hratt í Súðavíkurhlíð ofan gömlu byggðarinnar.
Snjóflóðin 16. janúar 1995
[breyta | breyta frumkóða]Mánudaginn 16. janúar 1995, kl.06:25, féll eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar. Það féll á gömlu byggðina í Súðavík í Álftafirði. Af þeim 25 húsum sem voru á áfallasvæðinu voru 7 sem hýstu fyrirtæki og stofnanir. Þannig urðu 18 íbúðarhús fyrir flóðinu. Talið er að um 65 manns hafi verið með fasta búsetu í íbúðarhúsunum á áfallasvæðinu, en 62 þeirra hafi verið heima. Af þeim slösuðust 10 manns og 14 létust. Sumir komust af sjálfsdáðum úr húsarústunum en björgunarsveitir og sjálfboðaliðar fundu aðra. Sá síðasti sem fannst á lífi var 12 ára gamall drengur. En hann hafði þá legið í húsarústum, kaldur og hrakinn, í alls 23 klukkustundir. Á þessum tíma hafði geysað óveður á Vestfjörðum og var landleiðin milli Ísafjarðar og Súðavíkur ófær sökum snjóa og fjölmargra snjóflóða sem höfðu fallið á veginn um Súðavíkurhlíð. Björgunarlið, læknar, lögreglumenn og sjálfboðaliðar voru því flutt frá Ísafirði og nágrannasveitum sjóleiðis. Djúpbáturinn Fagranes spilaði stóran þátt í því verkefni. Á fjórða hundrað björgunarsveitarmanna af Vestfjörðum og björgunarmenn úr 10 sveitum á SV horni landsins tóku þátt í aðgerðum í Súðavík. Þar af 8 björgunarsveitarmenn í björgunarsveitinni Kofra í Súðavík. Þá er ótalinn fjöldi sjálboðaliða frá Súðavík og nágrannabyggðum sem lögðu lið. Notaðir voru leitarhundar af Vestfjörðum og frá Björgunarhundasveit Íslands. Snjóflóðið kom úr fjallinu ofan byggðarinnar, Súðavíkurfjalli, sem er 680 metrar y/s Talið er að 60.000 til 80.000 tonn af snjó hafi runnið niður hlíðina á 150 km. hraða (í 100 metra hæð y/s), en á 65 km. hraða þegar það skall efstu húsunum. Talið er að flóðið hafi verið 400 metrar að breidd. Fyrst sem „hengjuhlaup“ sem síðar kom af stað „flekaflóði“.
Uppbygging í Súðavík eftir snjóflóð árið 1995
[breyta | breyta frumkóða]Eftir snjóflóðið fluttu íbúar Súðavíkur til Ísafjarðar eða Reykjavíkur. Í kjölfar flóðsins stóðu íbúar Súðavíkur frammi fyrir því að ákveða hvort hefja ætti uppbyggingu í bænum að nýju. Það varð svo að eindreginn vilji meirihluta Súðvíkinga vildi flytja á ný í sína heimabyggð en með þeim skilyrðum þó að bæjarstæðið yrði fært á öruggt svæðið innan við Eyrardalsá. Hreppsnefnd Súðavíkurhrepps óskaði eftir því við Ofanflóðasjóð og Almannavarnaráð ríkisins að eignir Súðvíkinga á snjóflóðahættusvæðinu yrðu keyptar upp í stað þess að byggð yrðu varnarvirki ofan við þorpið. Þegar búið var að ákveða flutning byggðarinnar var fyrsta verkefnið að útvega þeim sem misstu heimili sín í snjóflóðinu bráðabirgðahúsnæði á meðan á uppbyggingu stæði. Átján sumarbústaðir voru fluttir til Súðavíkur og fluttu tæplega 70 íbúar í húsin í mars 1995. Þáverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, tók fyrstu skóflustunguna að nýrri byggð í Súðavík 30. apríl árið 1995 og þann 23. ágúst, sama ár, voru steyptir sökklar að fyrsta nýja húsinu í Eyrardalssvæðinu. Haustið 1996 voru komnir grunnar að 51 nýju húsi og var lokið við smíði íbúðanna um veturinn. Átta hús voru flutt úr eldri byggðinni, þar af fjögur eldri hús og fjögur sem voru nýreist þegar snjóflóðið féll.
Í eldri byggðinni stóðu eftir 54 hús og íbúðir í góðu ásigkomulagi og fljótlega komu upp hugmyndir um að nýta húsin sem orlofshús yfir sumartímann. Í fyrstu voru húsin boðin til sölu og nýttu margir brottfluttir Súðvíkingar tækifærið og keyptu hús. Árið 1998 var hlutafélagið Sumarbyggð stofnað um rekstur á leigu orlofshúsa í Súðavík og í maí 1999 komu fyrstu gestirnir til dvalar í húsi á vegum Sumarbyggðar.
Tengill
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Greinargerð Veðurstofu Íslands um snjóflóð í Súðavík
- Vefur Súðavíkurhrepps Geymt 6 mars 2016 í Wayback Machine
- ↑ „Rýmingaráætlun fyrir Súðavík“. Veðurstofa Íslands. Sótt 23. janúar 2025.
- ↑ Svanbjörg Helga Haraldsdóttir (maí 2005). „Byggingarár húsa í Súðavík“ (PDF). Veðurstofa Íslands.
- ↑ „Mannfjöldi eftir byggðakjörnum, kyni og aldri 1. desember 1991-1996“. Hagstofa Íslands. Sótt 22. janúar 2025.
- ↑ „Mannskaðar ekki orðið áður í snjóflóðum á Súðavík“. Morgunblaðið. 17. janúar 1995. bls. 29.
- ↑ „Horfið frá frekari byggð ofan Túngötu“. Morgunblaðið. 18. janúar 1995. bls. 8.
- ↑ Hólmfríður María Ragnhildardóttir (20. janúar 2025). „Vildu ekki viðurkenna að þarna væri snjóflóðahætta“. mbl.is.
- ↑ Trausti Jónsson. „Hver er mesti vindhraði sem mælst hefur á Íslandi?“. Vísindavefurinn.