Fara í innihald

Mjógirni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Smáþarmar)
Skýringarmynd yfir meltingarveg í mönnum.

Mjógirni, smágirni eða smáþarmur er í líffræði sá hluti meltingarkerfisins sem liggur á milli magans og digurgirnisins. Þar fer megnið af meltingunni fram. Mjógirnið fær gall og brissafa sem hjálpa til við meltinguna. Mjógirnið er um 5,5 metrar á lengd og er marg brotið saman til að það komist fyrir í kviðnum. Nafnið er dregið af því að það er mjórra en digurgirnið, þótt það sé mun lengra.

Mjógirnið skiptist í þrjá hluta: skeifugörn, ásgörn og dausgörn. Skeifugörnin er styst, og þar fer fram undirbúningur fyrir upptöku næringarefna með litlum sepum, garnatítum. Ásgörnin tekur næringarefni upp með því að hleypa örsmáum næringarögnum sem ensím í skeifugörninni hafa áður brotið niður inn í blóðrásina í gegnum lag af þekjufrumum. Helsta hlutverk dausgarnarinnar er að taka upp B12-vítamín og gallsölt, og næringarefni sem ekki voru tekin upp í ásgörninni.

Þarmaflóran í mjógirninu er minni og fábreyttari en flóran í digurgirninu. Almennt séð fjölgar í þarmaflórunni eftir því sem neðar dregur í þörmunum. Í mjógirninu er meira súrefni og lægra sýrustig en í digurgirninu, sem hefur áhrif á tegundir örvera sem það hýsir. Rannsóknir á örveruflóru mjógirnisins eru takmarkaðri en rannsóknir á ristlinum, vegna þess hve erfitt er að taka sýni.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jensen BAH, Heyndrickx M; og fleiri (2023). „Small intestine vs. colon ecology and physiology: Why it matters in probiotic administration“. Cell Reports Medicine. 4 (9). doi:10.1016/j.xcrm.2023.101190. PMID 37683651.
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.