Fara í innihald

Skólinn í Aþenu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skólinn í Aþenu eftir Rafael (1509-1510)

Skólinn í Aþenu er eitt af frægustu málverkum ítalska endurreisnarlistamannsins Rafaels (Raffaello Sanzio eða Raffaello da Urbino). Það var málað árin 1509 til 1510 og er 5,77 m hátt og 8,14 m breitt.

Rafael var falið að skreyta með veggmálverkum fjögur herbergi í Vatíkanhöllinni í Vatíkaninu sem eru nú þekktir sem Stanze di Raffaello (herbergi Rafaels). Stanza della Segnatura (þar sem Skólinn í Aþenu er) var fyrsta herbergið sem hann skreytti og Skólinn í Aþenu var annað málverkið sem hann kláraði, á eftir La disputa.

Málverkið

[breyta | breyta frumkóða]

Málverkið prýddi vegginn yfir heimspekihluta bókasafns Júlíusar II páfa og því ákvað Rafael að verkið skyldi sýna alla merkustu heimspekinga sögunnar, auk vísindamanna og stærðfræðinga klassískrar fornaldar. Grísku heimspekingarnir Platon og Aristóteles, sem voru taldir mikilvægustu heimspekingarnir á endurreisnartímanum, standa í miðju verksins fyrir ofan tröppurnar. Platon, sem er í líki Leonardos da Vinci, heldur á riti sínu Tímajosi. Aristóteles heldur á riti sínu Siðfræði Níkomakkosar. Hendur þeirra gefa til kynna heimspekilegan áhuga þeirra — Platon bendir upp til himins en Aristóteles heldur úti flatri hönd til að gefa til kynna jarðbundnara viðhorf hans.

Díogenes frá Sínópu liggur áhyggjulaus fyrir framan þá neðar í tröppunum til að sýna heimspekilegt viðhorf hans: hann fyrirleit hefðbundinn lífsstíl og allt sem honum fylgdi. Til vinstri er steinhella mikil sem er stundum talin eiga að tákna Jesús. Maðurinn sem hallar sér upp við steininn er Herakleitos, í líki Michelangelos. Honum var bætt inn eftir á. Árið 1510 laumaðist Rafael inn í Sixtusarkapelluna að nóttu til að skoða málverk Michelangelos. Hann bætti Michelangelo inn á málverkið í virðingarskyni við hann.

Sjálfsmynd Rafaels er lengst til hægri rétt fyrir neðan miðju. Þar er hann ungur maður, jarphærður, sem horfir beint á áhorfanda málverksins. Til vinstri á málverkinu er ungleg hvítklædd stúlka sem horfir einnig út til áhorfandans. Sagan segir að hún sé Margherita, ástkona Rafaels. Samkvæmt annarri túlkun er hún Hýpatía frá Alexandríu.

Heimspekingarnir

[breyta | breyta frumkóða]

Suma heimspekingana á myndinni er auðvelt að bera kennsl á enda leikur enginn vafi á því hverjir þeir eiga að vera. Þar á meðal eru Sókrates, Platon og Aristóteles. En fræðimenn eru ekki allir á einu máli um aðra heimspekinga á myndinni. Venjulega eru þeir taldir vera:[1]

1: Zenon frá Kitíon eða Zenon frá Eleu? – 2: Epikúros – 3: Friðrik II frá Mantúa? – 4: Boethius eða Anaxímandros eða Empedókles? – 5: Averroes – 6: Pýþagóras – 7: Alkibíades – 8: Antisþenes eða Xenofon? – 9: Hýpatía – 10: Æskínes eða Xenofon? – 11: Parmenídes? – 12: Sókrates – 13: Herakleitos (í líki Michelangelos) – 14: Platon, heldur á Tímajosi (í líki Leonardos da Vinci) – 15: Aristóteles, heldur á Siðfræði Níkomakkosar – 16: Díogenes frá Sínópu – 17: Plótínos? – 18: Evklíð eða Arkímedes ásamt nemendum (í líki Bramantes)? – 19: Strabon eða Zoroaster? – 20: Ptolemajos – R: Apelles (í líki Rafaels) – 21: Prótogenes (í líki Il Sodoma)

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]