Fara í innihald

Antisþenes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Antisþenes
Antisþenes
Persónulegar upplýsingar
Fæddurum 445 f.Kr.
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilFornaldarheimspeki
Skóli/hefðHafði mótandi áhrif á skóla hundingjanna
Helstu viðfangsefnisiðfræði, rökfræði, bókmenntir

Antisþenesforngrísku: Ἀντισθένης; um 445 – um 365 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og fylgjandi Sókratesar.

Antisþenes nam fyrst mælskulist hjá Gorgíasi en varð síðar hliðhollur Sókratesi. Hann þróaði siðfræðikenningar Sókratesar og boðaði meinlætalíf og dygðuga breytni. Hann var stundum álitinn upphafsmaður hundingjastefnunnar.

Antisþenes var fæddur um 445 f.Kr. og var sönur Antisþenesar frá Aþenu. Móðir hans var af þrakískum ættum.[1] Hann barðist í orrustunni við Tanagra árið 426 f.Kr.

Antisþenes nam fyrst mælskulist hjá Gorgíasi en gerðist síðan fylgjandi Sókratesar og var viðstaddur við andlát hans.[2] Hann fyrirgaf aldrei ákærendum lærimeistara síns og er sagður hafa átt þátt í að láta refsa þeim.[3]

Hann barðist í orrustunni við Levktra árið 371 f.Kr. og er sagður hafa borið saman sigur Þebumanna á Aþeningum við skólapilta sem gegnju í skrokk á lærimeistara sínum.[4] Heimildir greinir á um hvenær hann lést; segja sumar að hann hafi andast sjötugur en aðrar að hann hafi andast eftir 366 f.Kr.[5]

Díogenes Laertíos segir að ritsafn hans hafi fyllt tíu bækur en ekkert er varðveitt nema brot úr þeim. Hann virðist hafa haldið upp á samræðuformið en í sumum þeirra gagnrýndi hann harkalega samtímamenn sína, Alkibíades, Gorgías og Platon. Cicero segir að hann hafi verið greindur mjög en síður lærður (homo acutus magis quam eruditus).[6] Hann var kaldhæðinn, hnyttinn og elskur að orðaleikjum.

Marmarastytta af Antisþenesi á British Museum

Siðfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Siðfræði Antisþenesar var undir miklum áhrifum frá Sókratesi. Frá honum þáði Antisþenes meðal annars í arf þá skoðun að dygðin væri undirstaða siðferðisins en ekki ánægjan. Antisþenes kenndi að allt sem vitringurinn (þ.e. fullkomlega vitur maður) gerði samræmdist í öllu dygðinni.[7] Á hinn bóginn væri ánægja ekki einungis óþörf heldur væri hún beinlínis mannskemmandi og af hinu illa. Sagt er að hann hafi jafnvel talið sársauka og slæmt orðspor til heilla.[8]. Hann á að hafa komið orðum að þessu með því að segja „Fremur vildi ég vera vitstola en upplifa ánægju.“[9] Þó er líklegt að hann hafi ekki fyrirlitið alla ánægju, heldur einungis líkamlega ánægju og þá ánægju sem fellst í því að svala gervilöngunum, því hann er einnig sagður hafa lofað ánægjuna sem sprettur úr sál manns[10] og ánægjuna sem hlýst af sannri vináttu.[11] Hann taldi að hin æðstu gæði væru í því fólgin að lifa dygðugu líferni virtue í samræmi við náttúruna.

Náttúruspeki

[breyta | breyta frumkóða]

Í ritum sínum um náttúruspeki hélt hann fram kenningu um eðli guðanna, sem kvað á um að þótt fólk tryði á marga guði væri samt bara til einn guð í raun og veru.[12] Hann hélt því einnig fram að guðinn líktist engu á jörðu niðri og væri mönnum því fullkomlega óskiljanlegur.

Rökfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Antisþenes hélt því fram að allar skilgreiningar og umsagnir væru annaðhvort röksannindi eða ósönn.

Antisþenes og hundingjarnir

[breyta | breyta frumkóða]

Antisþenes var um síðir álitinn upphafsmaður hundingjastefnunnar en það er þó alls óvíst að hann hefði kannast við það. Aristóteles getur Antisþenesar oft í ritum sínum og fylgjenda hans, antisþenistanna, en aldrei í tengslum við hundingjana eða Díogenes frá Sínópu. Mörgum sögum fer af því að Díogenes hafi elt Antisþenes á röndum og orðið hliðhollur fylgjandi hans en þó er óvíst hvort þeir hafi í raun hist. Á hinn bóginn er sitthvað líkt í speki Antisþenesar annars vegar og hundingjanna hins vegar, svo sem áherslan á meinlætalíf.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Díogenes Laertíos, VI.1.
  2. Platon, Fædon 59B.
  3. Díogenes Laertíos, VI.9.
  4. Plútarkos, Lýkúrgos 30.
  5. Díodóros Sikileyingur, XV.76.4.
  6. Cicero, Epistulae ad Atticum, XII.38.
  7. Díogenes Laertíos, VI.11.
  8. Díogenes Laertíos, VI.3, 7.
  9. Díogenes Laertíos, VI.3.
  10. Xenofon, Samdrykkjan, VI.41.
  11. Díogenes Laertíos, VI.12.
  12. Cicero, De Natura Deorum, I.13.

Heimildir og ítarefni

[breyta | breyta frumkóða]
  • Navia, Luis E., Antisthenes of Athens: Setting the World Aright (Greenwood Press, 2001).
  Þessi fornfræðigrein sem tengist heimspeki er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.