Skógarmítill
Skógarmítill | ||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Ixodes ricinus
| ||||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||
| ||||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||||
Ixodes ricinus (Linnaeus, 1758) | ||||||||||||||||
Skógarmítill (einnig kallaður blóðmítill) (fræðiheiti:Ixodes ricinus) er blóðsuga á spendýrum sem heldur sig í gróðri, einkum í skógarbotnum.
Útbreiðsla
[breyta | breyta frumkóða]Skógarmítill er útbreiddur um alla Evrópu milli 39° og 65°N, frá ströndum Portúgals og Írlands austur til Volgu í Rússlandi og þaðan suður til Miðjarðarhafsstrandar Norður-Afríku. Einnig finnst hann í Færeyjum og koma hans til Íslands var staðfest árið 1967. Þá fannst skógarmítill á þúfutittlingi sem var veiddur í Surtsey, nýkominn til landsins og þar með varð ljóst að hann getur borist yfir höf með fuglum. Hann virðist kominn til að vera því síðan þá hefur hann fundist um allt land, þó mest sunnanlands, frá því snemma sumars og fram eftir hausti.
Lífsferli
[breyta | breyta frumkóða]Skógarmítill er áttfætla, skyldur köngulóm og öðrum mítlum. Lífsferill þeirra skiptist í þrennt, lirfu, ungviði og fullorðið dýr og þarfnast þeir blóðs á hverju stigi þess og alltaf stærri og stærri dýra eftir því sem þeir vaxa. Eftir að mítillinn klekst úr eggi verður hann sexfætt lirfa sem liggur í dvala yfir veturinn. Að vori skríður lirfan svo upp og sætir færi að ná til hýsils til að sjúga blóð. Síðsumars skiptir hún um ham og verður mítillinn þá að áttfættu ungviði sem aftur leggst í dvala yfir veturinn. Næsta vor skríður hann aftur upp og breytist í fullorðinn mítil ef honum tekst að finna góðan hýsil til að sjúga blóð úr. Að lokum leggst hann í dvala enn einn veturinn og endurtekur leikinn að vori. Eftir þetta drepst karldýrið en kvendýrið verpir eggjum áður en það drepst. Fullorðnir eru mítlar milli 0,5–1,1 cm að lengd en ungviðið er miklum mun smærra. Á flestum stöðum nær þessi þrískipti lífsferill mítilsins yfir 2-3 ár en það er þó háð bæði loftslagi og þeirri fæðu sem í boði er.
Sem lirfur leggjast mítlarnir einkum á minni dýr eins og fugla og mýs en geta einnig fundist á stærri dýrum eins og hundum og köttum. Fullorðnir skógarmítlar lifa nær eingöngu á stórum spendýrum eins og hjartardýrum og sauðfé en á Íslandi hafa þeir fundist í hundum, köttum, sauðfé, hestum og mönnum.
Sjúkdómar
[breyta | breyta frumkóða]Skógarmítillinn getur borið alvarlega sýkla í fórnarlömb sín og því verið mjög hættulegur. Til dæmis bakteríuna Borrelia burgdorferi sem veldur svokölluðum Lyme-sjúkdómi meðal manna sem m.a. getur valdið alvarlegum skaða á taugakerfi.[1] Skógarmítlar geta einnig borið með sér TBE-veirusjúkdóm (mítilborna heilabólgu).
Þekkt er önnur tegund blóðsugumítla hér á landi, svokölluð lundalús (Ixodes uriae). Lundalýs lifa á sjófuglum og hefur verið sýnt fram á að í þeim finnast bakteríur af ættinni Borrelia. Ekki hefur þó verið sýnt fram á að lundaveiðimenn hafi sýkst af völdum Borrelia þótt lundalús hafi bitið þá.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Borrelíósa - Lyme sjúkdómur“. Embætti Landlæknis. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2013. Sótt 13. júlí 2012.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Skógarmítill Geymt 23 ágúst 2011 í Wayback Machine Pödduvefur Náttúrufræðistofnunar Íslands (skoðað 13. júlí 2112)
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Blóðmítill eða skógarmítill Geymt 26 júlí 2013 í Wayback Machine frétt á vef Skóræktar Ríkisinns 09.11.2009 (skoðað 13. júlí 2012)
- Skógarmítill að breiðast út um landið – Mikilvægt að kynna sér hættuna sem fylgir biti Geymt 7 maí 2013 í Wayback Machine frétt á feykir.is 26.7.11 (skoðað 13. júlí 2012)