Fara í innihald

Sigurdagurinn í Evrópu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
„Sigurdagurinn“ er haldinn hátíðlegur í Rússlandi 9. maí ár hvert. Það er ma. gert með hersýningum á Rauða torginu. Árið 2010 tóku herdeildir úr röðum bandamanna þátt ma. Frakkar, Bretar og Bandaríkjamenn.

Sigurdagurinn í Evrópu er merksidagur, sem haldinn er hátíðlegur 8. maí ár hvert í mörgum ríkjum Evrópu til að minnast sigurs bandamanna á Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni. Þennan dag, árið 1945, undirritaði Karl Dönitz, forseti Þýskalands, uppgjafarsáttmála fyrir hönd Þjóðverja, sem fól í sér skilyrðislausa uppgjöf herja Þýskalands og mörkuðu þannig endalok Þriðja ríkis og seinni heimsstyrjaldarinnar. Yfirlýsing um hernaðarlega uppgjöf var undirrituð þann 7. maí í Reims, Frakklandi og fullgilt þann 8. maí í Berlín, Þýskalandi. Uppgjöfin gekk í gildi kl. 23:01 að miðevrópskum tíma þann 8 maí. Sigurdagurinn er því haldinn hátíðlegur þann 8. maí hjá ríkjum vestan megin Berlínar en ríki Austur Evrópu halda sigurdaginn 9. maí.

Winston Churchill forsætisráðherra heilsar fagnandi mannfjöldanum á Sigurdaginn.
Yfirlýsingin um hernaðarlega uppgjöf sem undirrituð var í Reims þann 7. maí 1945.

Hátíðarhöld

[breyta | breyta frumkóða]

Milljónir manna um fögnuðu endalokum stríðsins. Í London, streymdi mannfjöldi frá Trafalgar-torgi upp að Buckingham-höll, þar sem George VI konungur og Elizabeth drottning, í fylgd með Winston Churchill forsætisráðherra, birtust á hallarsvölunum og heilsuðu fagnandi mannfjöldanum.

Wilhelm Keitel hersöfðingi þýsku herjanna undirritar skilmála um skilyrðislausa uppgjöf

Harry S. Truman forseti Bandaríkjanna, sem átti 61 árs afmæli þennan dag, tileinkað sigurdaginn minningu um forvera sinn, Franklin D. Roosevelt, sem lést tæplega mánuði fyrr, þann 12. apríl. Flaggað var því í hálfa stöng vegna 30 daga yfirlýstra sorgardaga, sem lauk 12. maí. Mikil hátíðahöld fóru fram í Chicago, Los Angeles, Miami, og sérstaklega á Times Square torgi í New York-borg.

Sigurdagur Sovétríkjanna (9. maí)

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar uppgjafaryfirlýsing herja Þjóðverja tók gildi kl. 23:01 CET var kominn 9. maí í Moskvu. Sigurdagurinn er því haldinn hátíðlegur þann 8. maí hjá ríkjum vestan megin Berlínar en ríki Austur Evrópu halda sigurdaginn 9. maí.

Friði fagnað á Íslandi - Róstursamt í Reykjavík

[breyta | breyta frumkóða]

Mikill og einlægur fögnuður var um allt Ísland. Frelsun Norðurlanda var einnig fagnað sérstaklega. Í Reykjavík, Akureyri og fleiri kaupstöðum og kauptúnum var mikið um dýrðir.

Þennan dag var Reykjavík var fánum prýdd. Allar verslanir og stofnanir voru lokaðar frá hádegi. Skip í Reykjavíkurhöfn þeyttu flautur í klukkustund. Vinna féll alls staðar niður frá hádegi og litlu síðar fór fólk að streyma saman í miðbænum úr öllum áttum. Gríðarlegur mannfjöldi var samankominn í miðbæ Reykjavíkur til þess að fagna sigri bandamanna í Evrópu.Eftir hádegi hófst hátíðahald við Austurvöll að tilhlutan ríkisstjórnarinnar og borgarstjórans í Reykjavík. Þar fluttu Sveinn Björnsson forseti Íslands og Ólafur Thors forsætisráðherra ávörp og sendiherrar.

Þegar líða tók á kvöld varð mjög róstusamt í miðborginni. Víða fóru hópar syngjandi hermanna um. Til átaka kom og varð lögregla að beita táragasi í fyrsta skipti í Reykjavík til að dreifa mannfjöldanum og stilla til friðar. Rúður voru brotnar í verslunum og tjón var talsvert.

Á Akureyri voru fánar við hún frá því snemma um morguninn í sunnan andvara og sól. Fólk safnaðist saman á Ráðhústorgi til að fagna. Gjallarhorni hafði verið komið fyrir á torginu og heyrðist útvarp frá Reykjavík um torgið og nágrenni. Fjöldi manns hlýddi þar á ávörp forseta Íslands og forsætisráðherra. Lúðrasveit Akureyrar lék og Karlakór Akureyrar og „Geysir“ sungu þjóðsöngva Norðurlanda. Síðan var samkoma í MA.

Mikill fögnuður var í Reykjavík á sigurdaginn 8. maí 1945. Endaði það með rósturum og táragasi.