Fara í innihald

Sigurbergur Elísson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurbergur Elísson (7. ágúst 18992. október 1969) var bifreiðarstjóri, verkstjóri hjá Reykjavíkurborg og formaður Knattspyrnufélagsins Fram.

Ævi og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Sigurbergur hóf ungur störf sem atvinnubílstjóri í Reykjavík. Hann var ráðinn sem slíkur til gatnagerðar Reykjavíkurbæjar og var þar síðar verkstjóri í rúma tvo áratugi.[1]

Árið 1929 dróst Sigurbergur inn í hinn harðvítuga heim íslenskra stjórnmálaátaka með sérkennilegum hætti. Höfðu flutningabíll Sigurbergs og embættisbifreið dómsmálaráðherrans Jónasar Jónssonar rekist saman inni við Elliðaár og komst ráðherrann ekki leiðar sinnar fyrir vörubílnum. Fluttu Morgunblaðið og Tíminn hvort um sig fregnir af málinu. Staðhæfði fyrrnefnda blaðið að ráðherrann hefði misst stjórn á skapi sínu og hótað bílstjóranum tukthúsvist, en Tíminn dró taum síns manns og kallaði sandbílstjórann Íhalds-Sigurberg sem margsinnis hefði verið sektaður af lögreglunni fyrir vöntun á góðum siðum. [2][3][4]

Íþróttamál

[breyta | breyta frumkóða]

Sigurbergur var formaður Knattspyrnufélagsins Fram árið 1951-52 og er einn örfárra formanna í sögu félagsins sem ekki keppti í íþróttum undir merkjum þess. Hann var hins vegar alla tíð viðloðandi Fram og var til að mynda bílstjóri hins sigursæla meistaraflokksliðs á þriðja áratugnum.

Árið 1945 urðu Framarar fyrsta knattspyrnuliðið í Reykjavík til að eignast eigin knattspyrnuvöll þegar ruddur var malarvöllur á nýju félagssvæði Fram fyrir neðan Stýrimannaskólann. (KR og Valur eignuðust bæði félagssvæði á undan Frömurum, en voru ekki búin að koma upp völlum.) Vegna reynslu sinnar af jarðvegsframkvæmdum var Sigurbergi falið að ryðja félagssvæðið og stýra vallargerðinni. Hann átti sömuleiðis stærstan þátt í byggingu félagsheimils Fram í Skipholtinu árið eftir.

Sigurbergur var gerður að heiðursfélaga í Fram á sextíu ára afmæli félagsins árið 1968.

Fyrirrennari:
Guðni Magnússon
Formaður Knattspyrnufélagsins Fram
(19511952)
Eftirmaður:
Gunnar Nielsen


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Morgunblaðið 9. október 1969“.
  2. „Morgunblaðið 11. júlí 1929“.
  3. „Morgunblaðið 31. júlí 1929“.
  4. „Tíminn 3. ágúst 1929“.