Sheikh Mujibur Rahman

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sheikh Mujibur Rahman
শেখ মুজিবুর রহমান
Sheikh Mujibur Rahman árið 1950.
Forseti Bangladess
Í embætti
17. apríl 1971 – 12. janúar 1972
Í embætti
25. janúar 1975 – 15. ágúst 1975
Forsætisráðherra Bangladess
Í embætti
12. janúar 1972 – 24. janúar 1975
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. mars 1920
Tungipara Upazila, breska Indlandi (nú Bangladess)
Látinn15. ágúst 1975 (55 ára) Dakka, Bangladess
ÞjóðerniBangladesskur
StjórnmálaflokkurAwami-bandalagið
MakiSheikh Fazilatunnesa Mujib
BörnHasina, Kamal, Jamal, Rehana, Russel
HáskóliIslamia-háskóli, Háskólinn í Dakka
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Sheikh Mujibur Rahman (bengalska: শেখ মুজিবুর রহমান; 17. mars 192015. ágúst 1975) var bengalskur þjóðernissinni og leiðtogi baráttunnar fyrir sjálfstæði Bangladess.

Hann tók þátt í að stofna Awami-bandalagið og barðist gegn því að úrdú yrði opinbert tungumál í Austur-Bengal og að nafni héraðsins væri breytt í Austur-Pakistan. Þegar Ajib Khan rændi völdum í Pakistan var Mujib handtekinn og honum haldið í fangelsi til 1961. Eftir það hóf hann að skipuleggja andspyrnu gegn stjórn Khans og baráttu fyrir sjálfstæði Austur-Bengal. Árið 1966 setti hann fram áætlun í sex liðum sem gerði ráð fyrir því að Pakistan yrði sambandsríki. Þessi áætlun naut mikils stuðnings í Austur-Pakistan en hann var brátt handtekinn á ný fyrir að kynda undir aðskilnaðarstefnu. Handtakan hratt af stað öldu mótmæla í Austur-Pakistan og á endanum lét stjórnin hann lausan. Hann lýsti þá yfir að heiti Austur-Pakistans skyldi vera Bangladess. Þegar Bhola-fellibylurinn gekk yfir Austur-Pakistan í nóvember 1970 jókst andstaða við stjórnina enn þar sem íbúarnir töldu hana hafa brugðist seint og illa við ástandinu. Í kosningum í desember sama ár vann Awami-bandalagið stórsigur í Austur-Pakistan og fékk hreinan meirihluta á pakistanska þinginu. Zulfikar Ali Bhutto, leiðtogi alþýðuflokks Pakistan og herinn voru andsnúnir því að Mujib yrði næsti forsætisráðherra Pakistan, en Bhutto óttaðist borgarastyrjöld og bauð því Mujib að taka þátt í samsteypustjórn.

Forseti Pakistan, Yahya Khan, frestaði því að kalla þingið saman sem stuðningsmenn Awami-bandalagsins litu á sem tilraun til að koma í veg fyrir að bandalagið tæki við völdum. Á endanum lýsti Yahya Khan herlög í gildi og bannaði Awami-bandalagið. Mujib var handtekinn. Tilraunir pakistanska hersins til að koma á lögum og reglu í Austur-Pakistan enduðu með blóðbaði, pyntingum og morðum. Stórir hópar hindúa flúðu til Indlands. Lögregla og her í Austur-Pakistan gerðu brátt uppreisn og alþjóðasamfélagið beitti Pakistan þrýstingi til að hefja samningaviðræður við Mujib. Brátt hóf Indlandsher að styðja vopnaða andspyrnu gegn stjórn Pakistan. Pakistan brást við með því að ráðast á ellefu indverska flugvelli 3. desember 1971. Indlandsher hóf þá formlega þátttöku í sjálfstæðisbaráttu Bangladess og eftir stutt átök gafst her Pakistan upp. Í kjölfarið sagði Yahya Khan af sér og Bhutto tók við sem forseti Pakistan. Hann ákvað að leysa Mujib úr haldi. Mujib gat þá snúið aftur til Bangladess þar sem hann varð forsætisráðherra.

Landið glímdi við mikla erfiðleika eftir borgarastyrjöldina og fellibylinn. Ný stjórnarskrá landsins byggðist á „þjóðernishyggju, veraldarhyggju, lýðræði og sósíalisma“. Mujib þjóðnýtti hundruð fyrirtækja og hóf umbætur í landbúnaði. Samt sem áður gekk landið í gegnum verstu hungursneyð í sögu þess árið 1974. Stjórn Mujibs brást við óeirðum í kjölfarið með því að lýsa yfir neyðarlögum. Þann 15. ágúst 1975 skipulögðu fyrrum félagar hans í Awami-bandalaginu valdarán með aðstoð hersins. Þeir réðust inn í forsetahöllina og myrtu Mujib ásamt fjölskyldu hans og starfsliði. Eftir valdaránið einkenndi pólitískur órói landið þar til herforinginn Ziaur Rahman tók við völdum 1977.

Dóttir Mujib, Sheikh Hasina Wazed, er núverandi forsætisráðherra Bangladess.


Fyrirrennari:
enginn
Forseti Bangladess
(1971 – 1972)
Eftirmaður:
Nazrul Islam
Fyrirrennari:
Tajuddin Ahmed
Forsætisráðherra Bangladess
(1972 – 1975)
Eftirmaður:
Muhammad Mansur Ali
Fyrirrennari:
Mohammad Mohammadullah
Forseti Bangladess
(1975 – 1975)
Eftirmaður:
Khondaker Mostaq Ahmad


  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.