Saarlenska karlalandsliðið í knattspyrnu
Íþróttasamband | (Þýska: Saarländischer Fussball-Verband) Knattspyrnusamband Saarlands | ||
---|---|---|---|
Álfusamband | UEFA | ||
Þjálfari | Helmut Schön | ||
Leikvangur | Ludwigspark Stadion, Saarbrücken | ||
| |||
Fyrsti landsleikur | |||
5-3 gegn Sviss (B-lið), 22. nóv., 1950 | |||
Stærsti sigur | |||
5-2 Sviss (B-lið), 15. sept., 1951 | |||
Mesta tap | |||
1-7 gegn Úrúgvæ, 5. júní 1954 |
Saarlenska karlalandsliðið í knattspyrnu var fulltrúi Saarlands í knattspyrnu á árunum 1950 til 1956. Liðið tók þátt í forkeppni HM í Sviss 1954 en var leyst upp eftir sameiningu héraðsins við Vestur-Þýskaland.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Við uppskiptingu Þýskalands við lok síðari heimsstyrjaldarinnar var Saar-héraðið skilið frá hinu nýja Vestur-Þýskalandi. Sjálfstætt knattspyrnusamband var stofnað árið 1948. Félagslið Saarlands léku í sjálfstæðri héraðsdeild, ef frá er talið hið sterka lið 1. FC Saarbrücken sem lék í frönsku 2. deildinni sem FC Sarrebruck veturinn 1948-49. Liðið vann deildina en var meinað að færast upp í efstu deild á fundi franskra knattspyrnuliða. Ákvörðunin olli Jules Rimet slíkum vonbrigðum að hann sagði af sér sem forseti franska knattspyrnusambandsins.
1. FC Saarbrücken brást við höfnuninni með því að efna til alþjóðlegrar knattspyrnukeppni, Saarlandpokal, sem sumir telja kveikjuna að Evrópukeppni meistaraliða, en 1. FC Saarbrücken tók þátt í þeirri keppni þegar hún var haldin í fyrsta sinn árið 1955.
Knattspyrnusamband Saarlands fékk aðild að FIFA þann 12. júní 1950, á undan bæði Vestur- og Austur-þýsku knattspyrnusamböndunum. Árið eftir keppti Saarland sinn fyrsta landsleik, þótt raunar kysu Saarlendingar að tala um liðið sem úrvalslið fremur en eiginlegt landslið, enda litu þeir ekki á sig sem sjálfstæða þjóð. Úrvalslið þetta lék alls nítján leiki á næstu árum, þar af tíu gegn B-landsliðum. Fyrsti leikurinn var einmitt gegn B-liði Sviss. Allar fóru þessar viðureignir fram í Evrópu ef frá er talin einn leikur gegn Úrúgvæ í Montevídeó.
Saarland skráði sig til leiks í forkeppni HM í Sviss 1954. Þar mætti liðið ofjörlum sínum í nágrönnunum Vestur-Þjóðverjum en höfnuðu ofar en Norðmenn. Þjálfari Saarlands í þessum leikjum var Helmut Schön sem síðar átti eftir að gera Vestur-Þjóðverja að heimsmeisturum.
Í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1955 var samruni Saarlands og Vestur-Þýskalands samþykktur, frá og með 1. janúar 1957. Saarlendingar léku sinn síðasta landsleik í Amsterdam í júní 1956 og lauk honum með naumu 3:2 tapi.